Ég hef alveg sérstakar mætur á bókum Hallgríms Helgasonar vegna þess að mér finnst hann svo skapandi í máli og hugsun. Ég viðurkenni að mér finnst dálítið erfitt að lesa hann, í fyrsta lagi skil ég hann ekki alltaf, í öðru lagi á ég dálítið erfitt með klámið og ljótleikann en veit að það er nauðsynlegt og í þriðja lagi er hann dálítið langorður.
Bókin um konu við 1000° er 477 síður og það er komið víða við. Ferðin á sér þó skýrt upphaf og maður veit líka hvert henni er heitið. Hún hefst vestur í Svefneyjum á Breiðafirði 1929 þegar lítil stúlka fæðist og henni lýkur 2009 með dauða og brennslu við 1000°. Litla stúlkan lifir trygg hjá móður sinni sín fyrstu 7 ár æfi sinnar. Allt þar til faðir hennar, síðar meir forsetasonur Íslands tekur á sig rögg og gengur að eiga móður hennar og eignast þá um leið þessa nokkuð stálpuðu dóttur. Við þetta hefst ferðalag litlu stúlkunnar Herbjargar út í heim. Og það ferðalag á eftir að verða langt og strangt og ég ætla mér ekki einu sinni að reyna að rekja það eða endursegja. Herbjörg á eftir að kynnast heimssögulegum atburðum á eigin skinni.
En nú ætla ég að segja frá aðferðinni sem ég hef þróað til að lesa Hallgím og njóta hvers orðs en til þess þarf ég að bæta hér inn smá úturdúr.
Þegar ég var ung og þurfti á því að halda að hleypa heimdraganum og ferðast út í heim, sem í mínu tilviki var norður eða suður, var eini ferðamátinn að taka sér far með strandferðaskipi. Ég var (og er enn) hræðilga sjóveik og kveið þessum feðalögum og var reyndar líka oft lengi að jafna mig. Sérstaklega fannst mér erfitt að ferðast með Herðubreið, því hún kom við á hverju einustu höfn og þræddi því firðina en þeir eru margir. Herðubreið var eina strandferðaskpið sem lagði að bryggju á Breiðdalsvík svo okkur fannst eins og hún væri okkar skip. Ég held reyndar að það hafi verið þegar ég fór með Heklunni til Akureyrar í byrjun janúar 1964 sem ég fann upp þá ágætu aðferð við sjóveiki að liggja afslöppuð grafkjurr og gæta þess að fylgja stöðugt öldunni upp, niður, upp, niður og stundum til hliðanna og gæta þess að engin hreyfing skips kæmi á óvart. Það var sérstaklega erfitt þegar skipið tók upp á því að taka aukadífu og fara ekki alla leiðina niður heldur bara hálfa leið og svo upp eða til hliðar. En þá var bara að vera með fulla athygli og fylgja.
Það er svona sem á að lesa Hallgrím. Aldrei sleppa úr orði, fylgja öldunni. Þannig nýtur maður textans til fulls og nær einnig hinu stóra samhengi. (Auðvitað veit ég að líkingar ganga aldrei upp og þessi er ekki alveg heppileg því hún er um hvernig eigi að halda sér frá sjóveiki ). Þessi bók fjallar um afar margt. Hún er saga þjóðar og um örlög einstaklinga. En aðallega finnst mér hún fjalla um frelsi og ófrelsi og hvernig manneskja verður manneskja og þjóð þjóð. Það er langt síðan ég hef lesið svo góða bók og það það gerðist það sama og ævinlega þegar bók er góð, mig langar ekki að leggja hana frá mér og kvíði fyrir hvað taki við þegar henni er lokið.
Þegar ég hóf lestur bókarinnar vissi ég að hún þótt hún væri skáldsaga byggði hún á vissan hátt á ævi persónu sem talsvert hefur veru fjallað um vegna fortíðar hans og tengsla (og þátttöku) í stríði Hitlers. Ég þekkti þennan mann eftir að hann var orðinn gamall og lúinn, hann kenndi í skóla þar sem ég vann líka og ég drakk oft með honum kaffi. Vetrarlangt fór ég líka með dóttur minni sem var þá að hugsa um að læra á fiðlu. Mér þótti hann þægilegur í umgengni, fróður og laus við fordóma. Ég finn að ég er því fegin nú að skáldsagnapersóna Hallgríms sem byggir á þessum manni er alls ekki ógeðfelld.
Að lokum. Þótt ég hafi gætt þess vel að fylgja Hallgrími í öllum hans dífum, risi og útúrdúrum og fylgt honum inn á hvern einasta fjörð, veit ég að ég hef sjálfsagt ekki skilið allt í þessari bók. Ég ætla því að lesa hana fljótlega aftur og hlakka til.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.