Um Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar

Loksins er ég búin að lesa bókina um Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar. Í fyrstu sóttist mér seint lesturinn. Mér fannst þetta annað hvort vera eins og þegar ég er að baksa að lesa SÉРOG HEYRT, hjá hágreiðslukonunni minni Ingibjörgu, eða þegar ég sit í boði hjá reykvískri vinkonu minni og samræðan leitar stöðugt í þann farveg að ræða um hver er hver og hvernig gamlar reykvískar ættir tengjast. Yfirleitt á þetta fólk það sammerkt að hafa verið í MR en hvaða ár!!!! Í sumar fór ég með nokkrum hópi þessara vina minna austur í Breiðdal og var að reyna að kynna fyrir þeim hverjir bjuggu á bæjunum í Breiðdal og hvernig þeir tengdust. Ekki er ég viss um að það hafi setið mikið eftir af þeim fróðleik.  En aftur að bókinni um Þóru. Eftir því sem á leið bókina, sérstaklega eftir að hún giftist varð bókin læsilegri og mér fannst ég loksins fá eitthvað að vita um konuna sjálfa en ekki um umgjörðina í kringum hana. Þá varð bókin bæði áhugaverðari og læsilegri. Fyrst hélt ég höfundur ætlaði að láta sér nægja að leggja málsháttinn, SEGÐU MÉR HVERJIR VINIR ÞÍNIR ERU OG ÉG SKAL SEGJA ÞÉR HVER ÞÚ ERT, því ég fékk mikinn fróðleik um ætt hennar, uppruna, vini og kunningja svo ég tali nú ekki um vini vina og kunningja kunningja.

En fyrir þá sem ekki eru búnir að lesa Þóru var hún dóttir Péturs Péturssonar biskups og Sigríðar Bogadóttur konu hans. Pétur var einn ríkasti og lærðasti maður landsins. Börn biskupshjónanna urðu 6 og þrjú þeirra komust á fullorðinsár. Auk þess áttu þau upp eina fósturdóttur, Kristínu. Dætur biskups höfðu góðan aðgang að menntun á þeirra tíma mælikvarða þótt þær hefðu ekki aðgang að embættismannaskólunum sem voru einungis ætlaðir drengjum. Enda kemur víða fram að þær og þá sérstaklega Þóra hefur verið vel lesin. Það kemur einnig fram að þær systur og móðir þeirra kunna ýmislegt fyrir sér í hannyrðum enda urðu hannyrðir og eitt af áhugamálum Þóru síðar á lífsleiðinni en hún setur fram þá kenningu að íslensk tólvinna og handverk sé háþróað og standi fyllilega erlendu handverki á sporði. Hún telur því að ef henni og fleiri konum takist að sýna fram á þetta í útlöndum þá sé það gott innlegg í þjófrelsisbaráttu Íslendinga. Hún vann að rannsóknum á þessu efni og safnaði efni í bók. En því miður er aldrei frá því sagt hvernig þeim rannsóknum lauk og hvort að bókin kom út eða hvort þetta efni er nú tiltækt.(Kannski hefur mér sést yfir þetta eða það vona ég).

Bók Sigrúnar byggir mikið á bréfaskriftum en hún hefur úr fjölmörgu öðru að moða svo það er mikið efni og fjölbreytilegt sem hún hefur á milli handanna. En nú kemur að því sem mér fannst helsti löstur bókarinnar að frátöldu því að mér leiddist höfðingjadekrið framan af. En það er hvað ekki er í þessari bók. En þannig er það nú bara, maður vildi oft og gjarnan vera með aðra bók milli handanna. Í bókina vantar svo til allan samanburð við fólkið í landinu og eiginlega er eins og í þessu landi búi eintómir embættismenn. Hvar er vinnufólkið (það er reyndar getið um tvær vinnukonur), hver sá um hestana og ekki trúi ég því að þær mæðgur hafi stöðugt staðið í eldhúsinu og eldað ofan í hina fjölmörgu gesti. Eða mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfa, eins og segir í textanum. Sérstaklega finnst mér mikið vanta í þegar vikið er að hannyrðum. Breyttu þær kjólunum sínum sjálfar eða lögðu þær bara drög að því og voru engar saumakonur í Reykjavík á þessum tíma? Og í öllum þessum áhuga á kvenlegum dyggðum og hannyrðum af hverju er þá ekkert getið um nýjungar. Hvernig tók Þóra nýjungum? Átti hún saumavél og þá hvað sort? Eða prjónavél?

Það er ekki langt síðan ég las bókina um Jónas Hallgrímsson eftir Pál Valsson. Mikið fannst mér ég kynnast Jónasi við að lesa þá bók. Ég hafði svo mikla samúð með Jónasi hvað hann þurfti að berjast fyrir hverri krónu (eða voru það dalir eða spesíur) þegar hann var að skipuleggja rannsóknarferðir sínar en svo var allt talið eftir og látið jafn vel að því liggja að hann hafi farið illa með fé. En mér sýnist að Þorvaldur Thoroddsen, ríkur maðurinn, hafi fengið margfalt meira fé til sinna rannsókna, það var að vísu einnig talið eftir af sumum. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

 Þessi bók skilur mann sem sagt eftir með fleiri spurningar en hún svarar og þannig eiga bækur að vera. Hún er á fallegu máli en um sagnfræðina kann ég ekki að dæma en mér þykir líklegt að þar standi ekkert upp á höfundinn, nógu eru þeir margir lærðu yfirlesararnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband