16.1.2012 | 21:01
Brakið eftir Yrsu er glæpahryllingsbók eða hryllingsglæpasaga
Þrátt fyrir að vera eiginlega hætt að hafa gaman af glæpasögum, les ég af og til eina og eina og var að ljúka við að lesa bók Yrsu Sigurðardóttur, Brakið. Nú ætla ég að leitast við að segja hvað mér finnst um þessa bók. Það er vandaverk í ljósi þeirrar miklu umræðu sem farið hefur fram um galla hennar og ekki síður vegna þess að ánægja mín af lestri reifara hefur dofnað. Ég ætla að láta sem svo að ég hafi ekki heyrt umræðuna sem fram fór í kjölfar fordómafullra yfirlýsinga Braga Kristjónssona, þar sem hann kallaði rithöfundinn DÚLLU. Ég ætla líka að hugsa um bókina eins og ég hugsaði um slíkar bækur meðan var ég ákafur aðdáandi glæpasagna.
Sagan er spennandi og persónurnar kunnuglegar. Hún fjallar um atburði sem áttu sér stað í kjölfar hrunsins. Skilanefnd er að reyna að ná til peninga vanskila-auðmanna og hefur lagt hald á lúxussnekkju sem liggur í höfn í Lúxenborg. Starfsmaður nefndarinnar sem hefur umsjóna með þessum gjörning hleypur í skarðið þegar áhafnarmaður forfallast og tekur konu sína og tvær dætur með í siglinguna frá Portúgal heim til Íslands. En þetta verður ekki sú skemmtisigling sem til stóð. Sagan hefst þar sem skútan siglir mannlaus í höfn í Reykjavík og lögfræðingurinn Þóra fær það hlutverk að gæta hagsmuna aðstandenda fjölskyldu skilanefndarstarfsmannsins. Framvinda sögunnar er spinnst áfram með því að lesandinn fær ýmist að fylgjast með vinnu Þóru og því sem gerðist um borð. Áhöfn og farþegar hafa týnt tölunni einn af öðrum. Sagan minnir á Tíu litla negrastráka eftir Agötu Christie. Sagan er þó blóðugri en hjá Agötu og það er meiri óhugnaður og hryllingur.
Hverdagsleikinn hjá þeim Þóru og Bellu er í algjörri mótsögn við það sem er að gerast um borð. Mér finnst að vísu næstum óskiljanlegt hvers vegna Þóra lætu Bellu fara svona í taugarnar á sér og ég skil ekki heldur að Bella skuli þola Þóru en ég veit svo lítið um líf og störf á lögfræðiskrifstofum.
Þegar eftir var u.þ.b. 1/5 af bókinni var ég annað hvort orðin leið á hryllingnum eða smámunaseminni hjá þeim stöllum því mér fór að leiðast. Mér fannst ekki heldur að ákveðnir þættir í atburðarásinni nógu trúverðugir. Ég lauk þó bókinni eins og til stóð.
Lokaorð: Mér finnst Yrsa lipur höfundur. Hún er góð að byggja upp spennu og samtöl og persónur eru eðlilegar, maður kannast við sig. Í þesari bók hefði hún þurft að huga ögn betur að vissum smáatriðum á lokasprettinum til að skapa trúverðugleika. En hryllingurinn er ósvikinn.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 8
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 189004
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.