Kaffihús tregans

250px-Carsonmccullers

Carson McCullers f.1917 d. 1967

Bókin kom út hjá Bjarti 2010

Ég las þessa bók einungis vegna þess að það hafði verið ákveðið fyrir mig í lesklúbbnum mínum. Ég þekkti ekkert til hennar en kann vel að meta þýðandann svo ég hafði ekki uppi andmæli.

Þetta er ekki löng bók, aðeins 104 síður og ég var fljót að lesa hana. Hún kom mér fyrir sjónir eins og sögusögn eða frásaga sem maður heyrir frá fjarlægum landshluta, eitthvað sem gerðist fyrir löngu en maður treystir ekki fyllilega að rétt sé farið með og veit vel að þetta hlýtur að vera bara eitt sjónarhorn.

Sagan segir frá atburðum í litlu þorpi í Suðurríkjum Bandaríkjanna og hún spinnst í kring um sögu eins húss og um fólkið sem tengist því. Hún fjallar þó sérstaklega eigandann, dugnaðarkonuna Ungfrú Amalíu sem er rík, atorkusöm og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. En hún er undarlega ein þó hefur hún gengið í hjónaband með manni sem er ástfanginn af henni en það endist ekki lengi. Amalía laðar ekki að sér fólk, allt þar til frændi hennar, Lymon Willis, sem er krypplingur kemur til hennar.

Meðan ég var að lesa þessa bók. varð mér ósjálfrátt hugsað til þorpa og sveita sem ég þekki til hér á Ísalandi og ég þekki bæði til af raun og af frásögnum annarra. Ég verð að játa það að frásagnir annarra um þessi þorp, þennan heim sem ég ég gjörþekkti og fannst fjölbreyttur og auðugur, pirraði mig oft. Reyndar veit ég og viðurkenndi að þetta var einungis þeirra sjónarhorn og það á fyllilega rétt á sér en það ergði mig samt að þeir og margir fleiri telja þessar frásagnir tryggan vitnisburð um að svona hafi þessi þorp verið. Það sem ég segi frá hér er útúrdúr kemur í sjálfu sér ekki þessari bók við en það hefur ósjálfrátt áhrif á hvernig ég skynja hana, því ég er aldrei alveg til staðar í þorpinu hennar Ungfrú Amalíu heldur er ég e.t.v. stödd á Reyðarfirði, Breiðdalvík, Djúpavogi, Ólafsvík eða Flateyri og ég fer að hugsa um aðrar konur sem á sinn hátt líktust Amalíu.

Það sem mér þótti merkilegast í þessari bók voru hugleiðingar höfundar um eðli ástar. Ástin býr hjá mér og þér en ekki endilega þeim sem við elskum. Ég er nú ekki viss um að ég skilji þetta alveg en hugleiðingin er góð og kemur reyndar víðar fyrir. Sömuleiðis fannst mér gaman að hugleiðingum hennar um eðli hópsins. Það er á þann veg að tilvist þín eða þeirra sem tilheyra hópnum upphefst, hópurinn gleypir þig og það er ekki þú sem ákveður, heldur hann, hópurinn. Reyndar spilaði þessi hugleiðing svo sem enga rullu efnislega í bókinni, týndist bara en minnti mig á hugleiðingar skálds Elias Cannetti sem ég las fyrir löngu um eðli múgsins.

Auk þess er ég nýbúin að lesa aðra bók af trúlega svipuðum slóðum, suðurríkjunum, sem fjallar um líf afkomenda þræla frá Afríku og ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að þeir séu líka til staðar í þessu þorpi þótt að sé aldrei um þá fjallað eða þeirra getið nema "vikadrengsins" Jeffs, sem virðist hafa gert ýmislegt fleira en fara í sendiferðir. Lýsingin á krypplingnum frænda Amalíu er einnig barns síns tíma, full af klisjufordómum. Hann er lúmskur, reigingslegur. Hann gengur ekki, hann tiplar.

Ég átti sem sagt ekkert sérstaklega gott með að einbeita mér að þessar bók. Ég hreifst þó af andrúmsloftinu sem höfundurinn skapar og ég var ánægð með fallegan íslenskan texta sem er verk Óskars Árna Óskarssonar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæra Bergþóra, takk fyrir að fjalla um þessa merku bók, þú ert nú samt of neikvæð í umfjöllun þinni og hinar heimspekilegu pælingar þínar um krummaskuð á Íslandi fá of mikið pláss.  En Carson McCullers samdi fjórar merkilegar bækur og lifði furðulegu lífi sjá hér: http://www.georgiaencyclopedia.org/nge/Article.jsp?id=h-557. Ég las The Heart is a lonely Hunter og Reflection in a golden eye þegar ég var ungur en hef aldreið lesið The member of the Wedding. Svo það er bezt að rifja upp þessa merkilegu konu.   Kveðja úr forstofunni.

erling olafsson (IP-tala skráð) 18.9.2011 kl. 15:45

2 Smámynd: Bergþóra Gísladóttir

Neikvæð og neikvæð, segi bara þáð sem mér finnst. Orðið sem þú nefndir fyrir þorp á Íslandi tek ég mér ekki í munn og skrifa því síður. Það dæmir sig sjálf. En takk fyrir að lesa þetta og takk fyrir góðar ábendingar. Kannki felst galdur bókarinnar í því sem hún segir ekki

Bergþóra Gísladóttir, 18.9.2011 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband