5.3.2012 | 14:22
Flugan sem stövaði stríðið
Ég vissi ekki á hverju ég átti von þegar ég hóf lestur bókarinnar FLUGAN SEM STÖÐVAÐI STRÍÐIÐ eftir Bryndísi Björgvinsdóttur. Ég hafði að vísu heyrt talsvert um hana, hún hafði fengið íslensku barnabókaverðlaunin og ég hafði bæði fylgst með umræðum um hana og horft á viðtal við höfundinn í sjónvarpi. Af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að greina frá, hafði ég búist við að bókin væri stutt, með stóru letri, miklum myndum og fyrst og fremst ætluð yngri börnum. Það kom mér því að óvart að bókin er alls ekkert stutt (108 bls.), letrið er meðalstórt (12/17pt) og engar sérstakar myndasíður. Auk þess stendur að bókin sé ætluð bæði börnum og unglingum og jafnvel fólki eins og mér sem hefur gaman að lesa barnasögur.
Sagan gerist í okkar heimi en hann er séður með augum húsflugunnar og meðan maður les verður maður að gera svo vel að vera húsfluga. Reyndar er höfundur ekkert sérstklega upptekinn af því að eltast við vísindalegar staðreyndir um líf þessa lífvera og það truflar mig í byrjun. Það vill svo til að sl. vetur fékk ég af einhverjum ástæðum sérstakan áhuga á staðreyndum um þessi dýr og tók mig þá til við að afla mér umtalsverðara gagna, m.a. á Vísindavefnum. Ég held að ástæðan hafi verið sú að í íbúð minni í Álfheimunum dvöldust ein og stundum tvær húsflugur sem voru þeim eiginleikum gæddar að á daginn höfðu þær tiltölulega hægt um sig en á kvöldin þegar ég var að fara að sofa og lesa eins og reglan segir á mínum bæ, byrjuðu þær að andskotast í lampanum og í andlitinu á mér. Ég gat ekki hugsað mér að drepa þær og vildi því vita hversu gamlar þær yrðu. Og ekki síður hvernig ég gæti með góðu móti fyrirbyggt að börn þeirra, frænkur og frændur tækju við af þeim þar sem frá var horfið. Þetta var sem sagt út úr dúr um það að ég varð nú að sætta mig við að húsflugurnar hennar Bryndísar voru skáldaleyfishúsflugur en ekki eins og mínar sem urðu ekki mjög gamlar.
Flugurnar sögunnar, Flugan, Kolkes og Hermann Súkker eru upplýstar flugur og þær fylgjast með því sem er að gerast í heimi manneskjanna í sjónvarpi og í blöðum. Þær bera umhyggju fyrir þessum heimi því hann er líka þeirra heimur og þær vilja eiga gott og tryggt líf og svo vilja þær gjarnan gera sitt til að bæta hann. Framvinda sögunnar er ör. Fyrir tilviljun heyra þær um munka sem búa í Nepal og gera ekki flugu mein og ákveða að þar vilji þær búa og fara þær því þangað. Í næsta nágrenni Nepal ríkir stríðsástand og loftið er lævi blandið. Þær komast reyndar á áfangastað og eru hólpnar en þar sem þetta eru vel innrættar flugur sjá þær sig tilknúnar að reyna sjálfar að gera eitthvað heimi manneskjunnar til bjargar. Og ótrúlegt en satt tekst þeim það, annars hefði þessi bók alsdrei verið skrifuð.
Ég hafði gaman að lesa þessa bók, það er alltaf gaman að reyna að horfa í kringum sig út frá nýju sjónarhorni. Á meðan ég las velti ég fyrir mér hvaða börnum þessi bók myndi henta og er hreint ekki viss. Ég gæti vel hugsað mér að lesa hana sem framhaldssögu fyrir börn sem nenna að láta lesa fyrir sig en ég held að þetta geti líka verið góð bók fyrir lestrarglöð börn sem elska að gleypa í sig eina bókin eftir aðra. Og svo er hún auðvitað góð fyrir fullorðna eins og mig.
Ég hafði gaman af bókinni og myndirnar (Þórarinn Már Baldvinsson), því vissulega eru myndir, eru skemmtilegar, dálitið undirfurðulegar, láta ekki mikið yfir sér en gefa bókinni vissan þokka.
Mér fannst gaman að lesa þessa bók þótt í upphafi lestrar togaðist svolítið á í mér löngun til að fá svolítið meira að vita um heim húsflugunnar en um minn eiginn heim, því það koma dagar sem jaðrar við að ég sé næstum uppgefin á allri vitleysunni í manneksjuheiminum.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189003
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.