8.10.2011 | 19:21
Gamlinginn sem stakk af
Ég held að það hafi verið á vordögum í fyrra sem ég tók eftir því að maðurinn hristist af hlátri við hliðana á mér í rúminu. Aðspurður sagist hann vera að lesa svo skemmtilega bók. Og síðar fór hann að segja mér frá efni hennar. Að hún væri um 100 ára mann sem flýði af elliheimili, væri á flótta og lenti í margvíslegum efintýrum. Er þetta einhvers konar Börn náttúrunnar spurði ég en hann sagði að hún ætti lítið skylt við þá frásögn og svo hélt hann áfram að reyna að telja mér trú um, að þetta væri so skemmtileg bók, en ég lét ekki sannfærast.
Það var því ekki fyrr enn eftir umfjöllun Páls og Kolbrúnar í Kiljunni að ég dró bókina fram og hóf lesturinn, reyndar enn full efasemda. Hvernig getur karlagrobbsaga verið svona skemmtileg?
En viti menn? Ég hafði gaman af bókinni. En ekki veltist ég eins mikið um af hlátri eins og þeir sem höfðu áður lýst upplifun sínni af lestrinum en ég hló oft og mikið innan í mér og hlæ enn.
Bókin segir sem sagt sögu gamals manns sem strýkur af elliheimili, rekst á ungan mann sem dregur á eftir sér ferðatösku með peningum en auðvitað veit gamli maðurinn ekki hvert innihald töskunnar er þá. Örlög hans og töskumannsins eiga síðan eftir að tengjast saman og vinda upp á sig. Frásagan fer fram á tveimur tímaplönum, annars vegar er sögð saga gamals manns á flótta, hins vegar er rakin saga hans frá frá æsku og fram til þess tíma sem hann tekur ákvörðun um að yfirgefa elliheimilið. Báðar frásagnirnar eru afar spennandi og það sem meira er þær eru líka fræðandi og oft heimspekilegar.
Allan Karlson er fæddur í Yxholt í Sörmland. Foreldrar hans eru venjulegt sveitafólk ef það má orðða hlutina þannig, þangað til faðirinn fær hugmyndir sem má segja að liggi í tímanum. Hann tekur upp á því að berjast fyrir getnaðarvörnum við litlar undirtektir og síðan gerist hann róttækur og ákveður að það sé vænlega að berjast fyrir þeim málstað með skoðanabræðrum sínum í Rússlandi en fyrir daufum eyrum fólks í Sörmlandi. Reyndar fer það svo að hann skiptir um lið og drepinn af fyrrverandi skoðanabræðrum sínum eftir að hann hefur girt af tíu fermetra garðland sem hann átti og lýst það sjálfstætt lýðveldi.
Ég ætla mér ekki að rekja efni bókarinnar frekar en örlögin eða er það bara röð tilviljana, sem veldur því að Allan á eftir að ferðast víða og hitta mörg stórmenni, kannski væri réttara að segja áhrifamenn á ferð sinni (mér er þó skapi næst að segja lítilmenni en það myndi trúlega ekki skiljast). Og alls staðar hafði hann með einum eða öðrum hætti áhrif á gang sögunnar.
Ég held að það sé á vissan hátt hægt að segja að lífið hafi farið hörðum höndum um litla drenginn í Yxholt. Það á eftir að móta afstöðu hans til framtíðar en hún fellst í raun í algjöru afstöðuleysi. Það má einnig segja að það sé hægt að draga viðhorf hans saman í eina setningu en það er einmitt setningin sem móðir hans segir þegar henni eru færðar fréttirnar um að hún sé orðið ekkja eftir að maður hennar hafið verið myrtur í Rússlandi: "Det är som det är och det blir som det blir" (Það er sem það er og það fer sem það fer; þýðing mín).
Þetta er fyrsta bók höfundur. Hann heitir reyndar ekki Jónas heldur Pär-Ola og er fyrrverandi blaðamaður. Bókin varð strax vinsæl í Svíþjóð enda segir hún á vissan hátt sögu Svíþjóðar á 20. öld og alls heimsins ef svo má segja, þótt stiklað sé á stóru. Og í gegnum Allan Karlsson fáum við alveg sérstakt sjónarhorn. Það hafa margir bent á, að það sem Jónas gerir hér er síður en svo nýtt, það hafa margir sagt sögu á líkan hátt og hér er gert en það rýrir ekki gildi bókarinnar að mínu mati. Þessi bók á nefnilega marga ættingja ef út í það er farið. Sumir hafa nefn Forrest Gump, aðrir Góða dátann Zweik. Sjálfri rifjaði ég upp kynni mín af bókinni um ferð Nilla Hólmgeirssonar eftir Selmu Lagerlöv sem Oddný Guðmundsdóttir, kennarinn minn þýddi á íslensku. Reyndar minnti bókin mig afar mikið á bók sem ég las fyrir löngu eftir Doctorow sem heitir Ragtime og ég hef mikið dálæti á og þyrfti að lesa aftur.
Ég viðurkenni sem sagt að ég hafði rangt fyrir mér varðandi þessa bók sem maðurinn minn hló að í rúminu, ég var full fordóma. Hún er góð, hún er læsileg og hún skilur eftir ýmislegt sem býr með manni.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 35
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.