Er náttúruvend í stöðu lítilsmagnans?

D6E82D31-D10F-4C5A-BB1C-76B4EBA26A63

Frekja og yfirgangur   

Eg hef verið að reyna að slíta mig út úr andrúmslofti Sturlungu sem ég hafnaði í í friðsældinni á Flúðum (sjá fyrra blogg þar um). Það er ekki svo létt, atburðir í nútímanum kalla stöðugt fram  hliðstæður.

Ég hef um langt skeið fylgst með samskiptum virkjanasinna og náttúruverndarsinna, allt síðan í Kárahnjúkadeilunni.   Ég taldi mig ekki vera andvirkjunarsinna.

Síðan hefur margt breyst í heimi hér. Nú er vísindalega sannað að stefnubreytingar er þörf, hún er lífsspursmál.

Nú stendur deilan  um tiltölulega litla virkjun, Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Ég hef sjálf gengið þar um slóðir, þekki til og á góðar minningar þaðan. Jafnvel draum um að endurnýja kynni mín.

En og aftur að Sturlungu.

Þegar ég var barn lærði ég  setningar utanbókar og þær sitja enn.  „Um 1120 bjó á Breiðabólsstað í Húnaþingi Hafliði Másson en Þorgils Oddason  á Staðarhóli í Dalasý. Þeir voru þá einna mestu höfðingjar í landinu“ (Íslandssaga 2. bindi, höf. Jónas Jónsson). Ekki vissi ég þá að ég ætti efir að ánetjast bókinni sem Jóna sótti þennan efnivið í.

Skjólstæðingar þeirra Hafliða og Þorgils voru Ólafur Hildisson og Már Bergþórsson. Þá greindi á,  en með þeim var lítið jafnræði. Annars vegar var lítilmagninn Ólafur Hildisson sem verið hafði fjórðungsómagi (merkilegt hugtak) eftir að faðir hans var dæmdur  skóggangsmaður.  Þá var Ólafur enn barn að aldri. Hins vegar var Már, frændi Hafliða Mássonar. Már virðist hafa verið siðlaus fantur en hann komst upp með það í skjóli þessa valdamikla frænda síns. Ólafur hallaði  sér að höfðingjanum Þorgilsi og fór, fyrir hans orð, í Ávík á Ströndum til að leita fyrir sér um vinnu.

Í Ávík bjó Hneitir bóndi ásamt konu, vinnufólki og börnum. Þetta virðist hafa verið friðsemdarfólk. Hneitir sá um reka fyrir Hafliða Másson.

Nú ætla ég að gera langa sögu stutta.  Vandræðagepillinn Már treður sér upp á þetta vammlausa fólk, greinilega valdaður af frændanum. Hann hefur keypt sér bát og vill gera út frá Ströndum. Ólafur, sem er í atvinnuleit  ræður sig á skip hjá honum. Veiðarnar gengu vel en Ólafur er hýrudreginn í lok vertíðar. Auk þessa rænir Már hann því litla sem hann átti af götum og vopnum.

Ólafur reyndi seinna að sækja mál sitt, var til þess hvattur af Þorgilsi. En eftir að vera bæði  smánaður og hunsaður af Má slæmir hann til hans öxi og særir hann, þó ekki meira en svo að delinn Már,  gat haldið áfram yfirgangi sínum.

Í framhaldi af þessu drepur hann Þorstein vinnumann Hneitis og veldur dauða Hneitis sjálfs. Áður hefur hann tekið konu og dóttur Hneitis frillutaki.

Að leita réttar síns

Eftir þessi ósköp finnst ekkjunni erfitt að leita réttar síns hjá Hafliða sem henni bar, Már var heimamaður hans og hún veigraði sér við að hitta hann fyrir.  Svo úr varð, að hún leitar til Þorgils og hann velur að borga henni bæturnar sjálfur úr eigin vasa. Vill ekki koma illu af stað. Við þetta firrtist höfðinginn Hafliði og fer af stað með málsókn út af áverka Más og vinnur málið.

Æ, æ, það er ekki hægt að endursegja Sturlungu. Ég bendi lesendum mínum á að kíkja í bókina.

Sýnidæmi

Það sem ég ætlaði að ná fram með þessu sýnidæmi, var að ef fólk er valdað af höfðingjum, kemst það upp með hvaða óþokkaskap og vitleysu sem það vill og ætlar sér.

Það er merkilegt að fylgjast með því hvernig mál hafa runnið í gegn hjá aðstandendum Hvalárvirkjunar og undarlegt að framkvæmdir skuli vera hafnar þótt enn sé mörgum málum ólokið.

Hverjum ber að valda náttúrufegurð?

Náttúruvernd á Íslandi á sér marga góða talsmenn. En þegar kemur að því að taka ákvarðanir um nýtingu auðlinda mega þeir sér oft lítils, þá er eins og rödd gróðans heyrist betur en rödd gróandans. Lengi vel var hægt að treysta því að VG gætti hagsmuna landverndar. Nú er eins og fallið hafi á þá herfjötur.

Er náttúruvend í stöðu lítilmagnans?

Myndin er af síðu í stóru kortabókinni  Ísenskur Atlas


Bloggfærslur 23. júlí 2019

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 93
  • Frá upphafi: 187291

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 84
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband