14.6.2011 | 22:15
Purple Hibiscus
Um leið og ég var búin að lesa bókina, Hálf gul sól eftir Chimamanda Ngozi Adichie, var ég ákveðin í að ná mér í aðra bók eftir þennan höfund. Fyrir valinu varð Purple Hibiscus, síðasta eintakið í Eymundsson (2004). Bókin fjallar um hina 15 ára gömlu Kambili og fólkið hennar í Enugu í Nígeríu. Hún og bróðir hennar Jaja alast upp hjá strangtrúuðum ríkum foreldrum og búa við ótrúlega kúgun föður. Faðirinn Eugene, er ekki bara ríkur, trúaður og voldugur heldur en hann jafnframt afar framfarasinnaður maður sem berst fyir lýðræði og réttlæti. Hann er undarlega blanda af fúlmennsku, grimmd, hjartahlýju og kærleika og Kambili elskar föður sinn og dáir jafnframt því sem hún óttast hann. Hann kúgar ekki bara hana, heldur líka bróður hennar og móður og hann neitar að umgangast föður sinn, vegna þess að hann er ekki rétttrúaður kaþólikki. Börnunum er haldið stíft til náms og faðir hefur, síðan þau muna eftir sér, búið þeim til stundatöflu sem þau eiga að hlýða hvern dag. Ef þau verða ekki efst í bekknum grípur hann til sinna ráða og það er skelfilegt. Í upphafi sögunnar veit lesandinn ekki allt þetta, heldur fær að uppgötva það smám saman í gegnum frásögn Kimbili sem er smátt og smátt að uppgötva hvernig faðir hennar er í raun og veru. Reyndar vita það allir á heimilinu, það er þeirra sameiginlega leyndarmál sem þau fara með eins og mannsmorð. Þau tala ekki um það og þora ekki einu sinni að draga sínar ályktanir, hvert voðaverk er einstakt og á sér skýringar.
Þegar börnin kynnast föðursystur sinni og fjölskyldu hennar í háskólaborginni Nsukka læra þau að það er til öðru vísi líf. Þau fara að spyrja sig spurninga. Hvernig getur þessi góði maður verið svona hræðilega vondur? Inn í allt þetta blandast svo kúgunin í landinu sem herstjórnin stendur að og trúarbrögðin sem þau hafa tekið upp eftir nýlenduherrunum eins og svo margt gott og framfarasinnað. Þessi bók er í grunninn þroskasaga þessarar ungu stúlku sem elst upp í ótryggum heimi.
Bókin er í senn spennandi og afar átakanleg. Fyrir mig var hún líka fróðleg á tvennan hátt. Í fyrsta lagi lærði ég heilmikiðð um Nígeríu sem ég vissi lítið um áður, í öðru lagi var þetta besta lýsing sem ég hef hingað til séð á sambandi kúgara og kúgaðs. Ég vildi að ég hefði átt betra með að átta mig á matnum og blómunum sem er lýst og ef ég verð einhvern tíma rík þá ætla ég að fara í ferðalag til Nígeríu.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.5.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 36
- Frá upphafi: 190032
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.