Færsluflokkur: Bloggar
21.9.2013 | 17:42
Píramítar Reykvíkinga
Þetta er forljótt fyrirbæri sagði maðurinn sem ég fékk til að smella af mér mynd við aðra nýju brúna yfir Elliðaárnar. Hann smellti nú samt og svo töluðum við svolítið um brýrnar.
Við vorum ósammála en samtalið gekk samt vel. Hann sagði að hafa haldið að þessir þríhyrningar væru til bráðabirgða meðan verið væri að steypa og síðar yrðu þeir teknir niður. Ég sagði honum að ég vissi ekki enn hvort mér þætti þetta fallegt, þetta væri einhvern veginn meira skemmtilegt og glaðlegt. Bæði vorum við þó sammála um að hér eftir yrði þetta eitt af því sem litið yrði á sem eittt af einkennum, táknum Reykjavíkur.
Ég hef fylgst með þessum framkvæmdum í allt sumar því þær eru á einni af uppáhalds skokkleiðum mínum Álfheimar - Grafarvogur, ótrúlega falleg leið. Með tilkomu nýju brúnna verður þessi leið enn skemmtilegri. Það er merkilegt að upplifa það á gamals aldri að kynnast nýrri og fallegri Reykjavík. Ég hafði nefnilega aldrei skokkað í Reykjavík (nema í keppnum...ha ha) fyrr en eftir sjötugt. Ég byrjaði skokkferil minn í Borgarnesi og kynntist þar af leiðandi nýjum Borgarfirði.
Það er langt síðan og nú bý ég í henni Reykjavík. Eftir að ég hóf að skokka og hjóla fór mér allt í einu að finnast Reykjavík bara falleg. Þetta er rétt eins og með Húnavatnsýslurnar. Um árabil vissi ég ekki um ljótara landslag. Á ferðum mínum til eða frá heimaslóðunum fyrir austan, andaði ég léttar þegar ég var komin í gegn. Mér fannst leiðin löng og tilbreytingarlaus. Þannig var þetta þangað til ég átti erindi út af þjóðveginum, gegnumakstrinum. Leið mín lá í Vesturhóp. Þvílík fegurð og þvílík dásemd. Ég lærði af þessu. Síðan hef ég hætt að hugsa um leiðir sem gegnumakstur, ég leitast í hverri ferð við að uppgötva eitthvað nýtt sem fræðir mig eða gleður.
Ég held að brýrnar yfir Elliðaár séu það merkilegast sem hefur verið byggt í Reykjavík síðan Harpan reis. En þær eiga eflaust eftir að verða umdeildar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2013 | 18:12
Ég vildi að ég þekkti einhvern á Lynghaga
Ég vildi að ég þekkti einhvern á Lynghaga þá gæti ég þakkað honum fyrir hvað fólkið á Lynghaga gerðu mikið fyrir mig í dag þegar ég var að hlaupa götuna hans í hálfmaraþoninu. Það var dásamlegt. Nákvæmlega það sem ég þurfti í undirbúningi þess sem koma skyldi. Ég er nokkuð viss að fleiri en mér er þakklæti í huga. Það streymdi til okkar gleði og kraftur.
Reyndar langar mig að þakka öllum sem voru á hliðarlínunni og hvöttu, ég vissi það ekki fyrir að hvað það gefur mikið að fá slíkar kveðjur. Mér fannst líka gaman að hlaupa fram hjá skemmtistöðvunum, þær voru skemmtilegar.
Leiðinlegasti og um leið erfiðasti kafli hlaupsins var krókurinn niður að Sundahöfn og inn að Kleppi. Þar var ekki nokkur lifandi sála á hliðarlínunni og vöruhótelin ótrúlega ljót og óspennandi. Af hverju kalla menn þetta HÓTEL en ekki vörugeymslur eða lagera? Ég þráði svo að það væri þarna einhver skemmtistöð. Reyndar var allra fyrsti spottinn af þessum krók ánægjulegur því lyktin af kerflinum var svo góð, nokkurs konar anísylmur. Maður er svo lyktnæmur þegar maður hleypur.
Svo ég dragi saman hvað ég er að segja. Ég vildi að allar götur væru eins og Lynghaga þegar ég er að hlaupa.
Bloggar | Breytt 25.8.2013 kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2013 | 22:27
Stórmerkilegt rit um hænsnarækt frá 1915
Fyrir tilviljun barst mér upp í hendurnar stórmerkilegt rit um hænsnarækt frá 1915 eftir Einar Helgason. ég las það af stakri ánægju enda hef ég alltaf verið áhugamanneskja um hænsnarækt enda alin upp við að bera virðingu fyrir hænum rétt eins og öðrum dýrum sem þjóna manninum. Mín heimsmynd var á þessum tíma, nokkur veginn þessi; Maðurinn ber sömu ábyrgð á húsdýrunum og Guð ber á mönnunum, hann á að vera þeim góður og sjá til þess að líf þeirra verði hamingjuríkt.
M.a þess vegna var þessi bók er gersemi fyrir mig. Hún segir frá:
Kynflokkum hænsna
Uppeldi
Hirðingu
Undir þetta fellur flest það sem máli skiptir í hænsnarækt. Strax í upphafi ritsins kemur fram "að bændur vilja engin hænsn hafa og höfðu allt á hornum sér á móti þeim; en venjulega er hér öðru máli að gegna um konurnar. Víða halda þær hlífiskildi fyrir hænsnunum." Um aðbúnaðinn segir þetta: "Hænsnin þurfa að hafa rúmgóða, bjarta og þurra bústaði; hlýinda þarfnast þau líka, allra helst á nóttinni:" Og síðar segir:" Hænsnin eru þrifin að náttúrufari, Þau langar til að halda sér hreinum." Og áfram segir um eðli hænsnfugla: Hænsnin eru einstaklega reglusöm að náttúrufari; en auðvitað er hægt að níða úr þeim þann eiginleika." Og síðar segir:"Eftirtektarsamur maður á að geta séð það á hænsnum hvernig þeim líður." Og enn: Mönnum ætti að vera það fullljóst, að þeir sem halda hænsni, hafa sömu skyldur við þau eins og við aðrar skepnur, sem þeir hafa undir höndum, þær, að reyna að láta þeim líða vel."
Mér fannst það einstakt happ að fá þessa bók upp í hendurnar núna þegar svo mikil umræða er um aðbúnað dýra og þó sérstaklega þeirra sem eru sett inn í nokkurs konar verksmiðjuumhverfi. Hvað eigum við að gera og hvað getum við gert? Þar að auki rifjuðust upp gamlar minningar frá því ég var barn, allt stemmir. Konur sáu um hænurnar, karlar fyrirlitu þær en tóku samt eggjunum fagnandi. Hænur voru persónuleikar og þeir sem um þær hirtu þekktu þær og skildu þarfir þeirra. Sumar hænur voru hreint og beint skemmtilegar með sínar sérviskur. Í gamla daga, þegar ég var ung var það ekki til siðs að borða hænsnakjöt en mamma mín sem hafði verið í vist sunnanlands matreiddi þær og okkur fannst kjötið gott en við lærðum fljótlega að það var ekki okkur til framdráttar að ræða um hænsnakjötsátið á öðum bæjum. En mikið var unghanakjöt gott, ég man það enn.
Kveikjan að þessari grein voru feisbókarskrif ágætrar vinkonu Ólafar Erlu, þeim laust saman við lestur minn á þessu sérstaka kveri um hænsnarækt. Og nú spyr ég enn og aftur: HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ STUÐLA AÐ MANNÚÐLEGRI MEÐFERÐ Á DÝRUM?
Það er reyndar fjölmargt fleira áhugavert í þessari litlu bók sem gaman er að gaumgæfa, stundum, allt of oft, hugsa ég að hin svokallaða framþróun er afturför.
Skoðið þetta
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2013 | 23:51
Íslendingar mega ekkert aumt sjá, þá skjóta þeir það
Einu sinni ætlaði ég að halda út bloggskrifum sem bæru yfirskriftina VANDLÆTING DAGSINS en gafst upp. Ég veit ekki hvort ástæðan var að ég sé svo margt aðfinnsluvert eða vegna þess að ég er einfaldlega ekki nógu mikill vandlætari.
Í dag þegar ég hjólaði fram hjá litlu fallegu, friðsælu kanínunum í Elliðaárdalnum gat ég ekki orða bundist.
Íslendingar mega ekkert aumt sjá, þá skjóta þeir það, eins og kanínurnar. Eða drekkja því eins og minkunum. En þó eru þeir einnig haldnir þeirri merkilegu mótsögn að ef einhver jurt skarar fram úr og er dugleg, þá skal eitrað fyrir hana eða að hún er höggvin. Þannig er að minnsta kosti talað um lúpínuna, kerfilinn og öspina.
Getur ástæðan fyrir þessum ofsóknum, útrýmingaráráttu stafað af því að þessar lífverur eru af erlendum uppruna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2013 | 21:23
Land míns föður; stórbrotin þýsk saga
Lands míns föður, landið mitt, laugað bláum straumi, kvað Hulda og hjá mér kvikna hlýjar hugsanir í hvert sinn sem ég heyri þessar fallegu línur. MEINES VATERS LAND: Saga þýskrar fjölskyldur, skrifar Wibke Bruhns. Þetta er bók um land föður hennar, fjölskyldu hennar, full af ólýsanlegum hörmungum og voðaverkum.
Það er búið að taka tímann sinn fyrir mig að lesa þessa bók en hún er svo sannarlega þess virði. Í henni reynir blaða- og sjónvarpskonan Wibke Bruhns að kynnast föður sem hún þekkti í raun aldrei, því þegar hún fæddist 1938 var hann á kafi í að sinna verkefnum fyrir föðurlandið og oftast fjarverandi. Þegar hann dó, var tekinn af lífi, var hún ekki orðin sex ára. Hann og tengdasonur hans voru ásamt 3 öðrum líflátnir vegna misheppnaðs tilræðis við Hitler (20. júlí samsærið). Eftir það var stöðug þöggun í gangi um þennan mann, fyrst vegna svika hans við landið og eftir fall Þýskalands vegna alls þess sem hann var þátttakandi í áður en hann sveik.
Wibke tekur ákvörðun um að nálgast þennan föður þegar hún verður fyrir því óviðbúin að horfa á mynd frá aftöku hans og með rannsóknarvinnu blaðamanns vinnur hún sig í gegn um skjöl hans og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru voldugir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Bæði faðir hennar og afi tengdust einnig hernum og börðust báðir í fyrri heimstyrjöldinni. Um leið og hún vinnur sig í gegn um skjöl Klamroth ættarinnar kynnist hún einnig móður sinni upp á nýtt, hinnar sterku og úrræðagóðu danskættuðu Else.
Þetta er merkileg lesning. Lesandinn fær þarna í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna sem í raun voru svo stutt. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og/eða þátttöku í voðaverkum stríðsins. Hvað vissu þau? Hvað eftir annað talar hún um hvað hana langar að þau hafi ekki verið þátttakendur og að þau hafi ekki raun gert sér grein fyrir voðaverkum nasista. En gagnrýnin athugun blaðamannsins leiðir annað í ljós. Þau hljóta að hafa vitað, foreldrar hennar og systur voru vel upplýst fólk með aðgang að fréttum innanlands og utan. Wibke lætur sögunni ljúka við aftöku föður síns og mágs og þá eftirmála sem urðu.
Þetta er hrífandi saga. Wibke hefur eignast föður, hann er e.t.v. ekki sá faðir sem hún þráði en hún ákveður að hafa samúð með honum, þrátt fyrir allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2013 | 15:49
Glæsir: Það er ekki öfundsvert við það að vera afturganga
Loksins læt ég verða af því að lesa Glæsi (Ármann Jakobsson 2011). Ég hef lengi ætlað að lesa hana en það sem ýtti mér af stað núna voru ummæli sem féllu í pólitíkinni.
Bolakálfurinn Glæsir er í miklu dálæti hjá húsbónda sínum, Þóroddi Þorbrandssyni bónda á Finngeirsstöðum í Álftafirði á Snæfellsnesi. Sögnin er sótt í Eyrbyggjasögu. En það er ekki allt sem sýnist. Þetta er enginn venjulegur nautgripur því í honum býr Þórólfur bægifótur, afturgenginn. Hann hyggur á hefndir fyrir son sinn Arnkel og rifjar upp ævi sína um leið og hann býður færis. Það er samt eitthvað ópassandi við að hann skulu vilja hefna fyrir víg Arnkels því það var síður en svo kært með þeim feðgum. En blóðböndin leggja mönnum skyldur á herðar, líka draugum.
Þórólfur bægifótur í líki kálfs rifjar upp ævi sína um leið rifjar hann upp fyrir lesandanum mikilsverða þætti í sögu Eyrbyggja. Það er gaman að fylgja honum í þessari upprifjun og ég gat að sjálfsögðu ekki stillt mig um að taka fram mína Eyrbyggju og glöggva mig enn betur. En það sem er þó skemmtilegast og mestur fengur í er túlkun höfundar Glæsis á sálarlífi þessa mann það er ekki gert í Eyrbyggju, þar verður vonska hans óskiljanleg, líkust dintum. Þórólfur bægifótur í sögu Ármanns Jakobssonar getur réttlætt allar sínar gerðir, hann elur á eigin óánægju og magnar upp hjá sér hefndarhug til manna sem ekkert hafa gert honum. Honum finnst hann vera misskilinn, fyrirlitinn og smánaður og fyrir það skal hefnt. Lýsing Ármanns á hugsunarhætti þessa manns stemma við rannsóknir á ofbeldismönnum nútímans sem ævinlega geta réttlætt gerðir sinar og iðrast aldrei.
Það er líka gaman að lesa lýsingu Ármanns á tilvistarkreppu afturgöngunnar, það er síður en svo gaman að vera draugur, tilheyra hvorki lífi lifenda eða dauðra. Það er fróðlegt að fylgjast með þessum hugleiðingum enda hefur höfundur Glæsis rannsakað lögmál drauga og afurganga (Skírnir 2010; 184 (vor): s. 187-210 ).
Ég sagði í upphafi að það hefðu verið orð sem féllu í pólitík sem ráku á eftir mér að lesa Glæsi núna. Þessi orði voru SJALDAN LAUNAR KÁLFURINN OFELDIÐ og vísuðu til tiltekins stjórnmálamanns sem hefur átt sér mörg líf. Ekki get ég nú séð að þessi lestur hafi orðið til að dýpka skilning minn á pólitískri hegðun manna en ég á enn eftir að rýna betur í Eyrbyggju. Þar er mörg matarholan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2013 | 16:57
Fall og upprisa: Íþróttir til heilsubótar
Myndin í sumar eftir að ég og dóttir mín höfðum tekið þátt í 5 km í Suzukihlaupi
Um þetta leyti í fyrra sumar tók ég til við að skokka. Ég var orðin 70 ára og afmælið varð til þess að ég fór yfir það í huganum hvað mig langaði til að gera við árin sem væru eftir. Eitt af því var að hlaupa. Ég var þó engan veginn viss um að þetta myndi takast en ákvað að prófa. Fyrstu skiptin lofuðu ekki góðu en ég vissi sem var að góðir hlutir gerast hægt og gafst ekki upp. Ég hljóp í allan vetur og er nú búin að skrá mig í hálfmaraþon. Ég er með hlaupaáætlun og allt gekk rífandi vel.
En svo datt ég. Það gerðist fyrir 9 dögum síðan, ég rak tána í ójöfnu í malbikinu og hentist fram fyrir mig, reyndi að bera hendurnar fyrir en skall með andlitið í götuna. Þetta gerðist á fjölförnum gatnamótum og mín fyrsta hugsun þegar ég staulaðist á fætur var að ég skammaðist mín. Ég heyrði með mínu innra eyra, ÞÉR ER NÆR. En það fossaði úr mér blóðið því ég hafði fengið blóðnasir og mín fyrsta hugsun var að reyna að stoppa blæðinguna. Ég þurfti engar áhyggjur að hafa af því að fólkið í bílunum sínum væri eitthvað að horfa á mig, að minnsta kosti stoppaði ekki nokkur maður. Einn lítill drengur og útlendingur með tösku gáfu mér gaum. Hjálpin var þó skammt undan því allt í einu kom kona hlaupandi. Þetta var kona sem þekkti mig, hún var að koma úr Góða hirðinum og hafði sé þegar ég datt. Hún ók mér heim.
Eftir að safnað mér saman ákvað ég að fá skutl á Læknavaktina í Kópavogi, ég hélt að með því sparaði ég mér tíma. Læknirinn í Kópavogi beindi mér á Bráðamóttökuna því hann taldi að ég væri handleggsbrotin (fann það út strax og hann heilsaði mér með handabandi). Á Bráðamóttökunni var þetta myndað og staðfest. Handleggsbrot á framhandlegg, önnur pípan. Þrem dögum síðar fór ég til að fá frekari upplýsingar um hvað gera yrði og þá var þetta enn staðfest. Það þyrfi ekki að setja handlegginn í gifs heldur átti ég einungis og nota fatla og meta það sjálf hversu mikið ég reyndi á handlegginn. Ég var nokkuð viss um að þetta myndi taka 4-5 vikur og taldi að nú væri útséð með þátttöku í hálfmaraþoni og með mína góðu áætlun.
En batinn hefur verið með undraverðum hætti. Það voru einungis nokkrir dagar sem ég gat ekki notað hendina, í gær að sleppti ég fatlanum og í dag prófaði ég að skokka. Allt gekk vel.
Þegar ég birtist á Bráðamóttökunni, enn með blæðandi sár í andlitinu var ég spurð spurninga til að fylla út skema til að nota í statistikina. Ein spurningin var um hvaða erindum ég hefði verið að sinna þegar slysið varð. Ég sagði honum að ég hefði verið að hlaupa. Þessi maður var með húmorinn í lagi ég sagði mér að hann ætlaði þá að skrá þetta undir: ÍÞRÓTTIR Í HEILSUBÓTARSKYNI, það fannst mér skemmtilegt.
En af hverju er ég að segja þessa sögu? Ég held að ég geri það vegna þess að á bak við hana er sams konar hugsun og hjá fólki "sem kemur út úr skápnum", ég skammaðist mín fyrir að detta og meiða mig og ég skammaðist mín enn meira af því ég er gömul og það hafa allt of margir sagt við mig að ég eigi ekki að að vera að þessu. Ég er að létta á hjarta mínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2013 | 22:22
Blikktromman: Günter Grass
Annar af tveimur leshópum sem ég tilheyri tók ákvörðun um að nú skyldi Blikktromman lesin. Ég tók því fagnandi því ég þekkti það mikið til Günters Grass að ég átti á góðu von. Ég hafði að vísu tvisvar séð kvikmynd sem byggir á þessari sögu en af einhverjum ástæðum ekki lesið bókina.
En það er ekki bara að segjast ætla að lesa slíka bók, hún er 598 síður og söguþráðurinn nokkuð snúinn, þ.e. undinn saman á torkennilegan hátt. Sögumaðurinn er vistaður á geðveikrahæli og rifjar upp líf sitt. Hann segir sögu sína ýmist í fyrstu persónu (Ég) eða í þriðju persónu, (Óskar) og hann er óáreiðanlegur og fullur af mótsögnum. Það kemur í hlut lesandans að púsla frásögninni saman til að fá heillega mynd. En hún verður aldrei heil.
Í raun eru þetta þrjár bækur og hver og ein margir kaflar. Það er engu líkara en að hver og einn kafli sé sjálfstæð saga. Kaflarnir, bókin fjallar um líf drengs sem hefur tekið þá ákvörðun á þriggja ára afmæli sínu að hætta að vaxa. En það er ekki bara þetta sem er sérstakt við þennan dreng, hann er líka nokkurs konar sjáandi, hann hefur skynjað og krufið líf sitt alveg frá því mamma hans var getin á kartöfluakri. Hann getur þannig sagt okkur sögu sína og annarra frá sjónarhorni fullorðins barns. Auk þess er hann með leynivopn, hann getur sprngt gler með rödd sinni.
Þetta er í senn söguleg skálsaga og persónulegt uppgjör höfundar. Hún segir frá drengnum Óskari sem er fæddur 1924 og elst upp í fríríkinu Danzig (nú Gdansk) og upplifir heimsstyrjöld. Þetta er líka einhvers konar uppgjör höfundarins við þennan tíma þar sem hann er í senn þátttakandi og fórnarlamb. Hann einnig fæddur í Danzig (1927) og á afskaplega margt sameiginlegt með sögupersónu sinni. Bókin kemur út 1959, þá hafði höfundurinn ekki gengist við því að hann tók sjálfur þátt í stríðinu. Nú þegar maður veit það verður bókin skiljanlegri. Á sínum tíma var þessi bók fyrst og fremst fræg fyrir óvenjuleg efnistök, frásögnin er í senn ofurnákvæmar raunsæjar lýsingar og undarlegar yfirnáttúrlegar ýkju- eða lygasögur í Münchausenstíl. Oft er frásögnin á mörkunum eða fer yfir velsæmismörk, hann lýsir viðbjóði, grimmd, trúmálum og ástalífi langt um fram það sem manni finnst þægilegt. En samt les maður stöðugt áfram því það er einhver þráður sem dregur mann. Drengurinn eða dvergurinn Óskar er þannig í senn aumkunarverð og andstyggileg persóna.
Bókin var þýdd á íslensku af Bjarna Jónssyni og var gefin út af Máli og menningu á árunum 1998-2000. Það er því ekki hægt að segja að nóbelsverðlaun höfundar 1999 hafi orðið til að það var ráðist í þetta stórvirki eins og stundum vill bregða við. Ég gat ekki stillt mig um að útvega mér bókina á móðurmáli höfundar og las kafla sem vöktu sérstaklega forvitni mína, hvernig skyldi þetta vera sagt á þýskunni? Þetta geri ég ekki oft en það var gaman og niðurstaðan er að þýingin er frábær, stórvirki.Það er mikillfengur að fá þessa bók á íslensku
Þegar ég hafði lokið lestrinum horfði ég á Blikktrommuna, myndina, með manni mínum, en hann er afskaplega duglegur að skaffa mér myndir sem horfandi er á (og reyndar bækur og músik líka). Það var öðru vísi að sjá myndina eftir að hafa lesið bókina en þó má segja að myndin og bókin séu hvor um sig sjálfstæð verk.
Nú vona ég að stöllur mínar í leshópnum séu búnar eða langt komnar með þetta góða, stóra verkefni og hlakka til að hitta þær og ræða um efni bókarinnar þegar þar að kemur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2013 | 13:28
21.07 í Frystilkefanum Rifi: Hvernig á að taka á móti geimverum?
Það voru margar ástæður sem réðu því að ég ákvað að fara á 21.07 í Frystiklefanum Rifi í gær. 1) Ég hafði séð kynningu á verkinu í Rúv. 2) Ég kannaðist við leikarana (þó aðallega foreldrana). 3) Ég hafði fylgst með undirbúningi að móttöku geimveranna þar sem ég bjó í Borgarnesi á þessum tíma og móttökunefndir og fréttamenn fóru í gegn um Borgarnes. 4) Mér bauðst ferð. 5) Síðast en ekki síst var einhver innri rödd sem sagði mér að þetta væri gott, vel heppnað, lukkað og og eitthvað fyrir mig. Ég hef lært að treysta þessari rödd. Og svo er alltaf gaman að ferðast um Snæfellsnesið.
5. nóvember 1993 bjó ég í Borgarnesi og það fór ekki fram hjá neinum að það var eitthvað í vændum. Það hafði frést af því að það stæði til að geimverur kæmu við á Snæfellsjökli á sveimi sínu um himingeiminn, ekki man ég hvort það fylgdi sögunni til hvers. Fjölmiðlar voru uppfullir af þessu og allt í einu þurfti fólk í byggðarlögunum í kring um Jökulinn að fara að taka afstöðu til þess hvaða afstöðu það hafði til geimvera. Þetta er eitthvað sem fólk í sínu daglega amstri leiðir hjá sér. Oftast.
Leikritið 21.07 fjallar um þetta en það var áætlaður komutími geimfarsins. Kári Viðarsson sem þá var ungur drengur á Hellissandi segir söguna frá sjónarhorni drengsins Kára sem var yfir sig hræddur og eiginlega viss um að heimurinn væri að farast. En það er takmarkaður tími til að sinna ímyndunarveikum dreng þegar svona mikið stendur til svo frásagan snýst ekki bara um hann heldur miklu meira um fólkið í kringum hann sem stöðugt þarf að vera viðbúið að sinna sínu mikilvæga hlutverki hvað sem á dynur.
Tveir leikarar, Kári Viðarsson og Víkingur Kristjánsson fara með öll hlutverkin, sem eru fjölmörg og það er líf í tuskunum að skipta um búninga og hárkollur. Ekki spillti fyrir hvað mig varðar að persónurnar byggðu allar á raunverulegu fólki og ég þekkti vel til á Snæfellsnesi á þeim tíma. Mér fannst þetta alveg óborganlega skemmtilegt.
Frystiklefinn er í skemmu sem aldrei var ætlað það hlutverk að hýsa leikhús. Húsnæðið er hrátt en um leið notalegt á sinn hátt. Klefinn var fullsetinn þetta kvöld og ég gat ekki betur heyrt en að allir skemmtu sér hið besta. Það var enginn viðvaningsbragur á þessu verki enda fagfólk á ferðinni. Sumar rullurnar tókust afar vel, t.d. fór Kári á kostum í hlutverki áströlsku konunnar sem ætlaði að nota tækifærið og fá far út í geim af því hún hafði verið svikin í ástum. Víkingur var einnig mjög trúverðugur í hlutverkum Hrefnu (konu Skúla Alexanderssonar) og Drífu Skúladóttur, móður Kára.
Það sem var skemmtilegast við þetta leikrit er að maður upplifir að það er eitthvað nýtt á ferðinni. Ég fékk þessa sömu upplifun í vetur þegar ég horfði á Tengdó í Borgarleikhúsinu. Þegar slíkt gerist er gaman að eldast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2013 | 11:23
Appelsínur frá Abkasíu: Vera Hertzsch, Laxness og hreinsanirnar miklu
Það eru meira en tvö ár síðan ég hlustaði á Jón Ólafsson halda fyrirlestur um Gúlakkið og konurnar uppi í Háskóla Íslands. Hann sagði frá bók sem hann var með í smíðum og sýndi nokkur yfirlitskort til skýringar efninu og myndir. Kortin sýndu dreifingu fangabúða í Sovétríkjunum, vinnubúðir sem nú ganga undir samheitinu Gúlag og myndirnar voru sömuleiðis frá þessum stofnunum. Dreifingin, kannski væri réttara að tala um þéttleika, kom mér á óvart og ekki síður hversu margar þessara búða voru í Evrópuhluta Ráðstjórnarríkjanna. Ég hafði áður ímyndað mér að þær væru flestar í austurhluta í Síberíu. Allt í einu skildi ég að þannig var þetta auðvitað, því nálægt þéttbýlustu svæðunum var hagkvæmast að reka þær, þær þjónuðu veigamiklu hlutverki í framleiðslukerfinu og uppbyggingu þessa víðfeðma ríkis. Ég ákvað strax meðan ég hlustaði á fyrirlesturinn að þessa bók ætlaði ég að lesa.
Og loksins kom ég því í verk, ég tók hana með mér austur í Breiðdal, ásamt bókinni um Stalín sem ég hef lengi glímt við. Það er mikill munur á þessum tveimur bókum þótt að hluta til fjalli þær um sama efni og stangist alls ekki á. Önnur, bókin um Stalín, fjallar fyrst og fremst um persónur og ég saknaði oft að fá ekki tækifæri til að skoða sögur þeirra í víðara samhengi. Jón lætur reyndar líka ákveðnar persónur í aðalhlutverk, því eins og nafn bókarinnar gefur til kynna eru það Vera Hertzsch og Halldór Laxness sem fara með þessi lykilhlutverk. En í raun er það sagan sem er í aðalhlutverkið, saga fólksins sem sem trúði því í einfeldni sinni að það væri hægt að skapa betri og réttlátari heim, þetta er sagan um manneskjur sem byltingin sveik og fólkið sem stóð álengdar tvístígandi og hafðist ekki að.
Eins og höfundur bókanna um Stalín, Montefiore, sviðsetur Jón sögu sína. Hann segir frá fundi Halldórs og Veru sem tengdist okkur Íslendingum vegna þess að hún hafði eignast litla stúlku, Erlu Sólveigu, með íslenskum námsmanni í Moskvu, vini Halldórs. Fyrsta senan er frá heimili Veru, hún hefur boðið Halldóri í mat og hann færir henni appelsínur sem hann hefur fengið að gjöf og fulltrúar kerfisins koma til að handtaka Veru. Halldór forðar sér af vettvangi, gat sjálfsagt lítið gert enda liggur "glæpur" hans ekki í því heldur í því hvernig hann túlkar þennan atburð. Halldór fyllti flokk margra sem trúði því að það sem stjórnvöld gerðu í Ráðstjórnarríkjunum væri nauðsynlegt til að tryggja framgang einhvers sem væri miklu stærra en lí fog örlög nokkurs einstaklings. Hann fyllti flokk þeirra sem trúði því að tilgangurinn helgaði meðalið. Vera er örvingluð og ráðalaus, hún var sannfærður sósíalisti og hafði það eitt sér til saka unnið að vera eiginkona manns sem einnig hafði verið ákærður og tekinn af lífi fyrir upplognar sakir.
Vera og litla dóttir hennar fara í fangabúðir og hvorugri þeirra auðnast að komast þaðan út aftur. Þær eru í bókinni fulltrúar fórnarlambanna. Reyndar vitum við ekki mikið um þær mæðgur, um þær liggja engin gögn nema þær fátæklegu færslur sem finna má í gögnum fangelsiskerfisins. En margir fangar og þá sérstaklega konur skrifuðu minningar sínar frá fangabúðarvistinni og Jón notar þessar sögur og gögn til að geta sér til um líf Veru og dóttur hennar. Jafnframt rekur hann sögu þrælkunarbúðanna, Gúlagsins.
Þetta er frábærlega vel skrifuð bók. Hún er allt í senn, fræðandi, spennandi og sorgleg. Merkilegust finnst mér hún þó vera fyrir hugleiðingar Jóns um stöðu okkar, fólksins og ábyrgðina sem felst að því að vera manneskja. Og þá sérstaklega ábyrgðina sem fylgir því að vera frjáls og upplýst manneskja og nauðsyn þess aðn rísa upp gegn óréttlæti þegar þess gerist þörf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 6
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 72
- Frá upphafi: 190459
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar