24.7.2012 | 10:56
Kalak: Skítugur Grænlendingur
Í gegnum ágæta vinkonu mína fékk ég fregnir af svo til nýjum dönskum rithöfundi; Kim Leine. Þú verður að lesa hann sagði hún. Í Norræna húsinu voru tvær bækur inni, KALAK og LUNU. Nú hef ég lokið við þá fyrri, KALAK. Hún var reyndar alveg óvart á sænsku, þegar að var gáð sem mér þótti miður því ég hef það fyrir reglu að lesa bækur á frummálinu ef ég get.
Fyrst las ég svolítið til um höfundinn. Kim (f. 1961) er norsk-danskur og hefur búið í fleiri ár á Grænlandi. Hann er menntaður hjúkrunarfræðingur sem fór seint að skrifa eða ekki fyrr en að hann var búinn að koma sér út úr húsi í vinnunni fyrir lyfjamisnotkun. KALAK (2007) er fyrsta bók hans en hún byggir á hans eigin lífi. Síðan hafa komið út fleiri bækur og m.a. bókina PROFETERNE Í EVIGHETSFJORDEN, en það var sú bók sem vinkona mín varð svo hrifin af.
Bókin KALAK byggir,sem fyrr segir, á lífi Kim Leine sjálfs. Hún segir frá ungum manni sem rífur sig frá því lífi sem hann hefur lifað hjá móður sinni í Noregi. Móðir hans tilheyrir söfnuði Votta Jehóva en faðir hans sem er danskur hafði einnig tilheyrt þessum söfnuði en sagt skilið við hann. Yfirgefið konuna og dreginn og flutt til baka til Danmerkur. Unglingurinn Kim flýr á náðir pabba síns í Kaupmannahöfn en hann býr nú með vini sínum Svend. En þetta er flótti úr öskunni í eldinn, því faðirinn er ekki bara frjálslyndur hommi heldur misnotar hann son sinn í krafti reynsluleysis hans og þess valds sem hann hefur yfir honum. Þótt þessu linni um síður verður samband þeirra feðga alla tíð afar erfitt og stormasamt. Það er fyrst í bókarlok að það glittir í að sonurinn segi hug sinn allan og slíti samskiptum.
Söguhetjan Kim á auðvelt með nám og kýs að verða hjúkrunarfæðingur. Á bak við val hans lúrir draumurinn um að komast sem lengst burtu frá Danmörku, frá pabba. En örlögin haga því þó þannig að hann fær vinnu á Grænlandi. Þangað flytur hann með konu og tvö börn. Hann heillast af landinu. Honum gengur vel í starfi en einkalíf hans horfir í óefni. Hann drekkur og stundar kvennafar og um það er stór hluti þessarar sögu. Síðar fer hann einnig að misnota lyf. Frásögn hans af þessu er mjög opinská. Konurnar verða margar og stöðugt fylgja lýsingar. Satt best að segja leiðast mér samfaralýsingar, ég tala nú ekki um þegar þær verða tilþrifamiklar og langar. Undir lokin runnu þessar konur svolítið saman fyrir mér. Skýrslan um fylliríin og lyfjanotkunina reyndi líka á þolrif mín sem lesanda. En frásaga hans frá landinu, Grænlandi hélt bókinni uppi. Hann segir frá lífi fólksins og samskiptum sínum við það og frá náttúrunni, fjöllunum og tungumálinu. Allt þetta heillar hann og þegar hann fer "heim" til Danmerkur leiðist honum, hann verður kvíðinn eða þunglyndur. Eða allt þetta.
En það er samt eitthvað við þessa bók sem gerir hana þess virði að lesa hana. Í huganum bar ég höfundinn saman við Suzanne Brögger sem ég hafði og hef mikið dálæti á. Suzanne gekk, á sínum tíma fram af mér með safaríkum lýsingum á kynlífi í sínum bókum en þá var það nýnæmi. Og svo er Suzanne alveg ómótstæðileg, falleg og gáfuð. En nú er ég líklega komin út fyrir efnið.
Nú býr Kim Leine með sinni nýju fjölskyldu í Kaupmannahöfn og skrifar
http://www.youtube.com/watch?v=hlAQ_XLJpHY
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189003
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.