15.3.2012 | 23:59
Móses fékk að sjá inn í fyrirheitna landið
Áætlun mín um Biblíulesturinn (BIBLÍAN Á EINU ÁRI) stenst nokkurn veginn áætlun. Ég byrjaði á þessu uppátæki af því mér leiddust blöðin. Ég gerði það samt ekki alveg út í bláinn. Ég hugsaði mér að nálgast ritninguna eins og alþýðufólk hefur gert í gegnum aldirnar. Síðan hef ég fengið að heyra efasemdaraddir um hvort það sé eitthvað vit í þessu og margar ráðleggingar. Ég er hreint ekki viss um hvort það er nokkuð vit í þessu og það hefur kannski aldrei verið vit í því að lesa Biblíuna. En mér finnst það merkilegt.
Þegar ég hafði lokið fyrstu Mósebók, Genesis, var ég afar bjartsýn. Guð er búinn að skapa heiminn og margar áhugaverðar persónur eru kynntar til sögunnar. Önnur Mósebók, Exodus, er líka nokkuð læsileg. Móses ákveður að bjarga þjóð sinni úr þrælkuninni í Egyptalandi og átök hans við ofurvald Egypta eru spennandi, plágurnar sem hann eða Guð sendir eru ægilegar. Loks leiðir hann fólk sitt burt, út í eyðimörkina. Það gerist mikið í þessari bók. Hann (með hjálp Arons) kemur skipulagi á liðið, setur lög (með hjálp Drottins) og leggur grunn að helgihaldi (samfundatjaldið vígt). Næstu þrjár bækur Móses eru ekki nærri eins skemmtilegar. Móses þvælist með vesalings fólkið aftur og fram um eyðimörkina og það kvartar látlaust við hann og hann kvartar við Guð. Og svo semja þeir í sameiningu endalausar viðbætur við lögin, nánast eins og reglugerðarsmíð eða verklagsreglur.
Það er gaman að lesa þetta svona eins og ég geri núna, frá orði til orðs (helst upphátt en ég verð að hlífa manninum). Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr hvað það eru miklar endurtekningar. Ef Biblían væri samin í dag myndi margir sega að það væri of mikið copy/paste í henni og það mætti stytta hana umtalsvert.
Eftir allan þennan þvæling er Móses loks kominn með þjóð sína að ánni Jórdan. Hann er orðinn gamall maður, 120 ára og Guð segir honum að hann megi ekki fara inn í fyrirheitna landið, aðeins líta það augum. Hann reitti Guð til reiði á sínum tíma þegar hann gat ekki haft stjórn á mögli og þrjósku fólksins sem kvartaði endalaust yfir því að það var svangt og þyrst. Móses lýkur síðan ævi sinni í útsýnisferð úr Móabslandi upp á Nebófjall, alla leið upp á Pisgatind og horfir yfir hið fyrirheitna land. Síðan dó hann. Mér fannst nú Guð fullharður við hann gamlan manninn en er samt fegin sögulokum, því mér var farið að leiðast.
Ég hlakka mikið til næsta áfanga í lestrinum, Jósúabókar: Landið unnið.
Í morgun fékk ég sendingu með póstinum frá (gömlum) skólabróður og áhugamanni um bilíulestur minn, bókina THE BIBLE: THE BIOGRAPHY eftir Karen Armstrong. Ég er spennt fyrir að sjá hvað sú bók hefur að geyma en mun þó sjá til þess að hún trufli ekki áætlun mína. Nú óttast ég að það fari að streyma til mín bækur. Hvað á ég þá að taka til bragðs?
Það merkilegasta við þennan lestur er e.t.v. að sjá hvað mikið eftir stendur, hjá trúuðum þjóðum og jafnvel guðlausri þjóð eins og okkar sem er enn á leið inn í fyrirheitna landið. Mér þótti líka merkilegt að lesa margt í því sem flokkast undir hreinlæti. Á einu (kannski fleirum) segir að það beri að viðhafa hreinlæti í herbúðunum. Ef karlmenn hafi "óhreinkað" sig að nóttu skulu þeir ganga út fyrir búðirnar og lauga sig og er sól er sest mega þeir fyrst ganga inn í þær aftur. Þar segir jafnframt að sérhver hermaður eigi að hafa með sér spaða, til að hylja með henni saurinn, ef hann "sest niður". Og þennan spaða nota menn enn. Stríðsmennirnir til að moka stöðugt yfir skítnn úr sér. Á því virðist enginn endi. Ég veit ekket um hreinlætið að öðru leyti.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189003
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég þakka skemmtilega færslu. Langar að benda þér á bók sem var verið að gefa út: Ættfeður og spámenn í þeirri bók er farið yfir sömu sögu og fyrsti hluti Biblíunnar en meira í söguformi ásamt útskýringum. Ég hafði mjög gaman af henni, hérna er fyrsti kaflinn í bókinni: Ættfeður og spámenn - Hvers vegna var syndin leyfð?
Mofi, 16.3.2012 kl. 10:42
Takk fyrir að fræða mig, skoða þetta
BG
Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.