12.1.2011 | 13:48
Kýr Stalíns
Ég hafði ekki fyrr lagt frá mér bókina Hreinsun eftir Sofi Oksanen en ég tók til við að lesa bók eftir sama höfund, Stalins Kossor, Kýr Stalíns, en ég las hana á sænsku. Þessar bækur hafði maðurinn minn keypt í gegnum netið fyrir þó nokkru síðan en ég hafði forðast í lengstu lög að lesa þær vegna þess að ég vissi að þær gætu á einhvern hátt verið óþægileg lesning og komið mér úr jafnvægi. Og það gerði Hreinsun svo sannarlega og ég hugsaði sem svo að úr því ég væri á annað borð komin inn í þennan óhuggulega heim væri eins gott að dvelja þar til yfir lyki.
Bókin kemur út í Finnlandi árið 2003 og er að ég held fyrsta bók höfundar en það ár hefur hún verið 26 ára. Í bókinni fléttast saman tvær sögur. Í forgrunni er hin finnska Anna sem á eistneska móður og finnskan föður. Hin sagan er um ættfólk Önnu í Eistlandi, örlög þess í stríði sem fer hamförum yfir land þeirra og kúgunina sem kom í kjölfarið. Sagan er sögð í litlum bútum eða stubbum enda eins og höfundurinn skilji að það er ekki á færi lesandans að meðtaka þennan óhugnað í stórum skömmtum. Saga Önnu er líka sögð í áföngum. Við fylgjumst með uppvexti lítillar stúlku sem vex upp í undarlegri veröl hins ósagða. Hún fær stöðugt að virða lögmál móður sinnar um allt sem ekki má tala um eða segja frá. Það er ekki einu sinni hægt að spyrja. Móður hennar finnst hún ekki vera sloppin undan kúguninni þegar hún er komin til Finnlands, hún trúir því að leyniþjónustan sé á eftir sér og geti unnið henni tjón. Og ég lesandinn veit ekkert um hvort þetta er satt eða hugarburður enda skiptir það ekki máli því þetta er hennar veruleiki. Faðirinn er heldur ekkert sem hún getur hallað sér að, hann dvelur langdvölum í Rússlandi og líf hans þar er eitthvað sem ekki þolir dagsljós fjölskyldulífsins í Finnlandi. Og þrátt fyrir, að því er virðist, eðlilegt borgaralegt líf í Finnlandi, litast líf þeirra stöðugt af veruleikanum í Eistlandi. Þar liggja ræturnar og þar er fólkið þeirra ýmist dautt eða lifandi.
Allt er slétt og fellt á yfirborðinu og Anna er afburða duglegur nemandi. En hún þarf snemma að takast á við öfl í lífi sínu sem hún ræður ekki við. Hún kallar þessi öfl Herra eða Guð en þau stýra því hvernig og hvenær hún borðar. Öll sín unglingsár eru undirlögð af átröskun Önnu, Herrann hefur tekið að sér að stjórna þessu og hún vill heldur ekki án hans vera. Því bara á þennan máta er lífið bærilegt. Ég hef aldrei séð eins góða umfjöllun um átröskun. Ég get þó ekki sagt að ég skilji hana en ég trúi því að svona hafi þetta verið hjá Önnu.
Á meðan ég var að lesa bókina var ég þess fullviss að í lok bókarinnar kæmi einhvers konar uppgjör sem fjallaði um sjúkdóm Önnu og sjúklegt ástand kúgunarinnar í Eistlandi. Og á vissan hátt gerir höfundur það en þá var það eiginlega óþarft, því ég var farin að skilja þetta löngu fyrr. Kúgun er hræðileg því hún leiðir til svika og bælingar og svik við okkur sjálf og bæling sem við beitum okkur sjálf er átakanleg.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 22
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kæra Bergþóra. Það er mjög gaman og fróðlegt að lesa þessa umfjöllun þína um bækur.
ingibjörg Möller (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.