Die Apothekerin eftir Ingrid Noll: Ísmeygileg glæpasaga

Ingrid Noll

Die Apothekerin eftir Ingrid  Noll er ísmeygileg morðsaga.  Það er lyfsalinn/lyfjafræðingurinn sjálfur sem segir söguna, hann er kona. (Mikið eiga nú Þjóðverjar gott að þeir þeir þurfa  aldrei að vera neitt að vandræðast með kyn starfstétta, þeir bæta einfaldlega in-endingunni við ef um konu er að ræða). Hún liggur á sjúkrahúsi á kvenlækningadeild vegna áhættu í meðgöngu og til að stytta sér stundir segir hún stofufélaga sínum Frau Hirte, frá lífi sínu. Hún veltir því einig fyrir sér að slík frásögn geri henni gott og rétt eins og þegar sjúklingur segir sálfræðingi frá lífi sínu. Og líf hennar hefur vægast sagt verið ævintýri líkast, eða martröð.

Lyfjafræðingurinn Hella Moormann lítur á sig sem fórnarlamb. Þegar hún var 12 ára varð henni á, fyrir slysni, að verða völd að dauða bekkjarbróður síns. Hún á góða og umhyggjusama fjölskyldu sem hjálpar henni í gegnum erfiðleikana en af frásögn hennar má ráða að hún á í erfiðleikum með að tengjast fólki, sérstaklega karlmönnum og hún á bara eina trausta vinkonu. Þessi vandræði hennar verða  til þess að hún laðast að fólki sem á líka í vandræðum, fyrst og fremst óreglufólki. En frásögn hennar fjallar þó mest um samband hennar og Levins sem er ónytjungur sem á ríkan afa. Í fyrstu hafði ég mikla samúð með þessari konu og beið eftir því að hún losaði sig við þennan augljóslega ómögulega elskhuga sem lifði á henni. Og það gerði hún reyndar en ekki á þann hátt sem ég hafði haldið. Það kemur nefnilega í ljós að hana langar ekki bara til að koma reglu á líf sitt og eignast barn/börn, hún vill líka gjarnan eiga stórt einbýlishús til að ala þau  upp í. Henni og sambýlismanninum kemur saman um að það sé algjör óþarfi að afinn sem er aldraður lifi áfram í þessu stóra og fína húsi.  

Afinn lifir ekki lengi eftir þetta og Hella og Levin flytja inn í villuna en þá kemur í ljós að maðurinn  sem hún elskar tengist ráðskonu afa síns nánar og á annan hátt en Hella hafði gert ráð fyrir og hann er reyndar líka flæktur í vafasöm viðskipti með sambýlismanni hennar, þ.e. ráðskonunnar. Svo það er margt fólk sem þvælist fyrir þessari ljúfu og konu sem er haldinn atvinnusjúkdómi lyfjafræðinga sem lýsir sér í mikilli nákvæmni og að vilja hafa allt í röð og reglu.

Kvöld eftir kvöld fær Frau Hirte að hlýða á frásögn hennar og  sögumaður veit ekki alltaf hvort  hún er vakandi eða sofandi. Eftir því sem líður á frásögnina hef ég minni samúð með vesalings lyfjafræðingnum en hún lítur greinilega á sig sem fórnarlamb eða þolanda. Þetta er ísmeygileg saga um morð frá öðru sjónarhorni en maður á að venjast.

Ingrid Noll er þekktur höfundur í heimalandi sínu og sumar sögur hennar, m.a. þessi, hafa verið kvikmyndaðar. Ég sá á Gegni að það er til diskur einmitt með þessari sögu í Þóðarbókhlöðunni og víðar. Ef ég hefði átt videótæki í lagi hefði ég verið búin að nálgast eintak.


Bloggfærslur 11. febrúar 2013

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 10
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 84
  • Frá upphafi: 190481

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband