Fall harðstjóra

220px-Mario_Vargas_Llosa                         250px-Rafael_Trujillo  Harðstjórinn, Rafael Leonidas Trujillo

Mario Vargas Llosa                       

Á síðustu dögum stríðsins í Líbýu (ef það er þá búið) lauk ég við að lesa bók um annan einvald og harðstjóra Trujillo sem ríkti í Dómeníkanska lýðveldinu á árunum 1930-1960. Bókinn er eftir perúanska rithöfundinn MARIO VARGAS LLOSA og ég las hana á sænsku, titill hennar er Bockfesten. Frásögnin er spunnin í kringum heimsókn Uraniu Cabral dóttur fyrrverandi ráðherra og samstarfsmanns Trujillo til æskustöðvanna eftir 30 ára fjarveru.  Faðir hennar er nú rúmliggjandi og út úr heiminum og hún rifjar upp það sem gerðist. Hún hittir líka frænkur sínar og upprifjunin heldur áfram. En við fáum ekki bara að fylgjast með atburðarrásinni í gegnum Uraniu, við fáum einnig að fylgjast með Trujillo sjálfum í hvunndegi og um samstarfsmenn hans. Við fylgjumst með samsærismönnunum sem bíða eftir því að ráða hann af dögum. Urania og fjölskylda hennar er líklega tilbúningur en aðrar sögupersónur byggja á heimildum. Frásagan er breið, hún fjallar ekki bara um harðstjórann, samstarfmennina og um illa skipulagt valdarán. Síðast en ekki síst fjallar bókin um sögu Dóminíkanska lýðveldisins. Það koma margar persónur við sögu og fyrstu fannst mér erfitt að ráða við alla þessa breidd, hver gerði hvað og hvernig tengdist þetta fólk. Líklega hafa þeir erfiðleikar mínir að hluta til falist í því að ég þekki ekki þennan menningarheim og ég kunni ekki einu sinni að bera fram nöfnin í huganum. En smátt og smátt, eftir því sem frásögninni vatt fram, gufaði vandamálið upp. Þetta var eins og að koma á nýjan stað þar sem þú í fyrstu þekkir ekki nokkurn mann að nokkrum tíma liðnum veistu eiginlega skil á öllum.

Þetta er óvægin lesning, höfundurinn dregur upp óhugnanlega mynd af spillingu og misnotkun valds. En Harðstjóri er aldrei einn að verki. Hann skapar sjálfan sig með því að fá aðra til að fylgja sér ýmist með því að skapa ótta eða af bara vegna þess að þeir hagnast á því og telja sig trygga í skjóli harðstjórans. Eiginlega finnst mér þáttur meðhlauparanna óhuggulegastur. Það minnti mig á, þótt því sé ekki saman að jafna, hver er ábyrgð okkar þegar við felum fólki völd með atkvæði okkar. Mér fannst líka erfitt að lesa ítarlegar lýsingar höfundar á pyndingum og sér í lagi þessari tækni og fagmennsku sem þróuð hefur verið. Það sem gerir þessar lýsingar þó enn óhuggulegri er að við vitum að þetta er allt satt og að svona viðgengst enn í dag. Kannski hefur tækninni og fagmennskunni  meira að segja farið fram.

Saga Uraniu, en henni fáum við að kynnast smátt og smátt, er átakanleg. Hún felur í sér hámark niðurlægingar sem spilling og harðstjórn getur haft í för með sér. Þannig skildi ég það að minnsta kosti þegar Cabral samstarfsmaður Trujillo ætlar að vinna aftur traust harðstjórans með því að fórna dóttur sinni sem er barn að aldri sem fórnarlamdi á altari kýnlífsorgía harðstjórans. Eða á maður kannski frekar að skilja þetta biblískum skilningi á grundvelli sögunnar um Abraham og Ísak.

Mér fannst þetta frábær bók og ég vona að hún verði þýdd því hún á svo sannarlega erindi núna. Því miður. Auk þess var hún að vissu leyti fræðandi fyrir mig og varð til þess að ég las mér svolítið til um þennan heimshluta sem er mér svo ókunnur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 189889

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband