27.10.2010 | 12:14
Ég kveð ykkur Pinneberg og Emma (Lämmchen)
Það fylgir því oft viss söknuður að klára bók og leggja hana frá sér. Nú hef ég um nokkurt skeið verið að berjast í gegnum bókina, Kleiner mann - was nun? sem heitir á íslensku, Hvað nú ungi maður? Ég tilgreini þær báðar því ég hef notað íslensku þýðinguna mér til stuðnings við lesturinn því, því þýskan er mér enn ekki nægilega tiltæk í minni innri orðabók. Það var þó ekki að öllu leyti auðvelt að fara þessa leið, að lesa þær hlið við hlið, íslenska þýðingin er gerð úr dönsku og þýðandinn greinir frá því í eftirmála að þegar hann loks fékk þýsku bókina til aflestrar þá komst hann að því að þar er oft vikið frá frumtextanum. Bókin, Kleiner Mann - was nun? kom út í Þýskalandi árið 1932. Hún er eftir Hans Fallada (Rudolf Wilhelm Friedrich Ditzen)en saga hans er ótrúlegri en flestar skáldsögur. Bókin kom út hér árið 1934 í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar og ef ég hef skilið hlutina rétt kom hún fyrst út sem framhaldssaga í Alþýðublaðinu.
Allra fyrsti kafli bókarinnar heitir, Hinir áhyggjulausu. Frásögnin hefst á því að segja frá ungu pari, Pinneberg og Lämmchn sem bíða fyrir utan móttöku kvensjúkdómalæknis. Þau hafa kynnst fyrir tilviljun í sumarfríi en finnst að þau séu ekki undir það búin að stofna fjölskyldu. Læknirinn úrskurðar aftur á móti að Lämmchel sé of langt gengin með til að það sé hægt að gera nokkuð til að hindra það að barn fæðist. Lämmchel fer strax að fagna litla barninu og er sannfærð um að það verði drengur, Pinneberg er áhyggjufullur. Þetta eru erfiðir tímar. Lesandinn sér þó af samhenginu að þetta verður allt auðveldara af því ungafólkið elskast innilega. Þau giftast og stofna heimili. Pinneberg er vinnur við afgreiðslustörf og það hefur Lämmchen gert áður, en nú verður hún heimavinnandi húsmóðir. Það er ekki auðvelt að ná saman endum og unga parið hrekst á milli íbúða sem tæpast standa undir því að kallast svo. Þegar Pinneberg missir vinnuna tekur hann að einhverju leyti við heimilishaldinu og Dengsa en Lämmchel snapar sér vinnu við að staga, stoppa og sauma fyrir fólk. Pinneberg gengur nú um götur Berlínarborgar með Dengsa í kerru og það er að mörgu að hyggja. Hann gengur á milli stofnana til að verða sér út um þann stuðning sem fjölskyldunni ber en þau eru endalaus vottorðin og undirskriftirnar sem hann þarf að útvega. Ég var mest hissa á því að þessi stuðningur skyldi þó vera fyrir hendi. Hvernig var það hér í kreppunni á þessum tíma? Í sögulok er Pinneberg niðurbrotinn maður en það eru ekki göngurnar á milli stofnanna sem hafa farið verst með hann, heldur niðurlæging atvinnuleysisins og sú fyrirlitning sem hann finnur fyrir frá fólki. Honum finnst hann hafa glatað sjálfum sér. Sagan af byggir að hluta til á æfi Fallada sjálfs og er ótúlega grípandi. Þegar ég skildi loks við unga parið og litla drenginn þeirra var ég uggandi. Það var hvergi neina vonarglætu að sjá nema ef vera skyldi í ástinni á milli þeirra. Auk þess veit ég að það átti ýmislegt verra að mæta fólkinu í Þýskalandi en kreppan. Hvernig vegnaði þessari litlu fjölskyldu í stríðinu? Fallada hefur skrifað aðra bók sem fjallar um alþýðufólk í stríðinu. Hún heitir, Jeder stirbt für sich allein, og hún er ekki björt lesning.
http://de.wikipedia.org/wiki/Hans_Fallada
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.5.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 190049
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 26
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.