Den röda grevinnan

untitled    250px-Yvonne_Hirdman Móðirin greifynjan og dóttirinn rithöfundurin

                                                      Carlotte Stenbock/Hirdann og Yvonne Hirdmann

Ég tók Rauðu greifynjuna með mér í sumarfríið á æskuslóðirnar austur í Breiðdal. Allar aðstæður til lestrar voru ákjósanlegar. Veðrið var ekki beinlínis vont en það freistaði ekki til útivistar, dumbungur og súld. Þoka niður í miðjar hlíðar fjallanna en ég þekki mig svo vel að ég vissi svo sem  hvað leynist að baki. Það náðist ekki netsamband, skilyrði til netsambands eru misjöfn eftir staðsetningu en hvergi góð. Sjónvarp og útvarp datt meira að segja alveg út í meira en sólarhring.

Ég skrifa þennan formála vegna þess að Rauða greifynjan er kannski ekki svo árennileg bók í fyrstu. Hún er skrifuð af dóttur, Yvonne Hirdmann um móður, Charlotte Hirdmann. Dóttirin er sagnfræðingur sem er þekkt fyrir skrif um kvenréttindi, femí­nisma og róttækar hreyfingar, kommúnista og sósíalista. Allt í einu kemst hún að því að hún veit afar lítið um móður sína. Hún þekkir brot en kann ekki að raða þeim saman. Hún, sagnfræðingurinn, óttast að það finnist ekki nógu áreiðanlegar heimildir til að nota til að líma saman þessar stöku myndir svo úr verði heil saga. Og hún byrjar að blaða og skoða myndir. Hún rýnir í myndirnar af móður sinni og veltir fyrir sér hvað var mamma mín að gera, hugsa, hér og hvar passar þessi mynd inn í heildarmyndina. Hún þekkri ýmis nöfn úr lífi móður sinnar og hún fór á netið og hún finnur mikið efni. Fólkið sem Charlotte hafði umgengist hafði margt skráð eitthvað, mismikið og leyniþjónustur þess tíma voru ótrúlega natnar að halda saman efni um líf fólks.

Sagan hefst á síðari hluta 19. aldar í litlu þorpi, NEUCHATEL í frönskumælandi hluta Sviss. Þar er móðir aðalpersónu sögunnar (amma rithöfunarins) fædd. Hún heitir Cécillie Emma Redard (fædd Pfeiffer) og er gift drykkfelldum (að því er segir) iðnaðarmanni og á með honum 14 börn af þeim lifa 10 og Emilie móðir Charlotte er ein af þeim. Emilie  sem er fögur og lífsþyrst kona, fer 18 ára til Búkarest til að mennta sig og verða kennari. En ástin glepur að því er virðist og hún fer aftur heim til Sviss en ræður sig síðar  sem húskennara hjá tignarfjölskyldu í  Ratshof rétt utan við Dorpat (núverandi Tartu) í Líflandi. Ekkert þessara nafna segir mér neitt en bókinni fylgja tvö kort yfir helstu staði sem við sögu koma og það sem mikilvægara er, þar eru dregin landamæri landaskipanar í Evrópu, eins og hún var 1914 og 1923. Það er ýmislegt  ekki ljóst varðandi Emilie á þessum tíma. En það er í Dorpat sem Emilie hittir tilvonandi eiginmann, Fritz Schledt. Hann er að því er virðist efnilegt mannsefni, menntaður bóksali af  þýskum ættum (frá Hamborg).  Hann hefur fengið vinnu í Riga. Þau gifta sig sem sagt við upphaf blóðugra byltingarátaka og þar fæðist litla Charlotte sem er aðalpersóna þessar bókar. En þetta er bara byrjunin. Fjölskyldan flytur (flýr?) til Þýskalands og þaðan til Oxford. En Evrópa var lítil á þessum tíma og  fjölskydufaðirinn ákveður að taka sig upp og opna eigin bókabúð í Czernowitz í Bukovínu. Enn nýtt og merkilegt nafn fyrir mig. En Búkovína var hérað með ákveðna sérstöðu á landamærum Rússlands og Rúmeníu og þar bjuggu Þjóðverjar (mest gyðingar), Úkranir, Rússar og Rúmenar. Þarna ólst Charlotte upp ásamt systur og bróður.  

Hún fer sem ung kona til Þýskalands, giftist greifa, skilur, verður ástafngin af kommúnista en verður að flýja Þýskaland og fer til Zürich og kemst loks í gegnum Tékkóslavíku til Moskvu þar sem hún hyggst vinna að því að byggja upp sæluríkið en sambýlismaður hennar og margir vinir þeirra þar eru hátt settir innan flokksins. Mér fannst þessi kafli ævisögunnar átakannlegastur. Unga fólkið verður í fljótlega vitni að hreinsununum sem fara í hönd og síðar sjálf fórnarlömb. Þau eru fangelsuð og yfirheyrð eitt af öðru og þau játa. Þannig voru þessi réttarhöld. En þau ganga ekki af trúnni, það er undarlegast.  Það va kannski ekki í neitt skjól að venda. Annars vegar Stalín hinsvegar Hitler. Loks kemur að undarlegasta og að því er virðist dularfyllsta kafla sögu þessarar ungu, einu sinni lífsglöðu og bjarsýnu konu. Hún flýr á ævintýralegan hátt til Danmerkur og síðan til Frakklands. Það er stríð. Flest bendir til að hún hafi í raun farið sem njósnari Sovétstjónarinnar. En hún hoppar af. Kynnist í París kornungum Svía og verður ófrísk. Sér fóstureyðingu sem einu færu leiðina en er talin ofan af því af góðhjartaðri norskri konu sem hjálpar henni að komast til Noregs þar sem hún fæðir barnið. Hún giftist síðan unga manninum sem er faðir rithöfundarins. Þau setjast síðan að í Svíþjóð þar sem hún vinnur seinna bæði sem túlkur og fararstjóri. Yvonne Hirdman segir ekki mikið frá lífi móður sinnar og fjölskyldu í Svíþjóð, líklega er það með  vilja gert, það yrði of nákomið. En bróðir hennar, drengurinn sem fæddist í Noregi, á eftir að sækja menntun sína m.a. til Sovétríkjanna og  vinnur seinna  í utanríkisþjónustunni. Það er hann sem hjálpar til við að finna og skýra gögnin frá leyniþjónustunni  um móður sína.

Það var lífsreynsla að lesa þessa bók. Þótt ég héldi að ég vissi eitt og annað um Evrópu breytti lesturinn hugmyndum mínum. Evrópa er í þessari frásögn á einhvern hátt svo lítil og líf fólks af margvíslegu þjóðerni svo náið. Og öll þessi hræðilegu stríð og óhuggulegu pólitísku stefnur og framkvæmd þeirra. Bókin fjallar um sögu Evrópu  og um leið allt þetta unga, menntaða, frjálslynda og lífsglaða fólk sem var fórnað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 190025

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband