17.6.2012 | 13:33
Það er kominn 17. júní
Á borðinu við hliðina á mér er lítil mynd í ramma með sporöskjulaga myndum af Jóni Sigurðssyni og Ingbjörgu konu hans. Það eru blómsveigir undir hvorri mynd. Þessi mynd fékk maðurinn minn nýlega í sinn hlut þegar dánarbúi frænda hans Einars Þóarinssonar frá Stigprýði á Eyrarbakka var skipt. Hann vildi gefa mér hana sem verðlaun fyrir að hafa í vetur plægt í gegnum ævisögur hjónanna sem eru á myndinni. Myndinn er í reynd póstkort (Brjefspjald) og það er hægt að taka hana úr rammanum. Aftan á henni stendur:Nýjabæ 31-12-1913:Jeg óska þér gleðilegt nýtt ár og með þökk fyrir hið liðna:Frá frænku þinni Fríðu: Íngismaðurinn Jón Þórarinsson:Nýjabæ. Kortið hefur líklega verið sent til Jóns bróður Einars Þórarinssonar, þegar hann var ungabarn. Mér finnst gaman af þessu bréfspjaldi og það segir örilitla sögu um umhyggju þessarar Fríðu frænku fyrir frænda sínum og um hugmyndir hennar um framtíð hans og um Íslandið sem hún óskaði honum. Það eru sem sagt engar ýkjur að þjóðin dáðist að Jóni Sigurðssyni og vildi hafa hann sem tákn. Á þessu bréfspjaldi fékk Ingibjörg kona hans að fljóta með og það er ekki verra.
Þegar ég var að alast upp í Breiðdalnum í eldgamladaga reyndi fólk að gera sér dagamun á 17. júní. Oft var oft haldin samkoma á Stöðulbarðinu og seinna á Staðarborg þar sem sveitungar komu saman og hlýddu á ræður undir borðhaldi, það var farið í leiki eða íþróttir og svo var haldið ball á eftir. Það mátti ekki á milli sjá hvort var veigameira innihald dagskárinnar eða ballið en líklega hefur það farið nokkuð eftir aldri. Á þessar samkomur mættu allir enda hægt um vik, sauðburður búinn, fé komið á fjöll, búið að bera á og langt í slátt. Þetta voru góðar samkomur en ekki minnist ég þess að þar væri mikið rætt um Jón Sigurðsson. Aftur á móti man ég eftir því að pabbi minn las einu sinni kafla um Bjart í Sumarhúsum upp úr Sjálfstæðu fólki.
Síðan ég yfirgaf heimahagana hef allt af átt í dálitlum vanda með að finna hinn rétta hlýja tón innra á með mér á 17. júní. Ég finn að ég hef saknað þess. Ég veit þó að margir leggja sig fram um að skapa ramma um þennan dag og vilja gera hann innihaldsríkan. En sölu- og aulýsingamennskan kæfir allt. En þegar veðrið er eins gott og það er í dag ættu þó allir að geta fundið það sem þeir óska sér og ég kem til með að nota daginn til að finna hinn rétta tón.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 10
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189006
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.