18.3.2012 | 15:51
Eldhaf í Borgarleikhúsinu
Ég dreif mig (okkur hjónin) á sýninguna Eldhaf í Borgarleikhúsinu í gær, þótt það væri þriðji dagurinn í röð sem við færum út af heimilinu til að meðtaka menningu. Mér fannst það einum um of en það voru síðustu forvöð að sjá þessa sýningu. Ég vissi ekki á hverju ég átti von, hafði heyrt misjafna dóma fólks þótt flestir væru sammála um að þetta væri eitthvað sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara.
Leikritið er eftir erlent skáld sem ég hafði aldrei heyrt nefnt, Wajdi Mouawad. Hann er nú Kanadamaður en fæddur í Líbanon (1968) en fjölskyldan flúði borgarstyrjöldina (1975-1990) til Frakklands. Sagan sem sögð er í leikritinu er saga átaka, þar sem ofbeldi leiðir til ofbeldis og hefnd til enn blóðugri hefndar. Maður getið ráðið af atburðarásinni að hún vísi til átakanna í fyrrum föðurlandi skáldsins en hann passar sig á að nefna engin nöfn, negla enga atburði niður. Þannig nær frásögnin að skýrskota langt út fyrir það sem þar gerðist og vísa til allra stríða og alls ofbeldis.
Aðalpersónur sögurnar eru tvíburarnir Jeanne og Simon sem eru eiginlega neydd til þess við dauða móður sinnar að grafast fyrir um það sem gerðist, grafast fyrir um sannleikan um hana og sig. Það gera þau með hjálp lögbókanda sem hefur tekið að sér að afhenda þeim erfðaskrá móður þeirra og sjá til þess að fyrirmæli hennar verði haldin. Og við ásamt þeim fáum að skyggnast inn í söguna, hræðilega sögu sem kannski væri eins gott að vita ekkert um. Er eitthvað fengið með því að grafa í fortíðinni. Kannski ekki nema af því að fortíðin lifir í okkur og þá þurfum við á sannleiknum að halda til að vera við sjálf, heilar persónur.
Það er allt gott við þessa sýningu. Sviðið er frábært, sagan hrífandi og leikararnir hver öðrum betri. Ég hreifst eins og ég hreifst í leikhúsi í gamla daga þegar ég var ung og hrifnæm. Unnur Ösp minnti mig á Helgu Backmann og Guðjón Davíð Karlsson er eins og sambland af Helga Skúlasyni og Gunnari Eyjólfssyni. Og hinir leikararnir skiluðu öllu sínu mjög vel.
Það er merkileg tilviljun að þegar ég fer á þessa sýningu er ég einmitt að lesa Jósúabók Biblíunnar sem segir frá landvinningum Ísraelsmanna á þessum sömu slóðum. Hefur þá ekkert breyst síðan? Jú tæknin er fullkomnari. Í Jósúabók er það Guð sem hjálpar sínum og þeim er því sigur vís en í leikriti Wajddi Mouawad er Guð aldrei nefndur á nafn. Það er örugglega með vilja gert enda vitum við að það er ekki Guð lengur sem ræður úrslitum heldur eru það þeir sem skaffa vopnin. En hér er ég líklega komin út á hála braut, víðsfjarri því sem höfundur leikritsins ætlast til. En það er Jósúabók sem skekkir myndina.
Eldhaf er grískur harmleikur og nú fjallar hann um okkur, okkar nútíma. Loksins skil ég grískan harmleik.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189003
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.