Þjóðin kann ekki að bölva á íslensku

Ekki alls fyrir löngu lét áhrifamaður frá sér fara blótsyrði sem ekki eru honum sæmandi. En þar notaði hann blótsyrði til áherslu máli sínu sem tengjast líkama kvenna. Það er búið að klæmast talsvert á þessu máli en enginn hefur þó enn fjallað um hvers vegna þetta er eiginlega alveg ófyrirgefanlegt. En það er að mínu mati vegna þess að maðurinn kann ekki að bölva á íslensku.

Það er merkilegt að í allri þessari umræðu um íslenskt mál er hefur ekkert verið um það rætt að þjóðin er að tapa því niður að bölva svo eitthvað bragð sé að. Í mínu ungdæmi var alltaf einhver tiltækur í nánasta umgengi ungviðisins sem tók að sér þennan mikilvæga þátt uppeldisins. Heima hjá mér sá Herbjörn föðurbróðir minn um það. Seinna þegar ég kynntist hinni frábæru persónu Kolbeini kaptein, hugsaði ég þarna er Herbjörn frændi lifandi kominn. Á Djúpavogi þar sem frændur mínir, synir Kristborgar, ólust upp, annaðist Gísli á Símstöðinni kennsluna í bölvinu. Og hann kenndi þeim ekki bara að bölva heldur var eitthvert barnanna smámælt og Gísli kenndi þeim að það þarf að kveða sterk að: Þú átta að segja Andskoti en ekki ansgoti sagði Gísli.

En að öllu gríni slepptu. Það er ekki sama hvernig er bölvað. Íslendingar hafa verið kærulausir um bölv. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað einkennir íslenskt bölv til að vita hvernig á að bregðast við utanaðkomandi áhrifum. Upp á síðkastið hafa og áhrif frá engilsaxnesku hafa vaðið uppi en það fellur illa að íslenskri bölvhefð því engilsaxar o.f.l. krydda mál sitt með klám og kynorðum meðan við Íslendingar áköllum skrattann eða vísum til heimkynna hans. Og með vel völdum tilvitnunum til þeirra í neðra má bæta ýmsu við sem hæfir. Þetta er list en það er hægt að kenna hana en sérstaklega þarf þjóðin að hafa metnað. Væri ekki hægt að búa til námskeið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg samantekt um bölv en hún á samt ekki alveg við því hann Elli notaði orðið tussufínt til að lýsa ánægju sinni, ekki sem blótsyrði.

Annars býðst Freyr til að taka að sér hlutverk Bjössa í uppeldi ungmenna.

Auður Lilja (IP-tala skráð) 31.7.2010 kl. 18:53

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Varla myndi ég kalla þennan strákling áhrifamann -- nema hvað þetta orð sem hann notaði virðist hafa haft áhrif.

En flettu því upp í orðabók. Fyrsta merking orðsins tussa er skjóða, skinnpoki.

Ef menn vilja endilega tengja það við merkingu 2: gróft kvensköp, eða 3: gróft skammaryrði um konu, segir það ekkert minna um túlkandann en segjandann.

Hitt er annað mál að það er orðið býsna dauft bölvið á íslensku, satt er það. Ég styð það að sá í neðra sé ákallaður dálítið hressilega frekar en hrópa á skít eða annað álíka.

Sigurður Hreiðar, 31.7.2010 kl. 18:53

3 identicon

Kannski er ég ekki nógu fræðileg fyrir þig Sigurður en þakka þér fyrir að lesa pistilinn minn. Stráklingur eða áhrifamaður, það er spurning hver er að tala. Sá sem talar er eldri en Eysteinn þegar hann gerðist ráðherra og hefði einhver kallað hann strákling þá? Áhrifamann kalla ég hann af því ég lít svo á að spunameistarar nútímans séu áhrifamenn þótt ég sé ekki alls kostar sátt við vinnubrögð þeirra. Þau eru ekki í anda opins lýðræðis. Varðandi orðið tussa þarf ég ekki að fletta upp í orðabók því ég veit hvað það þýðir í munni nútímamanna. Ég veit líka að uppruni þess vísar til skjóðu eða skjatta sem konur bjuggu sér til, til að geyma í ýmislegt lauslegt sem þær vildu síst af öllu glata. Langamma mín Jóhanna Jónsdóttir (úr Hólmasókn), átti slíka tuðru og henni varð það á að glata henni  þegar hún var að fara yfir læk í vexti. Þetta var lítill lækur rétt fyrir innan túnið á Hlíðarenda og það hefur líklega komið henni að óvart hversu það var mikið vatn í honum. En hún tapaði sem sagt  skjóðunni og þegar heim kom var þegar gerður út leitarflokkur en leitin skilaði ekki árangri. Langamma fór þá ein, enn og aftur að leita að skjóðunni. Þessi lækur gekk síðar undir nafninu Skjóðulækur en hann er nú enn minni en hann var á tímum langömmu gott ef hann er ekki alveg horfinn. Líklega hefur langamma mín geymt tóbakið sitt í skjóðunni en það fylgi ekki sögunni þegar amma sagði mér hana en líklega hefur amma ekki viljað draga athygli okkar barnanna að því að langamma notaði tóbak. Að lokum: Á mínu heimili vorum við ekki alin upp við að bölva og ég er sjálf afar vikvæm fyrir því þegar fólk talar ljótt. Ég reyni að umbera það og kýs að líta á bölv og stóryrði sem einhvers konar orðfátækt.

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 12:33

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka þér fyrir svarið, Bergþóra. Ég þurfti sosum ekkert að fletta upp í orðabók heldur en gerði það þó, einkum vegna athugasemdar sem ég fékk við mitt blogg um sama málefni. En mergurinn málsins er sá að mér þykir þyrlað upp moldviðri um þetta orð eins og stráklingurinn notaði það, langt umfram það sem efni voru til. Í sjálfu sér finnst mér þar gengið lengra en tilefni var til. Orðið þykir mér ljótt og mun aldrei nota það nema ég þurfi viljandi að hneyksla einhvern -- einhverja. Og þá í mjög takmörkuðum hópi og því aðeins að ég ætli að sá hópur skilji skírskotunina til þess moldviðris sem nú var þyrlað upp.

Gaman að sögunni um Skjóðulæk. Hugsaði þér, ef langamma þín hefði nú notað þetta ljóta orð um skjóðu sína. En -- nákvæmlega hvar er Skjóðulækurinn?

Sigurður Hreiðar, 2.8.2010 kl. 17:55

5 identicon

Sæll aftur Sigurður

Skjóðulækurinn var, því nú sér hans ekki lengur stað, rétt fyrir innan bæinn Hlíðarenda í Norðurdal Breiðdals. (En Breiðdalurinn skiptist í Norðurdal, Suðurdal og Útsveit). Nú er búið að gera myndarlegt tún þar sem hann var áður. Landið er að þorna og margir lækir sem ég minnist frá fyrri tíð eru nú horfnir. Takk fyrir tilskrifið

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.8.): 6
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 190790

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband