27.1.2022 | 20:41
Arnaldur Indriðason deyr: Bragi Páll Sigurðarsom
Ég hef aldrei lesið neitt eftir Braga Pál Sigurðarson og vissi því ekki hvers var að vænta þegar ég hóf að lesa/hlusta á bók hans um Dauða Arnaldar Indriðasonar. Ég var nokkra stund að átta mig á efni hennar og las hana því tvisvar.
Efni bókarinnar
Það má segja að tónninn sé sleginn í fyrsta kaflanum er þar segir af sjónvarpsþætti Gísla Marteins (sem hann kallar Gillamalla). Þarna ræðir GM við frægt og mikilvægt fólk og það er slegið á létta strengi.
Bókin fjallar um Ugga Óðinsson, sem vill vera rithöfundur og hefur gefið út nokkrar bækur á eigin kostnað af því ekkert forlag vill gefa þær út. Hann er kynntur til sögunnar þegar hann og Heba kona hans takast á um það, hvort litli drengurinn þeirra, eigi að fara á spítala vegna mikils sótthita. Hann hindrar hana í að fara með drenginn á sjúkrahús en hún gefst ekki upp og laumast burt með drenginn þegar pabbinn er sofnaður. Uggi leitar þau svo uppi á spítalanum og reynir að fjarlægja barnið á ofbeldisfullan hátt. Síðar kemur í ljós að drengurinn hefur fengið varanlegan heilaskaða. Konan yfirgefur hann og tekur drenginn með sér.
Orsök alls þessa er að Uggi er ekki bara rithöfundur,hann er líka kenningasmiður.
Helstu kenningar:
Náttúran er svo voldug að líkaminn læknar sig sjálfur ef hann er látinn í friði.
Yfirvöld níðast á fólki.
Fjölmiðlar og valdastéttin í landinu hampa slæmum rithöfundum á kostnað góðra. Og þeir, slæmu höfundarnir, vaxa eins og arfi og kæfa þannig þroska þjóðarinnar .
Þetta var það helsta.
Eina ráðið til að bjarga þjóðinni er að uppræta illgresið og það ætlar Uggi sjálfur að gera. Hann er búinn að semja áætlun. Og þar er Arnaldur efstur á lista. En þar lætur hann ekki staðar numið.
Þetta er spennandi bók þótt allir lesendur viti hver sé morðinginn,en það er ráðgáta hvers vegna lögreglan er svo vitlaus, að hún fattar ekki hvað er að gerast, þrátt fyrir að morðinginn skilji viljandi eftir fjölda ábendinga. Auk þess hefur hann játað sekt sína fyrir blaðakonunni Friðborgu, en hún er skólasystir hans. Hún er reyndar eina viti borna manneskja bókarinnar.
Þetta var nokkurn veginn söguþráðurinn.
Frásagnarmátinn
Flestar sögupersónurnar, ef ekki allar, eiga sér fyrirmyndir sem auðvelt er að þekkja. Þær eru ýmist undir eigin nafni eða nöfnum er lítillega breytt, þó ekki meira en svo að þær eru auðþekktar út frá hlutverki og lýsingu.
Það sem einkennir þessa bók síðast en ekki síst er sóðalegt orðfæri. Ég hef hvergi, hvorki í bók eða raunveruleika séð eins mikið samansafn af klámyrðum og sóðalegum lýsingum. Ég býst við að höfundurinn taki þetta sem hrós, ef hann af tilviljun les þetta. En þetta er ekki hrós, ég er bara hissa. Helst dettur mér í hug að þetta eigi að hneyksla , ganga fram af fólki. En það getur varla verið, því sá tími er löngu liðinn að það sé hægt að ganga fram af fólki með klámyrðum og sóðalegum lýsingum á líkamsvessum. Þetta veit ég sem er gömul kona sem man tímana tvenna. Ég veit að ég er líklega ekki í lesendamarkhópi þessa höfundar en hver er markhópurinn? Trúlega á þetta bara að vera fyndið.
Ég vil benda væntanlegum lesendum á, að það er nauðsynlegt að lesa bókina til enda. Auðvitað er alltaf mikilvægt að lesa bækur til enda. En í þessari bók sér maður bókina í nýju ljósi við bókarlok .
Að endingu
Ætla að enda þessi skrif með vísu Bólu Hjálmars:
Víða til þess vott ég fann
Þótt venjist oftar hinu,
að Guð á margan gimstein þann,
sem glóir í mannssorpinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 27. janúar 2022
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 0
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 80
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar