21.5.2012 | 14:54
Hver var hann þessi Jón Sigurðsson?
Ég veit ekki hvort það er eðlilegt en þegar ég les bækur, er ég ekki lengur til staðar hér í raunheimi heldur flyt ég inn í heim bókarinnar sem ég er að lesa. Nú um nokkurt skeið hef ég lifað á 19. öldinni með þeim Ingibjörgu Einarsdóttur (bók Margrétar Gunnarsdóttur) og Jón Sigurðssyni (Guðjón Friðriksson) og fólkinu þeirra. Mér fannst Ingibjörgu vera gert að lifa í dálítið þröngum heimi en heimur Jóns mannsins hennar var víður og margbrotinn.
Það sem er merkilegast fyrir mig að vera þarna með þeim hjónum er að mér hefur alltaf leiðst Jón Sigurðsson. Alveg frá því ég var krakki hef ég haft gaman að sögu og ég gleypti í mig Íslandssögu Jónasar frá Hriflu. Alveg þangað til kom að Jóni Sigurðssyni, þá byrjuðu leiðindin. Mér leiddist hann og það sama gerðist síðar og reyndar í hvert skipti sem þennan mann bar á góma. Mér fannst þessar endalausu deilur um útfærslur á stöðu Íslands og sambandinu við Dani vera torf.
Nú er ég sem sagt búin að lesa bók Guðjóns Friðrikssonar í tveimur bindum (1075 bls. og 2,7 kíló). Mér fannst þetta skemmtileg lesning og oft spennandi. Svo ég tali nú ekki um hversu fræðandi hún var fyrir mig. En eins og góðar bækur skilur hún eftir fleiri spurningar en hún svarar. Ég held að ef einhver spyrði mig, hver konar gaur var nú þessi Jón þá gæti ég ekki svarað því en ég veit meira um hann og þó sérstaklega um þennan merkilega tíma. Það sem einkennir 19. öldina er að þá er verulega farið að hrikta í stoðum einveldis og það hefur kviknað frelsisandi í brjóstum ungra manna. En hvernig á að standa að því að ráða sér sjálfur? Þessi bók fjallar um unga menn með frelsisþrá í brjósti fyrir sig og fyrir land sitt. Málefnið þokast hægt í rétta átt en mikið óskaplega gengur allt seint og svo verða þeir gamlir.
Það sem einkennir þessa bók er að það er ótrúlegur fjöldi sögupersóna sem spila misstórt hlutverk. Jón Sigurðsson hafði stórt tengslanet og hann hélt vel utan um það þó er engan veginn hægt að halda því fram að hann hafi aldrei stuðað neinn. Þvert á móti finnst manni oft nóg um hvernig hann gekk fram af vinum sínum. Eiginleg held ég að hann hafi verið nákvæmur, grúskari, besserwisser, þverhaus en engu að síður haft ótrúlega hæfileika til að töfra fólk með framkomu sinni og talanda. Aðdáun fólk á persónu hans minnir um sumt dýrkun á poppstjörnum nútímans. Stundum hvarflar að mér að hann sé dálítið ómerkilegur. Fléttur þeirra félaga Eiríks Magnússonar (sveitunga míns prestssonar frá Eydölum) bókavarðar í Cambridge og Jóns með peninga George Powell eru vægast sagt óþægilegar svo ég tali ekki um samtal þeirra um að þeir voni nú að faðir þessa vesalings manns að deyja.
Þetta er sem sagt merkileg öld og umbrotatímar og Jón er í hringiðunni miðri. Oft fannst mér eins og umræðunni um pólitík svipaði mjög til uræðunnar enn í dag. Það er mikil ósemja á milli manna og oft finnst manni að deilurnar snúist um aukaatriði. Menn tapa sér í því sem aðskilur þá en gera minna með aðalatriðin sem þeir eru sammála um. Stundum hefði ég viljað að höfundur gerði betur grein fyrir málum eins og t.d. fjárkláðamálinu. Hvaða meðöl voru það sem þeir notuðu og af hverju nákvæmlega fór þetta úrskeiðis með lækningarnar? Af hverju gat Jón ekki beitt persónutöfrum sínum og sannfært bændur? Og hvað varð um vesalings fáráðsauðkýfinginn sem Jón og Eiríkur voru að dunda sér við að féfletta? Það sem heillar mig mest við persónu Jóns er hversu opinn hann er fyrir nýjum straumum og að því að sýnist frjálslyndur, a.m.k. í orði kveðnu.
Það er með þessa bók eins og svo margar sem lýsa þessum tíma að fjöldi persóna sem við sögu koma verður eins og þéttur skógur og það er erfitt að halda áttum og finna veginn, maður tapar sögunni fyrir fólkinu. En það er einmitt þessi saga sem er áhugaverðust. Nú er ég sem sagt komin út úr skóginum og líður eins og svo oft áður þegar ég hef lesið góða bók, ég veit ekki hvert skal halda, hver verðu næsta bók.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 10
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189006
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.