14.12.2021 | 17:31
Vilborg Davíðsdóttir: Bækurnar um Auði djúpúðgu
Þegar líða tekur að jólum, við upphaf jólabókaflóðsins, fyllist ég af einhvers konar samviskubiti yfir bókunum sem ég á enn ólesnar frá fyrri jólabókaflóðum. Kvalin af sektarkennd rýk ég til að lesa gamlar bækur.
Nú hef ég um nokkurt skeið verið að lesa bækur Vilborgar Davíðsdóttur, um forsögu þess að Auður djúpúðga flýði til Íslands.
Bækurnar eru þrjár talsins. Sú fyrsta kom út 2009 og heitir einfaldlega Auður. Hún hefst á því að segja frá Auði í foreldrahúsum á Suðureyjum. Mér fannst sem verið væri að lýsa óvenju hugmyndaríkum stelpukrakka en samkvæmt þáverandi siðvenjum, var hún komin á giftingaraldur. Orðin mannbær (hræðilegt orð). Það var drifið í að finna handa henni mann. Hann hét Ólafur hvíti. Hún flytur með honum til Dyflinnar og elur honum barn, soninn Þorstein. Þegar til kemur hafnar hann barninu,telur það annars manns barn. Eftir það flytur Auður í Katanes, þar sem hún rekur myndarbú.
Næsta bók kom út 2012. Hún ber nafnið Vígroði.
Hún hefst á frásögu af heimsókn Auðar til ættingja sinna en hún hafði haldið sig fjarri þeim um árabil af ótta við að faðir hennar, Ketill flatnefur, vilji gifta hana á ný (giftingar þessa tíma voru brask með auð og völd). Af því verður þó ekki. Vegir þeirra Ólafs hvíta liggja saman á ný og hann sér að sér varðandi faðerni barns þeirra. Þau sættast.
Það horfir ófriðlega fyrir víkingabyggðir norrænna manna á Bretlandseyjum og Auður missir bæði son sinn Þorstein og mann sinn, Ólaf.
Þriðja bókin Blóðug jörð kom út 2017. Hún fjallar um síðustu ár Auðar á Bretlandseyjum og atburði sem leiddu til þess að hún sá sér engra kosta völ nema að flýja til eylandsins í Norðrinu. En einnig þar er úthellt blóði. Þessari sögu Auðar djúpúðgu líkur þar sem saga Auðar í Laxdælu hefst.
Stéttaskipting?
Þótt sagan sem Vilborg segir, sé um margt lík sögunum sem við þekkjum sem Íslendingasögur, er hún um margt ólík.
Í fyrsta lagi bætist við heill heimur, þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni þræla og ambátta, saga hinna ófrjálsu. Í öðru lagi bætist við ítarleg frásaga af lifnaðarháttum, bæði í hvunndagslífi og stríði. Vilborg skapar nýjan heim á grundvelli þjóðfræða og sögu.
Það liggur mikil vinna í þessari bók/bókum.
Vangaveltur
Samkvæmt rannsóknum á erfðamengi okkar Íslendinga, erum við skyldari Írum og Skotum en Skandinövum. Ástæðan er sú að meiri hluti landnámskvenna kom frá Bretlandseyjum. Þetta lærði ég, þegar ég hlustaði á frábæran fyrirlestur, Þar talaði Agnar Helgason en hann hefur, ásamt fleiri fræðimönnum, rannsakað erfðamengi okkar Íslendinga.
Ekki veit ég hvað vakti fyrir Vilborgu Davíðsdóttur þegar hún hófst handa við að skrifa forsögu Auðar djúpúðgu. Það er að segja þann hluta hennar, sem gerðist áður en hún kom til Íslands.
Reyndar held ég að það sem fyrir henni vaki sé að skapa nýjan og áður óþekktan heim sem rúmar allt fólk, háa sem lága. Í hennar sögu fá konur og þrælar og ambáttir rödd. Já, og meira en það. Konur og ófrjálsir eru í aðalhlutverki í stað höfðingja og stríðshetja.
Innskot um bækur Svíans Jan Guillou
Fyrir um það bil tveim árum var ég á kafi í að lesa/hlusta á bækur Jan Guillou um Arn Magnusson og Birger jarl. Tímasetning þessara bóka er að vísu talsvert seinna en bækur Vilborgar. Margt er þó líkt. Þar segir af höfðingjum og valdamiklum konum. Þrælum bregður fyrir og þá í svipuðu hlutverki og við þekkjum þá frá okkar góðu gömlu Íslendingasögum.
Bækur Guillou
eru stórskemmtilegar.
Mikið fæst ekki fyrir lítið
Til baka til Vilborgar. Það er betra að vera með athyglina í lagi þegar maður les/hlustar á bækur Vilborgar. Hún gefur engan afslátt á því að muna vensl og ættir. Það er líka betra að læra landafræði Bretlandseyja. Vilborg kryddar oft frásögn sína með Gelísku. Það ýtir við manni til að hafa í huga að Bretlandseyjar þessa tíma voru í það minnsta tvítyngdar.
Það er mikið sem situr eftir þegar maður hefur lesið þessa bók. Ég mun minnast aðventunnar 2021 sem aðventunnar sem ég fór til Bretlandseyja með viðkomu í Færeyjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggfærslur 14. desember 2021
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 3
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 83
- Frá upphafi: 190486
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar