17.6.2011 | 17:23
17. júní í hjarta mínu
Þessi fyrirsögn er kannski dálítið væmin en hún er tilkomin vegna þess að ég hef lengi vitað að þessi dagur á alveg sérstakan sess í hjarta mínu, mér þykir beinlínis vænt um hann. Það er alveg örugglega þannig til komið að í sveitinni minni (eins og börnin segja), þ.e.a.s. Breiðdalnum hafði 17. júní alveg sérstakan sess, hann var hátíðisdagur fólksins þar sem það kom saman og fagnaði. Samkoman var haldin í félagsheimilinu Staðarborg eftir að hún varð til, en ég held að áður hafi a.m.k. stundum verið 17. júníhátíðir á Stöðurlbarðinu en þar var gamla samkomuhúsið og fótbóltavöllur. Að sjálfsögðu bara malarvöllur því þannig voru fótboltavellir í þá daga. Mig rámar í slíka samkomu.
Það var nokkuð fast form á þessum samkomum. Það voru sett upp langborð eftir endilöngum sal félagsheimilisins. Það var hægt að koma fyrir þremur sætaröðum ef ég man rétt. Borðin voru dúkuð og lagt á þau fyrir kaffidrykkju sem var hið kalssíska form við að hittast. Veitingarnar voru kaffi, sætabrauð og tertur, og súkkulaði fyrir börnin. Sjáfsagt hafa konurnar í sveitinni og í þorpinu Breiðdalsvík átt veg og vanda af þessum veitingum. Fyrir enda salarins var ræðupúlt og þar fluttu ræðumenn ræður og ávörp. Og svo talaði fólk saman. Oftast var skipulögð fótboltakeppni í tengslum við hátíðina en Breiðdælingar elskuðu fótbolta. Á þessar samkomur mættu allir sem áttu heimangengt og þær tóku lungann úr deginum. Í sjálfu sér minntu þær um margt um þorrablót dagsins í dag. Munurinn var þó að þær voru haldnar að sumri en ekki vetri, þar var drukkið kaffi en ekki áfengi og ræðurnar voru um mikilvæg málefni en ekki gamanmál um sveitungana. Ég á margar góðar minningar frá 17. júní í Breiðdal og þótt það væri bæði spilaður fótbolti og farið í útileiki var hátíðastemming. Eftir á að hyggja held ég að dýrmæti dagsins hafi fólgist í því að fólk gekk einfaldlega út frá því að þetta væri okkar þjóðhátíðardagur og það væri í okkar valdi að gera hann innihaldsríkan og við allra hæfi. Það var eitthvað afskaplega hátíðlegt að hlusta á Sigurjón í Snæhvammi flytja hugvekju og föður minn Gísla Björvinsson lesa valinn kafla um Bjart í Sumarhúsum. Maður heyrði kannski ekki hvert orð því það var kliður og þetta var fyrir tíma hátalakerfa. Það var ekki auðvelt að láta orðin hljóma svo þau heyrðust til allra í þessum stóra sal.
Eftir að ég flutti suður til Reykjavíkur þá kvað við annan tón. Mér fannst ég stöðugt heyra óánæju og með daginn. Fólk talaði mikið um að hann hefði ekki það inntak sem honum bæri, hann vari innantómur og ekki í takt við líf þjóðarinnar. Og svo var stöðurgt rigning. Ég verð að segja að ég var þessu sammála en vissi ekki frekar en aðrir hverju hægt væri að breyta. Reyndar tók ég á þeim tíma þátt í tveimur óhefðbundnum 17. júní hátíðum, önnur var á vegum Æskulýðsfylkingarinnar/Fylkingarinnar (þá var ég formaður Reykjavíkurdeildarinnar), hin var hjá einkaaðiljum sem áttu stóran garð, næstum tún. Báðar þessar hátíðir tókust vel enda voru þær sprottnar frá fólkinu sem tók þátt.
Þjóðhátíðin í ár virðist mótast sterkt af umræðunni um Jón Sigurðsson. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert. Sérstaklega er áhugaverð viðleitni fólks að skoða samtímann í ljósi skoðanna Jóns og hugmynda um frelsi og sjálfræði. Ég held að hátíðleiki þessa dags geti þó aldrei mótast af neinu frekar en okkar eigin hugmyndum um þau sömu mál sem á okkur brenna og þau eru fleiri og önnur en þau sem Jón lagði áherslu á. Ég tek sem dæmi náttúruvernd og jafnréttismál og fleira fólki finnst merkilegt nú í ljósi þess hvað við vitum nú.
Ég geri mér alltaf einhvern dagamun 17. júní því ég held að það geri fólki gott að líta upp úr hvunndeginum og halda hátíð saman. Mest er þó um það vert að maður finni fyrir henni í hjarta sínu
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.5.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 35
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 30
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.