Af hverju er ég að þessu

41F2AQ6SN9L__SL500_AA300_Í fyrra vetur tók ég mig til við að reyna rifja upp þýskuna sem ég lærði einhvern tíma. Ég veit ekki hvers vegna ég gerði þetta en það er eitthvað við þýsku sem heillar mig. Það kom fljótlega í ljós að líklega hef ég ekki lært svo mikið í Þýsku hér í gamla daga eða að það hefur skelft yfir hana í byljum lífsins. Kannski liggur hún einhvers staðar grafin undir snjófönn í djúpu gili minninganna. En hvað sem því líður tók ég til við þýskunámið, þar sem ég var stödd á bersvæði og hóf lestur bóka sem voru byggðar upp á orðaforða ungs fólks í erli hvunndags dagsins í dag. Kannski alveg það sem ég var að leita að. Hvað sem því líður hef ég nú náð svo mikilli fótfestu í tungumálinu að ég les mér bækur á þýsku til gagns og gamans (með hjálp orðabóka). Fyrsta bókin sem ég las var Litli prinsinn, sem maður ætti auðvitað að lesa á frönsku eða í snilldarþýðingu míns gamla skólameistara Þórarins Björnssonar. En bókin var dásamleg á þýsku.

Bókin sem ég er nú að lesa og hef næstum lokið við er Schönhauser Allee eftir Wladimir Kaminer. Þetta er skemmtileg bók og það er notalegt að lesa hana. Hún byggist upp af afar stuttum sögum um fólkið í götunni Schönhauser Allee. Fólkið í Schönenhauser Allee er afar fjölbreytilegt og maður fær það á tilfinninguna að það fari ekki troðnar slóðir í lífinu. Þetta fólk ratar líka oft í hinar undarlegustu aðstæður eða kemur sér í þær. Öllu þessu segir höfundur frá af undarlegri nákvæmni og hlutleysi svo maður fær það á tilfinninguna að það sem gerist sé fullkomlega eðlilegt, sem það e.t.v. er. Og þó frásagan sé oft á tíðum bráðfyndin er fyndnin þó aldrei á kostnað neins og maður veit að höfundi þykir vænt um þessa nágranna sína. Enda held ég að á bak við þessa frásögn liggi sannfæring höfundar um að við séum kannski öll sérstök og að hugmyndin um venjulegt fólk sé í raun fjarstæða.

Wladimir Kaminer er þýskur Rússi eða rússneskur Þjóðverji. Hann er sem sagt fæddur uppalinn og menntaður í Rússlandi en býr og hefur búið um langt skeið í Þýskalandi. Hann skrifar á þýsku. Ég sá þennan mann þegar hann kom hingað á bókmenntahátíð (ég man ekki hvaða ár) en þá las hann upp úr bók og var með uppistand. Þetta var áður en ég fékk þýskuveikina svo ég veitti honum ekki sérstaka athygli. Því miður. Þegar ég er búin með þessa bók ætla ég að reyna að halda aftur af áráttukenndi löngun minni til að lesa á þýsku og taka til við jólabækurnar. Bók Kristínar Steinsdóttur, Ljósa liggur þegar á náttborðinu mínu. Ég held reyndar að þessi bók sé komin út á þýsku svo innst inni langar mig til að panta hana frá Þýskalandi.

 

Thumbs


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband