13.3.2012 | 23:44
Glíman við Landnám, bók um Gunnar Gunnarsson rithöfund
Ég hef sett mér það fyrir að skrifa minnispunkta um hverja bók sem ég les um leið og ég lýk henni og legg hana frá mér. Þetta er ekki eins einfalt og það sýnist því sumar bækur leggur maður oft frá og lýkur þeim jafnvel aldrei. Ekki alveg.
Bókin sem ég óskaði mér í jólagjöf var bókin LANDNÁM, ævisaga Gunnars Gunnarssonar eftir Jón Yngva Jóhannsson. Ég hef verið að grípa í að lesa hana síðan á jólunum og er nú loks tilbúin að leggja hana til hliðar í bili.
Ég ætla fyrst að víkja að því hvers vegna mig langaði í þessa bók. Það er margslungið. Gunnar er Austfirðingur eins og ég og var hluti af minni bernsku. Ég man eftir því að faðir minn las fyrir heimilisfólkið úr Fjallkirkjunni á kvöldin þegar ég var barnung. Hann las vel og bjó til raddir fyrir helstu persónur. Honum hlýtur að hafa tekist vel upp því einu sinni þegar gestur kom í heimsókn fór ég til pabba og sagði honum að Afi á Fjalli væri kominn. Það var hlegið að mér, því þetta var bara Bensi á Þorgrímsstöðum en pabbi hafði notað rödd hans fyrir rödd Afa. Ekki veit ég hvað ég skildi mikið á þessum tíma en ég man að ég hafði ekki mikla samúð með Ugga, fannst hann kenjóttur krakki. Fólk fyrir austan hafði ýmislegt við þessa sögu að athuga því hún fer afar nærri ævi Gunnars sjálfs. Þorbjörg R. Pálsdóttir á Gilsá gat ekki fyrirgefið honum hvernig hann fjallaði um stjúpu sína, þá sæmdarkonu. Annar kunnugur sagði að hann hefði verið hrokagikkur sem heilsaði ekki upp á fólk á förnum vegi þegar það vildi heilsa upp á gamlan sveitunga. Og svo kom auðvitað inn í allt þetta hin pólitíska streita sem búin var til í kringum hann.
Ég hóf ekki að lesa Gunnar fyrr en löngu seinna og fannst erfitt að átta mig á honum. Það var ekki fyrr en ég byrjaði upp á nýtt ef svo mætti segja og las Fjallkirkjuna sjálf sem ég tók hann í sátt. Reyndar fannst mér bara gaman að lesa fyrstu tvö bindin.
Þegar ég hóf lestur Landnáms voru mörg vötn runnin til sjávar. Ég var búin að lesa bók Halldórs Guðmundsonar um austfjarðaskáldin tvö, Gunnar og Þorberg, ég var búin að fara í nokkrar skoðunarferðir í Skriðuklaustur og ég var síðast en ekki síst búin að lesa meira af því sem hann hafði skrifað.
Landnám Jóns Yngva er mikil bók, 485 síður, auk lista yfir tilvísanir, heimildir,myndaskrár, nafnaskrá og stuttan eftirmála með þökkum til þeirra sem lögðu honum lið og studdu hann við gerð verksins. Ég ætlaði aldrei að komast fram úr 1. kaflanum þar sem höfundur fer nákvæmlega yfir hvernig ýmislegt í ritum Gunnars og líf hann snertist. Þó er hann ekki nema 59 síður. Ég var farin að örvænta og hugsa hvenær kemst höfundurinn eiginlega út úr Fjallkirkjunni og kannski er þessi bók bara skrifuð fyrir fræðimenn ekki fóllk eins og mig. Í þessum ógöngum varð það mér til happs að ég hitti góðan vin sem situr með mér ásamt fleirum og dundar við að binda bækur á laugardagsmorgnum. Hann sagði að hann hefði lent í þessu sama og ég en það borgaði sig að halda áfram, því að loknum 1. kafla væri bókin mjög skemmtileg og gefandi, sérstaklega þar sem fjallað væri um skáldskap Gunnars. Ég hlýddi ráði hans og sé ekki eftir því. Nú að lestri loknum langar mig mest til að lesa aftur bækur Gunnars og bæta þeim við sem ég hef ekki lesið. Og þá, ef af verður, verður ekki ónýtt að hafa þessa bók við höndina til að glöggva sig á lestrinum.
Nú að lestri loknum er ég sem sagt hæst ánægð með jólagjöfina mína og á eftir að líta oft í hana. Hún bætir mörgu við það sem ég vissi áður um Gunnar og hans merkilegu sögu. Reyndar var ég svo heppin að ég sá hann oft í lifandi lífi því vinkona mín bjó á þessum tíma við Dyngjuveg. Gamli, lotni maðurinn sem gekk niður eða upp Dyngjuveginn fór ekki fram hjá neinum. Getur verið að hann hafi verið að sækja sér blað í sjoppuna? Af hverju var hann ekki bara áskrifandi? Þessi maður var hvorki líkur hrokagikknum sem sumir Austfirðingar töluðu um né hraustmenninu sem Gunnar lýsir í Fjallkirkjunni. Nú er sem sagt næsta mál á dagskrá að verða sér út um heildarútgáfu af verkum Gunnars það er bara spurningin hver er best
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 8
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 189004
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.