Er sparnaður dyggð?

Þegar ég var að alast upp vafðist svarið við þessari spurningu ekki fyrir neinum. Sparnaður var dyggð og sóun var af hinu illa eða barasta hrein heimska. Ég er mótuð af uppeldi mínu og hef alveg sérstaka ánægju af því að spara og mér finnst erfitt að eyða. Mér líður t.d. aldrei betur en þegar búin að staga í sokk eða laga saumsprettu og hef búið mér til þá kenningu að þannig geti ég lengt lífdaga fatnaðarins 30%. Mér finnst aftur á móti bæði leiðinlegt og erfitt að kaupa og kemst oft að þeirri niðurstöðu að mig vanti eiginlega ekki neitt. Skynsemi mín segir mér þetta kunni að vera öfgar og ég kunni að þurfa að endurskoða afstöðu mína til þessarar fornu dyggðar og finna ný sannindi sem passa betur inn í nútímann.

Vangaveltur um sparnað og sóun kveikja oft á gamalli minningu frá því ég var barn. Það er sumar og sól og ég er líklega 11-12 ára. Vinur pabba og fyrrverandi granni kemur í heimsókn að sunnan. Hann er búinn að kaupa sér nýjan bíl enda var gesturinn leigubílstjóri. Gott ef bílinn var ekki einnig búinn talstöð sem þá var nýlunda. Bíllinn var svo glæsilegur að hann var eiginlega tímaskekkja á austfirsku vegunum og það þurfti sérstaka aðgætni og lagni til að koma honum heilum á höldnu á æskuslóðir bílstjórans. Pabbi og gesturinn stóðu út undir vegg, fiskiflugurnar suðuðu og við börnin höfðum komið okkur fyrir í hæfilegri fjarlægt til að geta fylgst með öllu. Eitthvað hefur pabbi eflaust sagt um að eyðslusemi gæti verið varasöm því gesturinn hóf að útskýra fyrir honum að slíkar hugmyndir væru úreltar. Það sem gilti í nútímanum væri að eyða og fjárfesta. Eyðsla mín og fjárfesting stuðlar að gróða annarra og þannig eykur hún veltuna í samfélaginu og allir verða ríkari. Sólin skein, fiskiflugurnar héldu áfram að suða og ég, barnið reyndi að meðtaka þessa nýju kenningu sem kollvarpaði öllu sem mér hafði verið kennt. Mestar áhyggjur hafði ég þó af því að föður mínum tækist ekki að finna gild mótrök. Loks fóru allir inn í kaffi og umræðurnar tóku að snúast um annað.

Síðar fékk ég tækifæri til að ræða um þetta við pabba. Hann taldi að það væri full ástæða til að vera vel á varðbergi gagnvart slíkum hugmyndum þótt það væri eflaust rétt sem maðurinn sagði að umsetningin yrði meiri. Hann sagði að það sem hann teldi að gilti að væri að fjárfesta í því sem væri gott og gagnlegt og til heilla fyrir land og þjóð.

Gesturinn okkar ók í burt. Reyndar var altalað í sveitinni að hann gæti ekki rekið bílinn án þess að reka um leið hliðarstarfsemi sem ekki var fyllilega lögleg en vinsæl þó. Þetta þótti pabba mínum ekki gott en þetta var samt vinur okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sparnaður er andstyggð.

Erling Olafsson (IP-tala skráð) 7.6.2010 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 190773

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband