28.8.2012 | 00:24
Fólksflótti og eyðing skóga
MÖRkER OCH BLÅBÄRRIS (1972) Kerstin Ekman
Ég hélt að ég væri að lesa morðsögu. Mislas titilinn, MÖRDER OCH BLÅBÄRRIS í staðinn fyrir Mörker och blåbärris. Líkleg ástæða mislesturs er óskhyggja þótt mér sé ekki ljúft að viðurkenna það. Áður hafði hún skrifað átta bækur sem líklega er hægt að flokka sem glæpasögur. Sú næsta á undan er reyndar söguleg umfjöllun út frá gögnum um líklegt réttarmorð, dóminn yfir Joe Hill (Menedarna).
Bókin Mörker och blåbärris segir frá fólki á landsbyggðinni sem horfir á byggðarlagið sitt drabbast niður. Það er litla sem enga atvinnu að hafa lengur og þeir sem enn eru eftir í heimabyggð lifa ýmist á atvinnuleysisbótum eða þeir sækja vinnu langan veg. Stundum er hægt að fá einhverja snattvinnu svart. Í upphafi sögunnar er Helga, aðalpersóna bókarinnar ein heima. Sambýlismaðurinn vinnur í verksmiðju langan veg í burtu en kemur heim um helgar og stjúpdóttir hennar, Åsa, úr fyrra hjónabandi er atvinnulaus með lítinn dreng í Stokkhólmi. Sambýlismaðurinn ákveður skyndilega að hætta í vinnunni, ástæðan er alvarlegt óhapp, vinnuslys sem næstum kostar hann lífið. Hann veit að það er enga vinnu að hafa og heimsækir stjúpdóttur sambýliskonunnar í Stokkhólm. Eftir þetta kemur hún heim með drenginn og þau búa öll saman og basla við að framfleyta sér. Til að gera sér dagamun og kannski af einhvers konar þörf fyrir uppreisn gegn reglum samfélagsins taka þau til við að brugga og fleiri leggja þeim lið og bruggið verður mjög gott, fullkomið. Þau eyða sumrinu í að vera saman úti í náttúrunni, veiða og brugga. Og það er mikið drukkið. En þetta er ekki það sældarlíf sem það lítur út fyrir, það er einhver undiralda. Helga er óörugg um samband sitt og sambýlismannsins, er hugur hans meira hjá ungu konunni stjúpdóttur hennar? Brennivín og afbrýðisemi er hættuleg blanda og á tímabili var ég næstum viss um að einhver yrði drepinn þótt ég vissi að þetta væri ekki glæpasaga. Við sögu koma líka fleiri persónur því þetta er lýsing á þorpi.
Kerstin Ekman er snjöll að draga upp mynd af mannlífi og sænskri náttúru. Það er eins og náttúran og landslagið séu persónur í sögunni. Það er greinilegt að höfundur hefur samúð með þessari deyjandi byggð og með náttúrunni, skóginum sem enn er verið að eyða eða nytja, eftir því hvernig litið er á það. En það eru ekki heimamenn sem græða, það eru aðrir.
Ég er satt að segja glöð að það skuli enginn hafa verið drepinn í þessari bók og ég hafði stundum áhyggjur af litla drengnum, að hann gleymdist í afbrýðiseminni og fylliríinu. En það slapp.
Fyrir þessa bók fékk Ekman verlaun frá Landsbygdens författarstipendium (1973), höfundarverðlaun strjálbýlisins. Líklega eru engin slík verðlaun til hér en það mætti stofna til þeirra.
Heillandi bók og á jafn vel við í dag og þá, landsbyggðin berst enn þá í bökkum og enn eru einhverjir sem reyna að gera sig ríka á hennar kostnað. Jafnt hér og í Svíþjóð.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 10
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189006
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.