Ingibjörg: Sú sem beið

Loks hef ég lokið við að lesa bók Margrétar Gunnarsdóttur um Ingibjörgu Einarsdóttur (1804-1879), konu Jóns Sigurðssonar forseta. Þótt það hafi dregist að lesa hana kemur það ekki til af því, að ég hafi ekki verið áhugasöm um innihald hennar, heldur af því ég var með margar bækur í takinu. Ég hafði oft velt þessari konu fyrir mér sem ég vissi svo lítið um, nafn hennar væri jafnan tengt Jóni Sigurðssyni, hún var frænka hans sjö áum eldri og beið hans í festum í 12 ár. Það átti að heita svo að hún biði hans meðan hann lyki námi en hann lauk því aldrei. Þau giftust árið 1845 og presturinn lagði út af vináttunni í textanum sem lesinn var yfir þeim og þar með upphefst hjónaband sem einmitt er lýst á þann veg, við útför þeirra var einnig lagt út af tryggð og vináttu.

Þetta er læsileg bók, lipurlega skrifuð, byggir á þeim takmörkuðu beinu heimildum sem finnast um konuna Ingibjörgu og fjölmörgu heimildum sem finnast um líf Jóns manns hennar og samferðafólk þeirra. Eftir lesturinn vissi ég örlítið meira um þessa földu konu en mest fræddist ég þó mest um heimilislíf þeirra hjóna og um líf fólks á 19. öld. Mér fannst merkilegt að lesa um fósturson þessara hjóna og um allt fólkið sem tengdist þeim í Kaupmannahöfn. Myndin sem er dregin af Ingubjörgu sýnir að hún hefur verið hrein og bein, föst fyrir og staðið eins og klettur að baki manni sínum. Það var ekki lítið verkefni að reka heimili fyrir þennan mann sem hafði í kringum sig n.k. hirð, heimilið virðist hafa verið sambland af nokkurs konar hjáparstofnun fyrir Íslendinga og "eilífðarkosningaskrifstofu" fyrir Jón og málstað hans. En heimildirnar um Ingibjörgu hleypa manni ekki sérlega nærri henni. Það er líklegt að öllum bréfum sem gengu á milli þeirra hjóna hafi verið fargað. Þau finnast ekki. Þau bréf, reikningar og bréfmiðar sem finnast úr fórum þeirra segja manni að Ingibjörg hefur haft í mörgu að snúast. Mér finnst merkilegt að sjá ljósrit af bréfum þeirra hjóna til sömu konu, Sigríðar Þorseitnsdóttur, hlið við hlið. Það er mikill munur á stíl og stafsetningu. Að vísu var ekki til neitt sem hét löggilt "rétt" stafsetning á þeim tíma en Ingibjörg skrifar greinilega alveg eftir framburði en í stafsetning Jóns er lík nútímastafsetningu. Rithönd hans er einhvern veginn fágaðri en þó er rithönd Ingibjargar mjög læsileg. Það kemur víða fram að Ingibjörg fylgir manni sínum að málum en þó er brugið upp einu skemmtilegu dæmi um að þau greindi á í skoðunum. Dæmið segir frá umræðum á heimilinu um bók eftir Stuart Mill og þar sem rætt var kúgun kvenna, en í þeim samræðum kemur fram að Ingibjörg var eindregnari stuðningsmaður skoðana hans en Jón. Við andlát föður, hafði Ingibjörg tekið jafnan hlut og bræður hennar sem var óvenjulegt, enda hafði hún haldið heimili fyrir hann og annast hann veikan. Það er merkileg frásögnin af því þegar Tryggvi Gunnarsson les upp erfðaskrána sem hún hafði falið honum að gera eftir lát manns síns og ánafna þjóðinni eignum þeirra hjóna. Ingibjörg rís þá upp við dogg á banasænginni og segir "þú nefnir hann einan".

Það er í sjálfu sér merkilegt að það skuli fyrst núna vera skrifuð bók um þessa konu sem bregður svo oft fyrir í sögunni um frelsisbaráttu okkar Íslendinga. Það hefur verið vandaverk að skrifa hana. Það er ekki auðvelt að byggja upp áhugaverða mynd af konu, eða spennu í sögu um konu sem hafði það fyrir aðalstarf að sjá um heimilishald og vera í snúningum fyrir fólk uppi á Íslandi sem vantaði eitthvað úr búð í Kaupmannahöfn. Nú kemur í ljós að Ingibjörg gerði svo miklu meira. Hún annaðist sjúka, fyrst foreldra sína og síðar börn og ungmenni sem þeim Jóni var treyst fyrir í Kaupmannahöfn. Hún var alltaf til staðar. Hún var farsæl og það hefur aldrei þótt frásagnarvert.

Ég bar líf Ingibjargar ósjálfrátt saman líf Þóru Pétursdóttur Thoroddsen (1947- 1917) sem líst er í bókinni Þóra biskup og raunir íslenskrar embættismannastéttar eftir Sigrúnu Pálsdóttur, en efnistök bókanna er ekki ólík. Það sló mig hvað allt var fátæklegra í kringum Ingibjörgu. Minni efni, minni menntun og minna svigrúm til alls. Þær eru samtímakonur um skeið en Ingibjörg er 43 árum eldri svo kannski ræðst það einhvern veginn af tímanum hvað heimur Ingibjargar er minni og lokaðari en trúlega skiptir efnahagurinn einnig miklu máli. Þó voru Jón og Ingibjörg engir fátæklingar, þau tilheyrðu borgarastéttinni og lifðu sem slík, þau hefðu trúlega frekar veslað í Melabúðinni en í Bónus. En það er þröng í þessum heimi kvenna og sjóndeildarhringurinn eftir því. Ég fann fyrir andþrengslum.

Ég er þakklát fyrir þessa bók og mun nú loksins láta verða af því að lesa bókina hans Guðjóns Friðrikssonar um Jón, manninn hennar Ingibjargar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 189003

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband