Í skugga valsins: Þórunn Elfa Magnúsdóttir

Ég hef verið að dunda mér við að binda inn bækur. Hvatinn að bókbandsáhuga mínum kviknaði að hluta til vegna þess að nokkur hluti bókasafns okkar hjóna er eiginlega ekki í því ástandi að hann sé í hillum hafandi. Að hluta til er þessi áhugi sprottinn af því að ég hef bæði gaman af handverki og að handleika bækur. Ég á nokkrar bækur, óinnbundnar, eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur sem ég hef verið að koma í band. Sú síðasta sem ég tók til við var bókin um Dísu Mjöll, bók sem mér finnst ein af hennar merkilegri bókum. En þegar ég var komin vel á veg við verkið, tek ég eftir því að eintakið sem ég var að fást við var gallað, það vantaði í það heila  örk. Og nú  voru góð ráð dýr, annað hvort var að henda bókinni eða reyna að finna ógallað eintak og ná sér í örk úr því. Ég fór í Bókbúð Braga og spurðist fyrir, þar voru margar bækur eftir Þórunni en engin Dísa Mjöll. Afgreiðslumaðurinn sem er vinur minn lét mig í sárabætur fá gott eintak af bók eftir Þórunni sem ég átti ólesna og með það fór ég heim.

En þar sem ég er sammviskusöm kona fannst mér að mér bæri skylda til að lesa þessa bók. Þórunn Elfa var á sínum tíma tengdamóðir mín og hún er amma sona minna, það er hægt að skiljast við eiginmenn en ekki tengdamæður. Auk þess hef ég alltaf kunnað betur en margur að meta ritstörf Þórunnar. Mér finnst hún vanmetin og finnst það vera rannsóknarefni hvers vegna þessi kona, sem var í raun brautryðjandi um margt, hefur ekki átt upp á pallborðið, hvorki hjá konum sem vilja ekki láta verk kvenna liggja í þagnargildi eða hjá fræðimönnum og þjóðfélagsrýnum.

Bókin sem mér áskotnaðist í stað Dísu Mjallar heitir Í SKUGGA VALSINS. Hún virðist vera framhald af bók sem ég hef því miður ekki lesið, ÖNNU RÓS, en ég mun bæta úr því hið skjótasta. Sögusviðið er Reykjavík á dögum fyrri heimstyrjaldar. Aðalpersónur sögunnar eru konur, fyrst Anna Rós og síðar dóttirin Svandís. Aukapersónur sögunnar og örlagavaldar eru karlmenn sem líf kvennanna snýst að mörgu leyti um, ekki síst Valur Vagnsson, sem er útrásarvíkingur og braskari síns tíma. Á vissan hátt passar sá þáttur sögunnar vel inn í nútímann. En hreyfiafl sögunnar, þótt hægfara sé, er ástin.

Mér finnst alltaf jafn merkilegt að lesa bækur Þórunnar, kannski vegna þess að ég þekkti hana. Hún er svo undarlega klofin í afstöðu sinni til hlutverks kvenna. Á vissan hátt er hún einlægur stuðningsmaður kvenfrelsis. Staða konunnar þarf að breytast. Konur eiga að menntast og fá tækifæri til jafns við karlmenn en um leið er hún svo mikill dýrkandi gamalla gilda, móðurhlutverkið er heilagt og konur eiga að búa mönnum sínum og börnum fallegt og þægilegt heimili. Hún bregður oft fyrir raunsönnum lýsingum á erfiðleikum kvenna þessa tíma, sem voru bundnar af barneignum og skyldum við eiginmanninn sem enginn leið virtist vera að komast undan.

Konurnar í SKUGGA VALSINS eru vel stæðar konur sem hafa ráð á vinnukonum. Það er talsvert fjallað um samskipti húsmæðranna og vinnukvennanna og ósjálfrátt fór ég að hugsa um bókina, "Húshjálpin", sem ég las í vetur, sem fjalar um hlutskipti svartra kvenna í Ameríku og stöðu þeirra á heimilum hvíta fólksins. Hvað var líkt og hvað var ólíkt?

Bækur Þórunnar eru börn síns tíma, hvaða bækur eru það ekki? Það er  þolinmæðisverk að lesa sumt í þeim, en þolinmæði er dyggð. Ég gef ekki mikið fyrir þá umræðu að allar bækur þurfi að vera svo stuttar og hnitmiðaðar. Ef einhver bók fer upp fyrir 300 síður, er staglast á því að höfundur hefði nú þurft góðan ritstjóra. Ég held bara að það séu fleiri illa læsir en drengirnir í nútímanum. Viðmælendur Egils í Kiljunni eru afleitir með þetta og gott ef Egill er ekki farinn að trúa þessu. Hvað um Proust og hvað um Miguel de Cervantes? En þetta er nú útúrdúr.

Að lokum: Það þyrfti að gera Þórunni Elfu Magnúsdóttur verðug skil, það væri gott innlegg inn í sögu íslenskts samfélalgs og það væri líka gott innlegg inn í sögu kvenna á þessum árum. Þórunn bar í sér neista en hún bar líka í sér það sem hefur ráðið svo miklu í kvennasögunni, hún var klofin í afstöðu sinni til hlutverks kvenna og var sjálf fórnarlamb þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 189003

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband