Brúðarrán

Gerður Kristný 

Ég hafði heyrt svo mikið lof um bók Gerðar Kristýjar, Blóðhófnir, að ég hafði ekki enn lagt í að lesa hana meir en ári eftir að hún kom út. Svona getur mikið hrós um bækur slegið til baka. Ég er nefnilega með þeim ósköpum að ég á bágt með að lesa bækur sem mikið er fjallað um og sérstaklega ef þær eru lofaðar upp í hástert. Annað hvort er ég hrædd um að þær valdi mér vonbrigðum eða að umræðan trufli mig á einhvern hátt við lesturinn.

Lestrarfélagið mitt ákvað það fyrir mig að að ný skyldi Blóðhófnir lesinn. Ég tók bókina með mér til Berlínar og las hana á einu kvöldi. Reyndar tók ég líka með mér Eddukvæði I, en sú bók hefur að geyma kveikjuna að kvæðinu, Skírnismál og las þau líka. Síðan las ég Blóðhófni aftur. Reyndar voru Skírnismál mér vel kunn frá fyrri tíma enda ógleymanleg. Þar segir frá því þegar Freyr verður ástfanginn af Jötnameynni Gerði og sendir vikapilt sinn Skírni til að ræna henni og fær hann til ferðarinnar stríðshestinn, sem Gerður Kristný nefnir Blóðhófni og forlátasverð. Heimamenn Gerðar höfðu ekki, þrátt fyrir jötundóm sinn, afl til að verjast og Skírnir nemur Gerði nauðuga með sér sér í Ásgarð.

Gerður Kristný byggir á þessari sögn og yrkir nýtt kvæði út frá sjónarhorni Gerðar sem er tekin nauðug og föðurhúsum þvinguð til ásta. Saga Gerðar er sögð á ljóðrænan hátt, stíllinn er knapppur og afskaplega myndrænn. Málfarið er venjulegt nútímamál og það færir söguna svo nálægt okkur að það er eins og þetta sé að gerast núna. Ég fór að hugsa um vandamál sem er ofarlega í umræðu dagsins í dag, ofbeldi gegn konum og ég fór að hugsa um stríð og flóttafólk sem verður að yfirgefa allt sitt.

Mér fannst þetta góð lesning, hvoru tveggja ljóðin. En til að vera alveg hreinskilin fannst mér í allra síðasta hluta kvæðisins bregða fyrir væmni, en það er kannski ekki að marka, því ég er ofurviðkvæm fyrir væmni. Reyndar er efni þessa síðasta kafla þannig að það er erfitt að nálgast það án mikilla tilfinninga, því það fjallar um sjálfa móðurástina. Stöllur mínar í lestrarfélaginu sögðu mér að vandinn væri minn ekki skáldsins. Þetta sannar fyrir mér hvað það er gott að vera í félagsskap um að lesa bækur. Þær sögðu mér líka að nafnið Blóðhófnir hefði ekkert með það að gera að hesturinn hefði verið blóðjárnaður en það var mín fyrsta tengin við nafnið á bókinni enda er ég úr sveit þar sem ég lærði að vorkenna hestum sem urðu fyrir slíku.

Það var gaman að lesa þessa bók og það var gaman að handfjalla hana því hún er afar falleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 189891

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband