8.1.2012 | 15:18
Hamingjulönd: Landafræði lukkunnar
Hef verið að lesa bókina Hamingjulönd: Landafræði lukkunnar með undirtitlinum Ólundarseggur leitar uppi hamingjuríkustu lönd í heimi. Þessi langi titill er tiltölulega lýsandi fyrir efni bókarinnar en þó ekki fyllilega réttnefni, því hann heimsækir líka ýmis önnur lönd sem eru neðarlega á hamingjuskalanum, svo sem Moldóvu og lönd sem eru alveg í botni. Auk þess skoðar hann lönd sem eru áhugaverð af einhverjum sérstökum örsökum, svo sem Bútan sem er með það í stjórnarskrá að stefnt skuli að vergri þjóðarhamingju. Hann heimsækir einnig Bretland en þar hafði verið gerð fræg tilraun til að vinna að því að breyta hamingjustigi fólks með nútímalegum aðferðum í anda hamingjurannsókna.
Bókin er eftir bandaríkjamanninn Eric Weiner sem hafði verið blaðamaður til margra ára og aðallega unnið fyrir NPR. Hann fjallaði um erlendar fréttir og eðli málsins samkvæmt var honum sett fyrir að fjalla fyrst og fremst um neikvæðar hliðar mannlífsins. Stríðshörmungar, náttúruhamfarir og valdarán hafa meira fréttagildi en fregnir af góðri uppskeru, framförum í landbúnaði svo ég tali nú ekki um að fjalla um umbætur í skólakerfum heimsins. En á einhverjum tímapunkti ákvað hann að snúa blaðinu við og fjalla um hamingjuna og orsakir hennar. Lesandinn fær ekki skýra mynd af því hvað leiddi til þessarar djörfu ákvörðunar en höfundur hintar að því að það hafi tengst perónulegum erfiðleikum sem hann stóð frammi fyrir en hann er spar á upplýsingar um það mál.
Það var tilviljun sem réði því að ég valdi mér að lesa þessa bók. Ég hafði farið á útgáfukynningu hjá bókaforlaginu Ormstungu þar sem var lesið úr henni og ég ákvað á staðnum að þetta skyldi ég kynna mér betur þótt hún sé e.t.v. ekki alveg í takt við þær bækur sem ég legg mig eftir um þessar mundir. Ég veit ekki alveg hvernig hún flokkast í hamingjuvísindunum skarast margar vísindagreinar svo sem sálarfræði, félagsfræði, markaðs- og auglýsingafræði og fleira og fleira. Á vissan hátt er hún um margt lík sjálfshjálparbókum sem ég hef nasasjón af en tortryggi þó svo að afstaða mín til þeirra nálgst fordóma. Flokkun bóka er reyndar kapítuli út af fyrir sig sem ég ætla ekki að hætta mér út í hér.
Mér fannst bókin vera bæði fróðleg og skemmtileg þótt það drægi svolítið úr skemmtilegheitunum að höfundur sögunnar (hún er sögð í 1. persónu) fór oft í taugarnar á mér á einhvern illskiljanlegan máta því ég vil um fram allt ekki dæma fólk sem ég þekki ekki og hefur auk þess ekkert gert mér. Og nú var þessi maður að færa mér allan þennan fróðleik og lét fljóta með glefsur úr lífi sínu. Mig grunar að ástæður fordóma minna í hans garð liggi meira hjá mér en honum og eigi rót sína í viðhorfi mínu til ameríkana sem mér finnst oft í senn sjálfbyrginslegir og barnalegir. Það er eins og þeir hafi svo litla lífsreynsu. En þetta er sem sagt um mig en ekki bókina.
Meginkostur bókarinnar er að hún er ágætis leið til þessa að í senn að fræðast um þennan málaflokk, hamingjuvísindi, sem fjalla sem sagt um hverjar eru forsendur hamingju og hvernig hamingjan hangir saman við fjölmargt í lífinu og það er síður en svo allt sem sýnist í þeim efnum. Ég hefði viljað að höfundur hefði verið svo rausnarlegur að láta fylgja bókinni heimildalista. Þá ætti maður hægar með að skoða nánar fjölmargt sem vakti forvitni og mann langar að kynna sér nánar. En það gerði hann ekki enda er bókin ekki fræðrit.
Núna eftir á er ég ánægð með að hafa brotið odd af oflæti mínu og lesið þessa bók þótt hún sé ekki á mínu sviði eða hvernig á ég að orða þetta. Hún hefur reyndar ekki breytt miklu um hamingju mína en hún hjálpar mér til að hugsa um hana og það er skemmtilegt.
Nú gæti einhver sagt að kaflinn um Ísland væri ekki marktækur lengur af því bókin kom út 2007. En sú er ekki raunin. Höfundur hefur fylgst með áhrifum efnahagshrunsins á lán Íslendinga og það fór sem vænta mátti ef mark er tekið á fræðunum. Þegar ég hafði lokið lestrinum fór ég á netið og fann þetta viðtal við höfundinn: http://www.youtube.com/watch?v=b-34RCuqHeA
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 10
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189006
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.