Sögusveigur um grænlenskan veruleika: KIM LEINE

Einu sinni var ég svo heilluð af Grænlandi að ég stofnaði sérstakan Grænlandssjóð fyrir sjálfa mig sem ég safnaði í peningum fyrir dósir og fleira sem mér áskotnaðist til hliðar við launin. Satt best að segja var ég nokkuð góð að safna dósum og sjóðurinn var farinn að nálgast það að geta fjármagnað ferð til Grænlands, aðra leiðina. En þá riðu einhver fjárhagsleg vandræði yfir heimilið (ég man ekki hver)  og  mér fannst ég ekki lengur geta varið það að halda þessum sjóði fyrir mig.

Nú hef ég lokið við að lesa TUNU, bók eftir Kim Leine. Þetta er önnur bókin sem ég les eftir þennan höfund. Sú fyrri var KALAK sem ég hef þegar gert grein fyrir. Satt best að segja er ég ekki viss um að mig langi enn til Grænlands, ég er dálítið hikandi. Landslagið hefur að vísu ekki breyst og ég veit miklu meira um Grænland nú en þá. En þessar tvær bækur Kim Leine komu illa við mig.

TUNU er, það sem ég held að ég hafi í jólabókarumræðunni verið kallað, sögusveigur. Bókin er uppbyggð sem 25 sjálfstæðar frásagnir, smásögur. Sögusviðið er einangruð byggð á Grænlandi, eyja. Sögupersónurnar tengjast en sjónarhornið er breytilegt. Maður fréttir af örlögum sögupersóna úr fyrri sögum smátt og smátt en þá í einhverju allt öðru samhengi, þær eru orðanar aukapersónur í sögu sem fjallar um aðra persónu. Þetta er svolítið eins og að koma í nýtt byggðarlag og kynnast fólkinu þar í gegnum frásagnir sveitunganna. Afar trúverðug nálgun. Ég sem hef búið álitlega búta úr ævi minni í strjálbýli gat ekki varist því að velta því fyrir mér hvort og þá hver væri munurinn á íslensku og grænlensku strjálbýli. Það er eðlilegt að spyrja en að sjáfsögðu ekki hægt að svara út frá því að lesa tvær bækur eftir sama höfund. Jafnvel þótt hann sé góður höfundur.

Þótt margt sé í eðli sínu líkt í litlum og einangruðum samfélögum er trúlega ekki hægt að líkja lífinu á Grænlandi við líf í íslensku þorpi. Einangrunin er meiri þar, menningin önnur og vonin um betra líf fjarlægari. Satt að segja hef ég hvergi í íslensku þorpi kynnst öðrum eins örlögum, lánleysi, lauslæti og hrottaskap eins og lýst er í þessari bók. Ég held að til að finna eitthvað í líkingu við það sem höfundur lýsir þyrfti frekar að bera sig saman við stórborg. Það sem þó situr eftir og er líkt á Grænlandi og hér er að allir vita allt um alla og allir láta sig allt varða. Enginn er óþekktur.

Bókin TUNU er sem sagt áhrifamikil bók því hún læðir því inn hjá lesandanum að svona hafi þetta verið og svona sé það. Að bókin sé ekki bara skáldskapur eða þá að hún sé svo góður skáldskapur að hún sé í raun sönn. En mig langar ekki til Grænlands í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 188997

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband