23.7.2011 | 21:26
Uppgjör
Veikur maður gerir upp við æsku sína. Hann er 60 ára og er að takast á við krabbamein. Honum er sagt að hann sé dauðvona en það sé hægt að lengja líf hans. Þetta hljómar kannski ekki sem áhugaverð lesning og ég hefi ekki dregist að henni nema að maðurinn heitir (hét) Sven Delbalanc.
Fyrstu kynni mín af verkum Sven Delblanc var á Uppsalaárum, mínum á áttunda áratugnum. Aðferð mín við að læra sænsku var að lesa og lesa sem mest. Ég heillaðist af Sven Delblanc þótt hann sé kannski ekki beinlínis sá höfundur sem viðvaningum í det svenska språket er bent fyrst á að lesa. Auk þess bjó hann í Uppsala og kenndi skapandi skrif. En það háskólafag hafði ég aldrei fyrr heyrt um. Hann hafði áður kennt þetta sem gestaprófessor við Berkeleyháskóla í Kaliforníu. Einu sinni sá ég hann á götu og mig langaði til að ávarpa hann.
Bækurnar sem ég las núna sem hann skrifar í veikindum sínum:Agnar, Livets ax og Slutord. Slutord las ég því miður á dönsku og það er var ekki nógu gott. Ég held að maður verði helst að lesa Delblanc á sænsku. Agnar og Livets ax eru ævisögulegar og fjalla um æsku hans og bernsku með ívafi um sjúkdóminn og að liggja fyrir dauðanum. Slutord fjalla fyrst og fremst um sjúkdóminn en þó aðallega um dauðann. Ævusögulegu bækurnar eru nokkurs konar uppgjör, uppgjör við hans nánustu og þó sérstaklega föðurinn og þær eru grimmar. Hann hlífir hvorki sér né öðrum. Það er ekki nýtt fyrir mig að lesa um fjölskyldu Delblancs, hún hefur verið honum efniviður í mörgum bókum hans en þá hafa þær verið skrifaðar sem skáldsögur og nöfnum breytt. Mér finnst ég vera orðin nokkuð kunnug þessari fjölskyldu. En þessar ævisögulegu bækur eru allt öðru vísi, þær færa mann alveg inn í aðstæðurnar sem þessi ungi drengur og piltur bjó við og það er óhuggulega grimmar og niðurlægjandi aðstæður. Mér finnst að ég hafi hvergi lesið eins vel fjallað um heimilisofbeldi og hér í þessum bókum. Honum tekst einnig óhuggulega vel að lýsa því hvernig litli drengurinn og seinna unglingurinn togast á milli ósamrýmanlegra tilfinninga, ástar og haturs á föðurnum sem kúgar fjölskyldu sína. Hvernig er hægt að elska eða bera virðingu fyrir manni sem ber móður og misþyrmir dýrum. Engu að síður þráir Delblanc að eiga föður.
Það sem Delblanc skrifar um sjúkdóm sinn, erfiða meðferð og um dauðann er ekki síður grimmt en það sem hann sem hann skrifar þegar hann er að lýsa uppvextinum. En er einhver ávinningur af svona bókum? Væri ekki alveg eins gott að láta satt kjurrt liggja og er einhvern tíma hægt að gera upp við erfiða bernsku? Líklega er svarið við því að það sé í raun ekki hægt úr því að maður eins og Delblanc kemur að þessu efni æ efir æ en þarf samt að takast á við það í sínu dauðastríði. Spurningin er í raun röng. Svarið er að hann þarf þess, hann verður. Engu að síður finnst mér eftir lesturinn að Sven Delblank hafi farið ósáttur við að vera ósáttur við föður sinn inn í dauðann.
Og það er svo sannarlega gefandi fyrir mig, lesandann að Delblanc barðist við dauðann og að hann skrifaði fram í andlátið, því mér finnst hann hafa gefið mér dýrmæta lesningu sem er engu lík. Ég vona að sem flestir geti notið þess að lesa Delblanc, kannski er þetta bara vitleysa hjá mér að það sé ekki hægt að njóta þess að lesa hann í þýðingu.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.5.): 0
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.