20.6.2011 | 21:33
Spæld eftir að hafa lesið Brotin egg
Maðurinn minn er félgi í bókaklúbb og með jöfnu millibili berast bækur. Ein þessara bóka heitir BROTIN EGG, sem kom út hér hjá Bjarti 2011. Maðurinn minn hefur ekki lesið þessa bók en þar sem ég er svo samviskusöm og nýtin fannst mér að ég þyrfti að lesa hana svo að hún færi ekki til spillis.
Bókin fær að sjálfsögðu mikið lof á bókarkápu:"Sérstaklega skemmtileg skáldsaga um sannfærðan vinstrimann (en alls ekki kommúnísta!) og dimmustu daga 20. aldarinnar ... Hjartnæm saga um leit manns að sjálfum sér, fjölskyldu, ást og sannleika".
Sögumaðurinn, Feliks Zhukovski 61 árs gamall gefur út ferðahandbók sem sérhæfir sig í því að leiðbeina ferðamönnum sem ferðast til landa fyrir austan járntjaldið. Þetta er það eina sem hann gerir og af þessu hefur hann sitt lifibrauð. Hann býr í París. Hann er fæddur í Póllandi en móðir hans sendir hann 9 ára gamlan ásamt eldri bróður til systur sinnar í Sviss til að bjarga honum þegar Þjóðverjar eru í þann mund að ráðast inn í Pólland. Í Sviss er hann ekki velkominn og bræðurnir koma sér í burt úr fóstrinu um leið og þeir geta bjargað sér. Hinn ungi Feliks fer til Frakklands og eftir það er eins og líf hans ráðist af tilviljunum. Hann gerist róttækur af því hann finnur n.k. fjölskyldu meðal róttæklinga og hann fer að gefa út ferðahandbókina af því hann kann svo mörg tungumál. Fjölskyldubönd Zhukowskifjölskyldunnar rofna, í ringulreiðinni eftir stríðið veit hann ekki hvar móðir hans og bróðir eru niðurkomin.
Hann lifir sem sagt reglubundnu og nokkuð tryggu lífi þangað til múrinn fellur og austurblokkin riðar til falls. En þetta kallar á róttækar breytingar á handbókinni og það treystir hann sér ekki í. Þetta leiðir síðan af sér að hann fer að endurskoða ýmislegt í stjórnmálaskoðunum sínum og eigin lífi.
Allt þetta og átök Feliks við að gera upp líf sitt ætti að vera góður efniviður í spennandi og góða bók en í þessu tilviki nægir það ekki. Meginefni bókarinnar er um hugmyndir og hugsjónir en höfundi tekst einhvern veginn ekki að gera efninu skil þannig að lesandinn hrífist með. Öll umfjöllunin er flöt, grunn og fyrirsjáanleg. Fjölskyldusagan ætti líka að geta verið spennandi og hjartnæm en persónurnar lifna aldrei við. Þær eru eins og dúkkulísur eða skuggamyndir.
En allt fer vel að lokum. Feliksi tekst að selja útgáfuna (til Ameríku), finnur bróður sinn, fær að vita um örlög móður sinnar sem hafði í raun ekki bara viljað losna við hann, Hann finnur einnig gömlu vinkonuna sem múrinn aðskildi hann frá og eignast fjölskyldu.
Ég var fljót að lesa þessa bók en hún skildi lítið eftir. Ég veit ekki hvort ég hef haft nokkuð upp úr því nema góða samvisku, það hefur þá einhver lesið þessa bók og það réttlætir það að vera í bókaklúbbi.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.5.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 35
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 30
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.