Sagan af peysunni dýru

Systir mín er er fagmanneskja í að prjóna peysur. Einu sinni fyrir þó nokkrum árum fékk ég hana til að prjóna mér peysu nákvæmlega eins og mig langaði í. Hún átti að vera mórauð og hneppt og vel stór. Ég fékk peysuna síðan sem jólagjöf og hún var nákvæmlega eins og ég vildi hafa hana nema óþarflega "vel við vöxt". Mórauð peysa með gráum og hvítum bekk og handunnum lerkitölum (líklega frá Eyvindará). Ég ákvað að þæfa hana til að gera hana passlega og við það varð hún enn hlýrri. Þessi peysa hefur reynst mér afar vel, frábær í bílinn í vetrarkuldanum og ekki síður góð inni við ef manni finnst að maður þurfi að taka úr sér hrollinn. Ég tek hana alltaf með í ferðalög innanlands og oft hefur hún komið sér vel í útilegum til að leggja yfir svefnpokann eða bara eða til að hleypa sér í til að fá í sig hita eftir nóttina. Peysan er sem sagt ekki alveg ný, hún er nægilega slitin til að ullin stingur ekki en tölurnar hafa týnt tölunni ef það er hægt að segja svoleiðis. Í sumar var ég svo bráðheppin að ég fann ljómandi fallegar handunnar birkitölur í ferðamannabúð við Ásbyrgi. Þær eru að vísu allt öðru vísi en lerkitölurnar sem fyrir voru en fara ágætlega og þessar ósamstæðu tölur gefa peysunni sérstakan karakter. Finnst mér.

En allt í einu kemur babb í bátinn. Eftir 19 daga ferðalag með peysuna góðu, gleymi ég henni á veitingastað nánar til tekið Hlíðarenda á Hvolsvelli. Ég saknaði hennar þegar ég kom heim og vissi hvar hún var. Daginn eftir hringdi ég (það tók mig langan tíma að finna símanúmerið og ég varð loks að fá aðstoð 118) til að ganga frá því að fá hana senda. Ungi maðurinn (röddin var ung) kannaðist vel við peysuna og sagði að hann myndi senda hanna með næstu ferð Strætó. Ég gæti síðan nálgast hana uppi í Mjódd en þar stoppar Strætó frá Hvolsvelli. Nú veit ég að það eru strætóferðir á Hvolsvöll. Degi síðar hjóla ég upp í Mjódd en ekki var peysan þar og ungur maður sagði mér að e.t.v. hefði hún verið send á Hlemm en þangað færu óskilamunir. Degi síðar, ég þangað en engin peysa. Eftir þetta tók ég heilan dag til að hvíla mig og hugsa málið. Degi síðar hringdi ég til Hvolsvallar og spurðist fyrir um peysuna. Kona sem var þreytuleg í röddinni sagði mér að peysan væri þar enn og sagðist myndi senda hana með Stern á Umferðamiðstöðina. Hún sagði mér seinna í samtalinu að það væri mikið að gera hjá þeim. Næsta dag dró ég enn fram hjólið og spyrst fyrir um peysinu á Umferðamiðstöð. Það var ekki mikið að gera hjá Stern svo stúlkan í afgreiðslunni hafði góðan tíma til að ganga úr skugga um að peysan var ekki þar. Nú var ég farin að halda að eitthvað hefði komið fyrir peysuna mína dýru og hringdi á Hvolsvöll. Konan í símanum kannaðist við þetta mál og nú upphófst bið í símanum. Fólkið í afgreiðslunni kallaðist á og ræddist við um hvar hún gæti verið niður komin. Loks sagði röddin í símanum mér það að peysan væri þar enn. Hún hefði aldrei farið með Stern. Þegar ég spurðist fyrir um hvert yrði framhaldið sagðist hún ekki geta sagt mér hvenær hún kæmi, það væru bílstjórarnir sem réðu því hvaða pakka þeir tækju. Nú fann ég að kannski var ég ekki eins jákvæð og þolinmóð og mig langaði að vera. Höfðu bílstjórarnir kannski tekið einhverja aðra pakka og sett mig hjá? Hvers átti ég að gjalda? En ég náði svona nokkurn veginn valdi á skapi mínu og sagði að ég myndi þá bíða. Ég hefði getað sleppt því að það væri gott að það væri ekki vetur og að ég væri búin að hjóla út um alla borg.

Það sem ergir mig eftir allt þetta er: Af hverju hafa fyrirtæki ekki lag á því að koma til skila hlutum sem fólk gleymir. Það er eðlilegt að fólk gleymi og af hverju er það þá ekki sett inn að vera hluti af eðlilegri þjónustu. Og af hverju var svo erfitt að finna Hlíðarenda í símaskránni? Af hverju er veitingahúsið bara skráð undir N1?

Og nú rétt í þessu hringdi konan í mig frá Hvolsvelli og sagði mér að ég gæti fengið peysuna í kvöld með strætó en þá þyrfti ég að vera á staðnum, Mjóddinni, og taka á móti hennni. Ég bað hana heldur um að senda hana með Stern þar sem ég þarf sem er afgreiðslufólk. Eiginlega voru samgöngurnar betri í Breiðdalnum í gamla daga þegar ég var að alast upp, póstferðir á vikufresti á sumrin og hálfsmánaðarlega á veturna. Ég viss um að Bergur á Hóli hefði verið liðlegari bílstjórarnir sem þjónusta Hvolsvöll. Hann hefði fært mér peysuna mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 189003

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband