12.10.2023 | 16:01
Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
Þetta er önnur bókin sem ég hef lesið eftir Andrej Kurkov, sú fyrri var Dauðinn og mörgæsin. Báðar bækurnar eru þýddar af Áslaugu Agnarsdóttur. Þetta eru dásamlegar bækur, einkennast af öllu því sem einkennir góða bók. Þær eru skemmtilegar, spennandi og innihaldsríkar og fjalla um mann og náttúru.
En hér ætla ég að tala um síðari bókina, Gráu býflugurnar.
Bókin gerist í Úkraníu og segir frá býflugnabóndanum Sergej, sem var áður öryggisvörður í kolanámum. Hann býr í úkaranísku sveitaþorpi sem allir hafa yfirgefið, nema hann og jafnaldri hans sem var þó engan veginn vinur eða kunningi þótt þeir væru bara tveir strákar í árgangi.Sergej var einu sinni giftur og á dóttur en konan fór frá honum. Nú snýst líf hans um býflugurnar og hunangið sem hann selur eða notar í vöruskiptum. Þær suða stöðugt og í fjarska suðar stríðið.
Það er dálítið einmanalegt að búa í yfirgefnu þorpi, svo hann freistast til að leggja upp í ferðalag, langar til að heilsa upp á gamlan kunningja sem hann hafði hitt á ráðstefnu býflugnabænda fyrir löngu.
Bókin fjallar um þetta
ferðalag.
Það eru ekki margir á ferðinni. Hann hefur tekið býflugurnar með sér, því hann er ábyrgur maður og hugsar að þetta sé í rauninni það eina sem hann beri ábyrgð á, þær eigi allt undir honum komið. Hann hefur líka tekið með sér nauðsynlega pappíra. Sem betur fer.Því að þótt stjórnun landsins sé í molum vantar ekki skrifræðið.
Líf og stríð
Sagan segir frá fólkinu sem hann hittir á þessu ferðalagi. Það er friðsamt og hjálpsamt og tekur honum vel. Næstum undantekningarlaust. Hann eignast vinkonu sem vill helst fá hann fyrir mann en hann veit að þeim tíma í ævi hans er lokið.
Hann heldur ferðaalagi sínu áfram til kollega síns, býflugnabóndans á Krímskaga.
Tatarar
Þar hittir hann einungis fyrir konu hans og uppkomin börn. Heimilisfaðirinn er þar ekki lengur, hann er á lista yfir menn sem er saknað.Sergej býðst til að skoða málið betur og kemst að því að stríð er ekki bara stríð, heldur líka skriffinnska. Og þar sitja ekki allir við sama borð. En þar sem hann talar rússnesku og er ekki tatari getur hann ýtt við kerfinu. Lík vinar hans er sent heim og hann fær að fylgja honum til grafar.
Hér ætla ég að láta staðarnumið í frásögninni um gráu býflugurnar.
Úkranía, þetta stóra og frjósama land, hefur þurft að þola margt í gegnum árin og aldirnar. Mig hefur lengi langað til að ferðast þangað.
En nú þegar ég hugsa þangað, koma upp í hugann húsarústir og fólk á flótta. Já og karlar í skotgröfum.
Ég á auðvelt með að sjá fyrir mér yfirgefin þorp og húsarústir. En til baka til Sergej. Eftir ferðalagið með býkúpurnar, fór hann heim í yfirgefna þorpið sitt með býkúpurnar sínar, allar nema eina, þá sem fulltrúar skriffinnskunnar höfðu handleikið.
Og enn suðar þetta stríð. Þetta vitum við þótt í augnablikinu heyrist meira frá öðru stríði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 12. október 2023
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 190363
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 26
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar