Hvar ertu Rigoletto?

Við hjónin fórum í Óperuna í gær og sáum Rigoletto. Við komum snemma og hlustuðum fyrst á kynningu á verkinu en hana flutti Gissur Páll Gissurarson. Ég er farin að leitast við að undirbúa mig fyrir sýningar því þannig nýt ég þeirra betur.

Nú var ég t.d. við því búin að sögusviðið hefði að einhverju leyti verið flutt nær okkur í tíma og rúmi, þótt hvort tveggja sé að vísu allóljóst. Ég er nefnilega þeirrar gerðar að ég vil fá öll verk sem næst því sem höfundur fæddi þau í þennan heim. Þannig uppsett tel ég að ég eigi mesta möguleika á því að skynja anda/boðskap/dýpt verksins. Ég tel sem sagt að ég sé best fær um það sjálf að túlka leikverk út frá minni samtíð og ég vil ekki að aðrir geri það fyrir mig. Þá koma þeir á milli mín og höfundar með sína túlkun og ég þarf að fara í gegnum hana til höfundar til að fá hans sjónarmið. Þetta er kannski flókið og bara vitleysa en svona sé ég þetta. Sögusvið Rigolettos sem ég sá í gær var nær deginum í dag en sögusviðið 1851, þ.e.a.s. búningar og senur gátu verið tekin út úr einhverri óstaðsettri vesturlenski atburðarás, e.t.v ekki svo langt í frá okkur. En af hverju ekki ganga þá alla leið. Rigoletto væri þá gerður að atburðastjórnanda útrásarvíkings eða álíka, Gilda væri enn í framhaldsskóla í umsjón kennara síns og Næturklúbburinn væri í Kópavogi og karlmennirnir í aukahlutverkunum væru á mótorhjólum með farsímana á lofti meðan Hertoginn af Mantúa væri á stórum jeppa. En þetta gengur bara aldrei upp. Af hverju ætti Gilda að dulbúa sig í karlmannsföt? Og hvernig er hægt að leyna hálffullorða dóttur sína hvað faðir og þá væntanlega hún líka heita? Kannski verður hægt að hafa þetta svona þegar Óperan verður komin inn í Hörpu.

Hvað sem þessum vangaveltum mínum líður, skemmti ég mér vel í gær. Ég sá þetta verk fyrir u.þ. 20 árum en þá var Diddú Gilda, einhver útlendingur Rigolettó og okkar óviðjafnanlegi Garðar Cortes hinn illi og ómótstæðilegi hertogi. Í minningunni var meira óveður í þeirri uppsetningu.

Að lokum. Ég veit að skoðun mín á því hvernig eigi að setja upp gömul verk á ekki upp á pallborðið í nútímanum þar sem það þarf að matreiða allt ofan í alla og fólk á helst að gleypa við því og renna því niður án viðbragða. En ég vil engu að síður koma því á framfæri að ég og margir aðrir, líklega flestir eru færir um að umskapa í sínum huga eftir því sem þörf er á.

Þóra Einarsdóttir söng og lék eins og engill en það er kannski ljótt að taka einn svona út úr?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 189206

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband