3.8.2010 | 18:26
Fátæklegir draumar
Fyrir alllöngu fór ég með manni mínu og fleirum að sjá myndina INCEPTION. Mér fannst myndin léleg en mér er ekki sama hversu hún sækir á hug minn. Ef ég hefði farið ein í bíó hefði ég laumast út í hléinu. En reyndar var myndin örlítið skárri eftir hlé en það bætti ekki nógu við svo mér fyndist myndin tímans, ferðarinnar og peninganna virði. Maðurinn minn sem er tröllfróður um kvikmyndir hafði sagt mér undan og ofan af um hvað myndin var. Hún væri um drauma og hvernig hugsanlega, mögulega væri hægt að stjórna lífi annars manns með því að brjótast inn í draum hans. Ekki óspennandi. En..... Myndin var afar hávaðasöm enda draumarnir allir annaðhvort um hús að hrynja, bíla að rekast á eða skotbardaga. Það var mikið brotið af gleri og ég hugsaði með mér: Þetta er bara eins og í Sorpu. Og leiddist. Ekki trúi ég því að nokkurn mann dreymi einungis slíka drauma. Mínir draumar eru a.m.k. mun fjölbreyttari og oft meira spennandi. Í nótt dreymdi mig t.d. að ég var flutt í nýtt/gamalt hús og ég var búin að koma þar fyrir garði með litríkum blómum. Þá kom bleikur hestur nágrannans og át og skemmdi eitt fegursta blómið sem var stór ferskjulit jurt, einna líkust bóndarós en þó ekki. Í þessum sama draumi hitti ég mann úr Húnavatnssýslu sem sagði mér frá því að hann ætlaði að halda upp á fimmtugs afmælið sitt með því að ganga á mörg fjöll. Seinna (í draumnum) komst ég reyndar að því að hann svindlaði á göngunni og fór þetta mest á jeppa. Stundum dreymir mig drauma sem ég myndi aldrei segja neinum frá. Oft dreymir mig að ég finni ekki bíllyklana mína eða ég er að ferðast með Guðmundi Hallvarðsyni á Hornströndum en finn hvorki hann eða hópinn.
Af hverju valdi höfundur myndarinnar INCEPTION að gera mynd um svona fátæklega drauma? Trúir hann því að að myndin verði skemmtileg og áhugaverð með því að hafa nógan hávaða og nógan hasar? Og það var ekki bara hasarinn sem var leiðinlegur heldur voru samtöl fólksins álíka vandræðaleg eins og krakkar í 7. bekk færu með rullurnar. Og loks það sem kemur mér mest á óvart er hversu mikið lof þessi mynd fær. Eru menn alveg hættir að gera kröfur?
Og verst af öllu er þó að nú veit ég ekki hverjum ég get treyst varðandi kvikmyndir úr því mínum ágæta manni skjöplaðist svona hrapalega.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.9.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 190799
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.