10.10.2011 | 23:42
Eftirmáli stríðs?
Ef ég hefði ekki lesið bók Steve Sem-Sandberg um Fátæka fólkið í Lodz (2009) og síðan Ravensbrück (2003) hefði mér líklega aldrei dottið í hug að lesa bókina Theres, sem byggir á atburðum úr æfi Ursulu Meinhof. Ég var afar hrifin af báðum þessum bókum. Bók Sandbergs, Theres sem hann skrifaði 1996, var endurútgefin 2004 með frábærum formála eftir Madeleine Gustafsson. Ég get ekki sagt að mér fyndist bókin árennilegt í fyrstu, hún er 453 bls., textabrot og heimildir úr ólíkum áttum og skáldskapur. Það var ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvað var hvað.
Nú get ég ekki sagt að ég hafi ekki eitthvað þekkt til málsins. Þegar okkur Íslendingum bárust stöðugar fréttir af "Rauðu herdeildinni " í Þýskalandi starfaði ég í róttækum samtökum á Íslandi, Æskulýðsfylkingunni, sem barðist gegn sömu hlutum og RAF í Vestur-Þýskalandi. Við vissum um þetta fólk og fylgdumst með fréttum af því. En einhvern veginn held ég að við höfum ekki fylgst nógu vel með og að við höfum verið hálfvolg í afstöðu okkar. Nú tala ég fyrir mig. Var verið að ofsækja þetta fólk? Voru fréttirnar sem okkur bárust fullkomlega réttar? Ég var á móti því að beita ofbeldi í mótmælum og ég er enn meira á móti því nú.
Bókin um Theresu (Ulriku) segir frá henni og því sem var að gerast í Vestur-Þýskalandi út frá sjónarhorni hennar. Við sjáum hana og samtíma hennar í gegnum hana, það er næstum eins og við fáum að fylgjast með hugsunum hennar innan frá. En það er ekkert auðvelt að skilja hvað er á ferðinni. Bókin er eins og pússluspil. Höfundurinnn raðar saman ógrynni af efni úr ólíkum áttum, úr fjölmiðlum, frá réttarhöldunum, því sem Ulrika hefur verið að skrifa og því sem hann hefur fundið í heimildum um þettta mál. Inn í þetta blandast átökin í kring um kalda stríðið sem var kannski alls ekki svo kalt. Það sem kom mér á óvart þegar ég las bókina, var hvað Úlrika var orðið gömul (og þroskuð) þegar allt þetta skeði.
Ulrika Meinhof var fædd 1934. Hún ólst upp í Jena sem síðar féll í hlut Austur-Þýskalands. Faðir hennar var safnvörður og móðir hennar var menntuð í listasögu. Hún missir föður sinn sex ára og móður sína 10 árum síðar. Vinkona móður hennar gengur henni í móðurstað. Fjölskyldan, ef fjölskyldu skyldi kalla, flýr til Vestur-Þýsklalands og Ulrika gengur menntaveginn er afburðanemandi. Hún verður róttæk og giftir sig og eignast tvíbura. En hún er veik. Það kemur í ljós að hún er með heilaæxli, góðkynja(undarlegt orð) sem ekki er hægt að fjarlægja og það er sett á það silfurklemma til að hefta skaðsemi þess. Þessi sama silfurklemma á síðan eftir að koma upp um hana þegar hún er handtekin. Undarleg örlög. Ulrika og maður hennar gefa út rótækt blað, KONKRET en þau fá styrk til að reka það frá Austur- Þýskalandi. Þegar friðsamur mótmælandi, Ohnesorg er skotinn til dauðs og síðarn vinur hennar Rudi Dudschke (en lifir reyndar í nokkur ár eftir það) breytist afstaða hennar. Hún fellur fyrir því að friðsamar aðgerðir dugi ekki til og gengur til liðs við þá sem beittu ofbeldi.
Lögrelustjórinn Horst Herold tekur að sér að berjast gegn hryðjuverkamönnum í Vestur- Þýskalandi og þar með tekur hann að sér mál Ulriku og RAF. Hann verður stór persóna í þessari bók. Hann var þekktur fyrir vönduð vinnubrögð og gagnasöfnum og það var ekkert smáræði. Í skrám hans voru; 3,4 miljónir nafna og 3100 félög róttæklinga.
Þegar Ulrika og félagar hennar voru fyrst gómuð tóku við löng réttarhöld, fjögur ár. Það er átakanlegt að lesa um þau eins og fleira í þessri bók. Ulrika svipti sig lífi áður en það fékkst nokkur botn í málið og enn veltir fólk fyrir sér það hafi gerst með þeim hætti sem þar er lýst. Meira að segja þeir sem réðu kirkjugörðunum veigruðu sér við því að taka við líkinu.
Það sem gerðist í Vestur-Þýskalandi eftir stríðið hefur af mörgum verið skýrt á þann máta að fólk hafi verið ósátt við að ekki hafi verið gert upp við fortíðina. Fólk horfði upp á að þátttakendur í glæp um nasista gegndu áfram lykilstöðum. Það var eins og ekkert hefði breyst. Ekki veit ég hvað er satt í því en meðan ég var að lesa bókina fann ég samt fyrir einhverri nagandi óróa um að eitthvað væri líkt með því sem var að gerast þá og því sem gerðist hjá okkur við hrunið. Ég veit reyndar að það er ekki hægt að jafna þessu saman því það var enginn drepinn í hruninu. Það sem gerðist í Þýskalandi eftir stríðið minnir okkur á að ÞAÐ ÞARF AÐ GERA UPP VIÐ FORTÍÐINA. Þar gengu morðingar lausir. Hér hefur fólk á tilfinningunni að enn gangi þjófarnir lausir.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 35
- Frá upphafi: 190366
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.