22.12.2010 | 14:38
Ljósa
Var að ljúka við bók Kristínar Steinsdóttur um Ljósu. Í þessari frásögn styðst hún við ævi og örlög formóður sinnar, ég held ömmu, sem var fædd á Suðausturlandi á síðari hluta 19. aldar. Fjölskyldan býr við þokkaleg efni á þeirra tíma mælikvarði og þarf ekki að kvíða því að líða skort en það eru aðrar áhyggjur sem sækja að. Húsbóndinn á heimilinu, hreppstjóri og homópati er er ekki að reiða sig á. Hann heldur fram hjá konunni sinni og á börn út um allt. Þessi svik hans við fjölskylduna hvíla yfir heimilinu eins og skuggi. Hann er aðfluttur í sveitina og það fylgir honum sú saga að hann hafi svikið álfkonu og hún hafi lagt þau örlög á hann í hefndarskyni að hann gæti ekki verið trúr einni konu. En þrátt fyrir þessa breyskleika gerir hann kröfu til þess að vera virtur sem eiginmaður og faðir. Það er erfitt að hata og fyrirlíta góðan, fallegan og skemmtilegan mann. Það er líka erfitt að elska slíkan mann. Og minningin um breyskleika hans og mannkosti fylgja Ljósu inn í samband hennar við manninn hennar, ljúflingin og hagleiksmanninn Vigfús.
Ljósu sem er allt vel gefið er lýst sem draumlyndri stúlku. Hún á í samskiptum við álfkonu og seinna þegar hún stríðir við andleg veikindi tengjast þessi veikindi á einhvern dularfullan hátt álfheimum. Kristín lýsir þessari konu af mikilli nærfærni og mér finnst ég skilja hana vel og hún er á einhvern hátt náin mér enda er hún nokkurn veginn á aldur við ömmur mínar. Það var gaman að lesa þessa bók hún er afar sannfærandi og mér finnst að svona hafi þetta verið. Nema álfasagan, fyrir mér gengur hún ekki upp því hún stemmir ekki við hvernig ég upplifði frásagnir af álfum og innblöndun þeirra í mannheima. Álfasagnir eru að því ég held á einhvern hátt óhöndlanlegar, um leið og farið er að lýsa þeim innan konkret veruleika gufa álfarnir upp og eftir verður einhver vitleysa. Auðvitað verður að hafa í huga að þarna er nútímakonan Kristín að tala um veruleika sem er henni fjarri og hún beitir eigin innsæi til að lýsa því sem erfitt er að skilja og færa í orð. Ekki veit ég hvort Kristín trúir sjálf á álfa en henni er alveg trúandi til þess, ég þekki hana nefnilega. Hún er Austfirðingur eins og ég.
Þegar ég var kornung höfðu foreldrar mínir tekið að sér að hafa geðveika konu á heimilinu. Mér finnst mér ég muna hana vel en kannski blandast minningarnar við það sem mér hefur verið sagt eða ég hef heyrt. Ég man t.d. að foreldrar mínir þurftu á kvöldin að flytja rúmið sitt yfir stigahlerann til að hún kæmist ekki í burt. Einu sinni hafði hún reynt að ganga í sjóinn og pabbi hafði rétt náð að bjarga henni og oft reyndi hún að hlaupa eitthvað burt út í óvissuna. Hún var í dökkgrænni peysu og stundum gaf hún frá sér hljóð eins og henni væri mikið illt. Einu sinni reyndi hún að kasta okkur systkinum niður um stigagatið. Það var eldavél fyrir neðan með sjóðandi vatni í potti. Mamma sagði okkur að henni hefði fundist bærinn standa björtu báli og hún hafi verið að reyna að bjarga okkur því henni þótti svo vænt um okkur. Einu sinni þegar við vorum enn ekki búin að klæða okkur og vorum í koddaslag því foreldrar okkar voru að vinna, fundum við kúk undir koddanum hennar. Mamma varð alvarleg í andlitinu og sagði okkur að við ættum ekki að tala um þetta við neinn. Og nú hef ég svikið þetta. Að lokum var ákveðið að S. gæti ekki lengur verið hjá okkur. Þá var enn ekki kominn vegur svo pabbi fylgdi henni áleiðis þangað sem vegurinn hófst en þar beið hennar bíll. En S. vildi ekki heldur fara svo enn strauk hún og kom nú til baka. Þá var bundið utan um hana til það væri eitthvað til að halda í, mig minnir að hún hafi verið bundin í bandhespur. Síðan fór pabbi með hana og karlmennirnir af hinum bænum í burt. Við grétum þegar S. fór en vissum þó lítið hvað var að gerast. Seinna var haldið uppboð á dótinu hennar. Löngu seinna var mér sagt að S. hefði lent í ástarsorg. Mig hefur alltaf langað til að vita hver örlög hennar urðu en var sagt að hún hafi verið send norður til Akureyrar á sjúkrahús og ég vona og trúi að henni hafi batnað. Þetta var innskot.
Það var gaman að lesa þessa bók og ég á eftir að lesa hana aftur. Og þegar ég sit föst í að lesa um biskupdótturina Þóru, sakna ég Ljósu og fólksins hennar að austan. Það væri gaman að frétta meira af þessu fólki, t.d. systkinum hennar.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 22
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.