1.10.2011 | 21:56
Eitt get ég þó þakkað Framsókn
Ef faðir minn hefði ekki á tímabili verið Framsóknarmaður hefði ég trúlega aldrei lært að hjóla. Skrýtin fullyrðing en sönn samt. Það voru ekki mörg reiðhjól í Breiðdalnum þegar ég var að alast upp, ég veit reyndar ekki um neitt. Nema reiðhjólið sem pappi minn fjárfesti í árið sem hann fór til Reykjavíkur á landsfund, eða landsþing Framsóknarflokksins, ekki man ég hvaða ár. Hann var lengi í burtu, man ég, ekki veit ég hvers vegna, kannski hefur staðið þannig á ferðum hjá Herðurbreið eða Esjunni. Kannski hefur verið verkfall. Hann bjó hjá Eysteini Jónssyni svo það væsti ekki um hann. Þegar hann kom til baka hafði hann sér tvennt handa okkur börnunum. Annað var áteiknuð pappírsörk sem var þeim eiginleikum búin, að ef maður klippti eftir línunum og notaði lím (sem mamma bjó til úr hveiti), gat maður búið til Alþingishúsið. Þetta var sem sagt módel af Alingishúsinu með Kringlunni og öllu. Það var flóknast að gera Kringluna. Síðan hef ég alltaf haft sérstakar mætur á Alþingishúsinu. Annað sem hann kom með var reiðhjól. Stórt og stæðilegt karlmannsreiðhjól. Ekki veit ég hvort hann hafði hugsað sér sjálfur að nota þetta hjól en ég man aldrei eftir honum á reiðhjóli enda voru vegirnir í Norðurdalnum ekki beinlínis þannig að þeir freistuðu til hjólreiða. Ofaníburðurinn var afar grófur, möl úr ánni. En við, börnin á bænum lærðum held ég öll að hjóla á þessu reiðhjóli, á túninu. Það var mjúkt að detta. Fyrst strákarnir og svo ég, veit ekki fyrir víst um Ásdísi. Eins og ég hef þegar sagt var hjólið stórt karlmannshjóla svo ég þurfti að læra að hjóla undir slá eins og það var kallað en það gekk.
Annað sem ég get þakkað Framsókn fyrir, reyndar óbeint, er besta og líklega eina fjárfestingin sem ég gerði í góðærinu svokallaða. Ég held mér sé óhætt að segja að það og síðar hrunið hafi verið í boði Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. En í góðærinu keypti ég mér sem sagt forlátahjól, eiginlega gæðing. Þetta er hvítt kvenhjól, sjögíra og bæði með fót- og handbremsu.
Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að enda þennan pistil en mér varð í dag hugsað til pabba míns, Framsóknar, Alingishússins og stóra svarta karlmannsreiðhjólsins þegar ég skaust á hjólinu mínu til vinkonu minnar með bækur. Eiginlega er það gott að faðir minn skuli ekki þurfa að horfa á það sem er að gerast í stjórnmálum dagsins í dag. Hann var af kynslóðinni sem átti bæði hugsjón og von, sem allt of fáir eiga og þora að treysta á í dag.
Ég held ég ljúki pistlinum með því að geta þess að faðir minn yfirgaf Framsókn skömmu eftir þennan landsfund eða þing og gekk til liðs við öfl sem honum fannst eiga meiri hugsjón en Framsókn.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.5.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 59
- Frá upphafi: 190017
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 49
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sammála þér með framsóknarflokkinn. Einu sinni átti hann hugsjón. Sú hugsjón var samvinnuhugsjónin. Nú er hún fyrir bí og SÍS sjálfur genginn fyrir ætternisstapann.
Í mínu ungdæmi var það kallað að hjóla undir stöng. (ekki slá) Það neyddumst við krakkarnir stundum til að gera ef karlmannshjólin voru mjög stór. Auðvitað stelpur miklu fremur en strákar.
Sæmundur Bjarnason, 1.10.2011 kl. 23:07
Líklega alveg rétt hjá þér með orðtækið, hjóla undir stöng, var það
Bergþóra Gísladóttir, 1.10.2011 kl. 23:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.