Skuld, bók eftir Oddnýju Guðmundsdóttur

Stundum læt ég sem svo að ég hafi fengið ábendingu, þótt ég trúi  því ekki í raun, því það vantar í mig trú á yfirnáttúrlega hluti. Þegar ég fór á bókaútsöluna í Perlunni til að leita að ljóðabókum eftir Véstein Lúðvíksson, sá ég einhvern veginn út undan mér bók eftir gamla kennarann minn Oddnýju Guðmundsdóttur. Og mér fannst eins og að Oddný væri að minna á sig. Ég keypti þessa bók og einu ljóðabókina sem ég fann eftir Véstein ÚR HLJÓÐVERI AUGANS auk nokkurra annarra ljóðabóka. Nú er ég búin að lesa  hana og hef ákeðið að fara í sumar norður á Langanes.

Bókin heitir Skuld og er tvískipt. Í fyrri hluta bókarinnar erum við fyrst kynnt fyrir elstu konu á Íslandi. Hún gerir sér allt í einu grein fyrir því að heimurinn sem hún þekkti og ólst upp í er liðinn undir lok, húsin eru fallin, fólkið dáið og allt er breytt. Er þá kominn heimurinn sem hana dreymdi um þegar hún var ung, hún vildi jú breytingar. Í fyrri hluta bókarinnar fáum við að kynnast þessum heimi. Við fáum að kynnast ungu stúlkunni Unu (17 ára)sem er búin, eftir lát móður sinnar, að ráða sig í vist. Hún stígur inn í veruleika sem var henni áður ókunnur:" Oft hafði Una séð fátækleg heimili, óhrein börn og óhrein rúimföt. En hörmungin, sem hér blasti við við henni, átti ekkert skylt við fátækt. Hér var mannvonzkan að murka lífið úr einstaklingi. Og mannvonzkan var að þessu aðeins til að fá að njóta sín." Þetta hugsar Una þegar hún horfir upp á hvernig búið að er að veikum niðursetningi á þessum bæ. Lífið þarna er hræðilegt en það er samt þarna sem örlög hennar ráðast. Hún upplifir ástina í fyrsta sinn og hún upplifir svik í ástum og hún elur barn á laun og sér engin ráð önnur en fyrirkoma því. Síðar kynnist hún líka manninum sem átti eftir að verða eiginmaður hennar og skapa henni verðugra líf. En hann er ekki stóra ástin, hún er full af hefndarhug gagnvart manninum sem sveik hana, ríka manninum sem ekki vildi taka niður fyrir sig og hann verður tákn óréttlætisins sem viðgengst. Una vill breyta heiminum, hún berst fyrir jafnrétti, menntun og tekur málstað lítilmagnans.

Síðari hluti bókarinnar fjallar um lífið á elliheimilinu þar sem Una er dvelur í ellinni. Þetta er elliheimili í stóru húsi sem er eiginlega allt of stórt fyrir byggðina (byggðarlagið á svo duglegan þingmann) svo þar rúmast líka aðstaða læknis og sjúkradeild. Og er líka pláss fyrir sýlumanninn og gott ef ekki sparisjóðinn líka. Þetta stóra hús er sem sagt allsherjarathafnastaður alls þess sem gerðist. Í þessum hluta sögunnar  spinnst sagan í kring um nokkrar persónur  hússins.

Tímarnir hafa svo sannarlega breyst frá því Una var ung baráttukona fyrir jafnrétti, betri aðbúnaði fátæklinga og aukinni menntun. Allt það sem hún barðist fyrir er orðið að veruleika en það er þó ekki sá  veruleiki sem hún hugsaði sér. En hvað vantar?

Þessi síðari hluti bókarinnar er einhvern veginn ekki eins vel heppnaður og sá fyrri. Persónurnar sem koma við sögu eru margar og klisjukenndar. Góða og heiðarlega fólkið er í raun talsmenn skoðana Oddnýjar. Ómerkilega fólkið eru fulltrúar lastafulls lífernis. Af því ég þekkti Oddnýju veit ég að hún veltist aldrei í neinum vafa um hvað var slæmt. Hún var t.d. ákafur bindindissinni og þeir sem brúka áfengi fá það óþvegið. Hún er líka ákafur andstæðingur stríðsrekstrar og talsmaður friðar. Kannski var lífið einfaldara í gamla daga. Mér verður stundum hugsað til Oddnýjar hvað hún myndi segja um lífið í dag.

Oddný gat aldrei helgað sig skáldskap. Hún vann fyrir sér alla tíð og aflaði sér sjálf menntunar með lestri og ferðalögum. Þessi bók ber þess því miður vott að það hefur ekki verið legið yfir henni, sérstaklega seinni hlutinn. Auk þess eru í henni allt of margar villur sem hljóta að skrifast á prófarkalestur og forlagið því Oddný var sjálf afar nákvæm hvað það varðar. Viðhorf mitt til skrifa Oddnýjar litast eflaust af kynnum mínum af henni, hún var góður kennari og reyndist mér vel síðar á lífsleiðinni. En mikið held ég að það væri nú þarft innlegg í bókmenntaumræðu dagsins í dag að skoða hvað hún og fleiri alþýðuskáld höfðu til málanna að leggja. Ég held að margir viti ekki hvað er stutt síðan að Ísland var afskaplega fátækt land.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 189003

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband