Færsluflokkur: Bloggar

Aftur á kreik: Timur Vermes: Sjónarhorn Hitlers á nútímann

image

Bókin, Aftur á kreik, fjallar um það þegar Adolf Hitler vaknar upp  3. ágúst 2011 í Berlín og hefst þegar handa að reyna að halda áfram þar sem frá var horfið. Bókin heitir á frummálinu,  Er ist wieder da og kom út 2012. Hér kom bókin út 2015 í þýðingu Bjarna Jónssonar. Mér líkaði þýðingin vel.

Síðan ég fór á eftirlaun hef ég gripið í að rifja upp menntaskólaþýskuna. Nú er ég þangað komin í námi mínu að ég er farin að hlusta á þýska texta mér til gagns og fannst því upplagt að kaupa bókina sem hljóðbók á Audible. Jafnframt gafst mér kostur á að hlusta á hana á íslensku á Hljóðbókasafni Íslands auk þess sem ég gat rýnt í prentaða útgáfu. 

Það kom í ljós að þýskukunnáttan var ekki betri en svo að, mér reyndist betra að hlusta fyrst á íslenska textann og síðan á þýskuna. Þetta var á vissan hátt merkilegt, lesturinn er í báðum tilvikum frábær. Þýski upplesturinn hjá Audible, Christoph Maria Herbst,  er svo frábær að maður hrekkur við og heldur að Hitler sé þarna sjálfur kominn. Íslenski textinn er lesinn af Guðmundi S. Brynjólfssyni. Hann er með albestu upplesurum sem ég hef hlustað á. 

Ég hef sem sagt lagt talsverða vinnu í þessa bók, fyrst hlustaði ég á einn kafla á íslensku og síðan á þýsku. Satt best að segja var þetta erfitt í bland, Hitler er óskemmtilegur karakter og ég var ekki viss um hvernig ég ætti að taka honum. Stundum langaði mig til að hætta við þessa vitleysu en ég er bæði þrjósk og þrautseig ef ég er búin að setja mér eitthvað fyrir. 

En nú er ég búin að sigra Hitler. 

Bókin fjallar um Hitler endurkominn, hann vaknar upp í heimi sem hann kann ekki á, hann er í skítugum einkennisbúningi, heimilislaus og allslaus. Góðhjartaður blaðasali miskunnar sig yfir hann og seinna tekur sjónvarpsstöð hann upp á sína arma.  Hann kann ekkert á þennan nýja heim og saknar samstarfsmanna sinna úr fyrra lífi. En Hitler er eldklár og nær ótrúlega fljótt að átta sig nægilega vel á aðstæðum til þess að ná völdum á ný. Hitler hefur ekkert breyst. Okkur gefst tækifæri til að skoða heiminn, okkur sjálf frá sjónarhorni Hitlers. 

Mér fannst þetta satt að segja afar óþægilegt og það hefur eflaust verið enn erfiðara fyrir Þjóðverja sjálfa, því að þeim beinist gagnrýnin. Bókin er fyndin á einhvern vandræðalegan hátt, maður veit aldrei almennilega hvort maður hafi leyfi til að hlæja. Það koma að vísu kaflar þar sem maður getur hlegið með góðri samvisku, t.d. þegar Hitler er að átta sig á undratækinu tölvu og þegar hann fer á október-bjórhátíðina í München. Það er afar óþægileg tilfinning þegar maður stendur sig að því að vera sammála Hitler í gagnrýni hans á nútímann. Réttlætingar hans á gjörðum koma illa við mann, ónotaleg fyndni. Verst þótti mér þó þegar mér fannst Hitler vera að tala beint inn í íslenska orðræðu. 

Ég ætla að láta þennan stutta pistil nægja en hvet alla sem áhuga hafa samfélagsmálum og sagnfræði að lesa bókina. Hún á líka sérstakt erindi til allra sem vinna við fjölmiðla.

Ég ætla ekki að reyna hér að svara áleitinni spurningu sem kemur upp fyrir, meðan og eftir lesturinn: Má svona? Þeirri spurningu verður hver að svara fyrir sig.


Verfallsfréttir frá Milton

 image

Þegar verkafólkið í Milton þurfti að horfast í augu við að það gat ekki framfleytt sér af kaupinu sem það fékk í verksmiðjunni, gerði það uppreisn. Vinnuveitandi þeirra hr. John Thornton sagði þeim að það væri ekki mögulegt að hækka launin því þá væri verksmiðjan ekki lengur samkeppnishæf. Útlend fyrirtæki myndu taka yfir markaðinn. Þau skyldu ekki láta sér detta í hug hug að gera verkfall, þá yrði kallað inn verkafólk frá Írlandi. Og þetta gekk eftir. Það var gert verkfall, það var blóðugt og herinn var kallaður til og írskt verkafólk tók við störfunum í verksmiðjunni. 

Þetta gerist í bók Gaskell,North and South frá 1855, ég er var að lesa verkfallskaflann í gær og í morgun þegar ég hlustaði á fréttirnar frá Straumsvík, hugsaði ég um hversu lítið hefur breyst. Enn eru rök atvinnurekanda þau sömu. Reyndar held ég að kjör verkafólks hafi batnað mikið en ég veit þó ekki hvort það ríkir meiri jöfnuður í samfélaginu. En North and South gerist í Bretlandi (Milton er tilbúið nafn í stað Manchester) en Straumsvík er hér og árið er 2016. Nú tíðkast að verksmiðjur og verkefni flutt til fólksins sem gerir litlar launakröfur og stjórnvöld eru ekki með íþyngjandi reglur og skattheimtu.  

Frú Gaskell vildi stuðla að réttlæti og mannréttindum í samfélaginu. Hún gerði það með skrifum sínum. North and South er í rauninni ástarsaga. Hún vissi að þannig skilaði sagan sér best til lesenda. 

Ég er ekki búin með bókina og ég hef að sjálfsögðu meiri áhuga á hvað er að gerast í Straumsvík en í Milton. Ég vona að verkamennirnir standi saman og sýni mátt             samtakanna.  Við þurfum á því að halda. 

Myndina tók ég traustataki af Wikipedíu, hún sýnir verksmiðjurnar í Milton. 

 

 


Ég hef valið mér hið góða hlutskipti

image

Nú, þegar hef lokið hlutverkið mínu á vinnumarkaði og ber ekki ábyrgð á neinum nema sjálfri mér, geri ég nákvæmlega það sem mig langar til. Og það er margt. Í raun kemst ég ekki yfir verkefnin sem ég set mér fyrir. Aðeins nokkur dæmi: Bókband, yoga, ræktun, Íslendingasögur og grúsk. Mestan tíma tekur þó skokk og bóklestur en nú hef ég fundið leið til að láta það fara saman. 

Ástæða þess að ég skrifa þennan pistil er ekki mont, heldur alvarleg pæling. Er ég að gera rétt, væri ekki nær að gera gagn. Ekki vantar verkefni í samfélaginu. Ætti ég ekki að nýta eitthvað af tímanum til að fylgjast betur með pólitík og reyna að hamla gegn niðurrifinu á opinbera kerfinu, sem komið hefur verið á fót til að hagsbóta fyrir almenning í landinu. Éig er í eðli mínu pólitísk. En ég er raunsæ. En ég læt mér nægja að fylgjast með og kýs að líta pólitíska virkni eins og ævistarfið. Ég er komin í frí og geysist inn í áhugamálaheim eins og kýr sem hleypt er út að vori. Það er svo margt skemmtilegt og tíminn hleypur frá mér. 

Allt í einu verður mér hugsað til þeirra Mörtu og Maríu (Lúkas 10:38-42). Marta klagaði í Jésú þegar systir hennar settist við fóskör meistarans og hjálpaði ekki til við heimilisstörfin. Jésú gaf þá út yfirlýsingu sem enn gildir en er þó enn jafn margræð. "María hefur valið sér hið góða hlutskipti". En hver er meistari dagsins í dag, þegar Guði hefur verið skipt út fyrir Mikla  hvell? Ég hef hreint engan áhuga á geimvísindum, nema ef vera skyldi í fagurfræðilegu tilliti. Og hvar standa hin andlegu málefni þegar heilarannsóknir taka við af að mannlegri dómgreind. Ég stoppa hér því þessi skrif eru að þróast út í einhverja vitleysu.

Minn meistari eru skáldin, lifandi og dauð.  Ég sit við fótskör þeirra, það er mitt góða hlutskipti. Eg hef lesið og hlustað á heil ósköp af skáldskap og alltaf verð ég jafn heilluð þegar skáldið nær mér inn í sinn heim, sem oftast er bærilegri en minn, þótt oftar sé fjallað um styrjaldir, veikind og vandamál í samskiptum fólks en um friðsemd, velmegun og hamingju. Í skáldskapnum er þetta allt miklu bærilegra, því það er ekki í okkar raunalega raunheimi. 

Síðustu þrjá daga hef ég verið að lesa bók frú Gaskell, North and South, um vinnudeilur í Milton (Manchester) um miðja 19.öld. Jafnframt hef ég verið að lesa bók Timur Vermes, Er ist wieder da, 2012 (Aftur á kreik). Bókin fjallar um okkar heim frá sjónarhóli hins upprisna Adolfs Hitlers . Hann er komin aftur á kreik. Satt best að segja eru þessar tvær bækur talsvert ólíkar. 

Tilbreyting er góð, ég flyt mig á milli heima með hjálp skáldskaparins. Ég veit nefnilega að þar er ég gestur og þarf ekki að gera neitt.

Það er gaman að vera í þessu langa fríi og ferðast um í tíma og rúmi.

Og ekki vantar bækurnar í heiminum. 

 


Samanburðarhamingjufræði

image

Síðan ég komst í þær eftirsóknarverðu aðstæður að ég get lesið eins og mig lystir, hef ég dvalið meira og minna á 19. öldinni. Af og til bregð ég mér yfir aldamótin aftur á bak inn í 19. öldina. Reyndar er ég svo samviskusöm að mér finnst að ég þurfi að lesa eitthvað af því sem er að koma út núna, þá dríf ég í því eins og hverju öðru verkefni, til að komast sem fyrst til baka inn í 18. öldina. Mér finnst ég eiga þar heima, þar líður mér vel. 

Þetta er svona, ég er ekki að búa það til, til að reyna að vera eitthvað merkileg. Reyndar skammast ég mín dálítið fyrir hvað ég er sátt við 19. öldina, því ég veit að lífskjör þorra fólks á 19. öld voru síst betri en nú, svo vægt sé til orða tekið. Lífskjör á Íslandi voru upp til hópa bág ef undan eru skildar fáeinar valdaættir. En ættirnar sem að mér liggja voru ekki ein af þeim, svo trúlega hefði ég alla tíð þurft að vinna fyrir aðra ef ég hefði fæðst á þessari öld sem ég hrfst svo af. 

En ég er ekki stödd á Suðausturlandi heldur í Cranford í samnefndri sögu Elisabeth Gaskell (1810 - 1865). Cranford er tilbúningur hennar, smábær þar sem fyrst og fremst lifir millistéttarfólk, og aðallega konur. Lífið er tilbreytingarlítið, stendur nánast í stað. Þessir tímar einkennast af stéttaskiptingu og misskiptingu auðs. Konurnar í Cranford fara vel með og lafa í því sem til er ætlast af þeim sem miðstéttarfólki. Stéttaskiptingin er mikil og hún þykir eðlileg. 

Munurinn á fólkinu í Cranford og fólkinu mínu, er að söguhetjur bókarinnar vinna ekki, það gerir þjónustufólkið. Ég ætla ekki að hætta mér lengra út í þennan samanburð en langar að draga fram það sem er líkt hér og þar og greina má miklar framfarir. Þá ber hæst (í mínum huga) barnadauðann. Hann kom við hjá bæði ríkum og fátækum, bæði hér og í Bretlandi. Þó grunar mig að hann oft gert sér ferð til efnaminna fólks. Annað sem er áberandi  betra nú en þá, eru réttindi kvenna og líklega mannréttindi í heild sinni.

Mig langar til að geta sagt það sama um stéttaskiptinguna en hika. Kjör fólks og tækifæri í lífinu hafa ekki jafnast í takt við réttindi þeirra. Í stað stéttaskiptingar á grundvelli ættar og tignar, er komin auðstétt, sem leikur sér að peningum.

Ég sleppi því hér að tala um tæknilegar framfarir, sem nú er eðlilegur hluti af lífi okkar, því ég hef sterka tilfinningu fyrir því að nær öllum tæknilegum framförum fylgi annmarkar, gallar, sem við sitjum uppi með. Oft ómeðvitandi. Matvaran er verri og óhollari, bættum samgöngum fylgir óhóflegt stress og bráðlæti. Fatnaður er óvandaður og oft ljótur ef undan eru skildar íþrótta- og útivistarvörur. Af hverju er ekki hægt að fá gallalaust framfarir? En er fólk hamingjusamari nú en þá. 

En auðvitað er þessi aðdáun mín á 19.öldinni ekkert annað en flótti og uppgjöf. Í raun óttast ég um að það sem unnist hefur til hagsbóta fyrir alþýðu. Til hvers eru mannréttindi og framfarir í læknisfræði ef við ætlum ekki að nýta það fyrir fólkið sem þarfnast læknisþjónustu?

Í Cranford gerði læknirinn aðgerðina á manni við kertaljós sem konurnar gáfu honum og hann setti kefli í munn sjúklingsins, svæfingar og deyfingar voru ekki á hans valdi. Nú fá sjúklingar að þjást heima hjá sér á biðlistum með aðstoð verkjalyfja, svo þeir æpi ekki. 

Er nema von að ég efist um gildi framfara? 


Nám og kennsla: Hvað situr eftir?

image

"Þið verðið ekki þreytt af því sem þið gerið krakkar mínir, þið verðið þreytt af því sem þið gerið ekki, því sem þið eigið eftir að gera." Þetta sagði minn gamli skólameistari við okkur nemendur sína í ræðu á Sal (það var kallað svo)í MA. Þetta var einhvern tíma á milli 1960 og 1964 og ég sé hann enn fyrir mér, hvernig hann stóð, ekki hár í lofti og lagði áherslu á orð sín með því að núa saman höndunum á sinn sérstaka hátt. Ég er ekki alveg viss um að hann hafi sagt "krakkar", kannski sagði hann nemendur. En ég vissi það sem hann sagði var rétt. Þórarinn kenndi mér aldrei mikið en ég var svo heppin að læra hjá honum latínu, þennan eina vetur sem ég lærði latínu. Hann var góður kennari. En nú hefur latínan skolast burt en myndin af þessum vitra manni stendur eftir. 

Annað dæmi um nám og gleymsku er úr Kennaraskólanum (1968 til 1969)og þá stóð annar maður í pontu, Broddi Jóhannesson. Broddi var þá skólastjóri og kenndi okkur lítið. Ég held að hann hafi ekki haft neina tíma á stundaskrá í okkar bekk. En hann talaði oft við okkur og það sem ég man best úr kennaranáminu er það sem Broddi sagði. Einhverju sinni tók hann að sér að kenna okkur inngang að sálarfræði, en Broddi var sjálfur sálfræðingur. Hann talaði um skilningarvitin. Þegar hann hafði lokið umfjöllun um þessi klassísku skilningarvit,sjón, heyrn, ilman, smekkur og tilfinning, bætti hann við að sér fyndist að það mætti bæta tveimur skilningarvitum við. Það var skynjun á náttúru og skynjun á list. Síðan rökstuddi hann mál sitt og það gerði hann á svo sannfærandi hátt að ég trúði honum og trúi enn. Þannig á minn góði skólastjóri, sinn þátt í að ég hef leitast við að halda þessum tveimur skilningarvitum opnum. 

En af hverju er ég að segja frá þessu núna?

Ég held að svarið sé tvíþætt. Annars vegar langar mig til gefa öðrum gjöf sem mér var gefin. Hins vegar langar mig til að benda á að nám og kennsla er flókið fyrirbæri.

Eitt er ég þó viss um. Kennarar sem gefa af sjálfum sér eru oftast góðir kennarar. 

Myndin er sótt í Carminu. Hún er eftir Jóhönnu Bogadóttur 

 


Cranford: Ferðalag til baka í tímanum

image

Eftir að hafa lesið Ruth, gat ég ekki slitið mig frá Elisabeth Cleghorn Gaskell (1810 - 1865). Í allri umfjöllun um hana er mælt með Cranford sem hennar bestu bók svo ég valdi Cranford. 

Cranford er allt öðru vísi saga en Ruth. Í fyrstu er eins og það sé engin aðalpersóna og framvinda sögunnar er afar hæg. Ég hlusta meðan ég skokka og ég skokka hægt svo þetta passar mér ágætlega, hugsa ég, og skokka áfram. Smám saman næ ég sambandi við lífið í Cranford.

Sögumaðurinn, Mary Smith, er gestur í bænum Cranford og lýsir lífinu þar sem hún sér með gestsauga, sýnist mér. Og þó, hún lifir sig kannski of mikið inn í það sem er að gerast. Það sem gefur frásögninni undarlegan blæ, er að maður veit svo lítið um Mary annað en að hún er ekki heimamaður í Cranford. 

Lífið í Cranford stendur kyrrt. Fólkið sem býr þar lifir af litlum efnum, en þetta eru þó ekki fátæklingar í bókstaflegum skilningi, heldur miðstéttarfólk sem berst í bökkum við að lifa miðstéttarlífi. Ég var nokkra stund að átta mig á að söguþráðurinm liggur aftur á bak en ekki áfram. Ævintýrin hefðu getað gerst en urðu ekki. Sorglegt. 

Persónur eru vel dregnar og trúverðugar og lífsháttum fólks er svo vel lýst, að það er eins og maður sé gestur á blönku miðstéttarheimili, eins og sögumaðurinn. Ég kann ekkert að haga mér innan um þetta fólk. 

Bókin kom út á árunum 1851 - 1853 sem stakar sögur eða þættir í tímariti. Síðar voru þessar frásagnir gefnar út sem bók. Það var því ekkert skrýtið að ég ætti erfitt með að skynja framvindu. 

Eftir þessari sögu hefur verið gerð þáttaröð sem ég brenn í skinninu að útvega mér. Og svo langar mig að fara á slóðir frú Gaskell og skoða húsið í Manchester,  sem hún skrifaði í síðari hluta rithöfundarferils síns. 

Það verður nóg að gera. 

Myndirnar eru fengnar að láni á Wikipedíu.

image

 

 


Tilvistarlegar vangaveltur Einars Más Guðmundssonar

 Hundadagar:Einar Már Guðmundssonimage

Ég las ekki bókina, heldur hlustaði ég á Einar Má lesa hana. Ég er nefnilega farin að sjá verr, telst lögblind. Þess vegna hef ég aðgang að Hljóðbókasafninu. Ég er heppin. 

Reyndar finnst mér í flestum tilvikum skemmtilegra að lesa en hlusta en það þýðir svo sem ekkert að vera að velta þessu fyrir sér. En í þessu tilviki er þetta lán í óláni, því það er svo gaman að heyra Einar lesa eigin texta. Reyndar er ekki eins og hann sé að lesa, það er eins og hann sé að tala við mann. Stundum langar mig til svara, leggja orð í belg.

Einar er að velta fyrir sér heimspekilegum og tilvistarlegum spurningum, sem maður veit að það eru ekki til svör við. Það er samt óhjákvæmileg nauðsyn að spyrja. 

Það mætti líka segja að Einar sé að velta fyrir sér gangi sögunnar í ljósi nokkurra einstaklinga, skoða hvernig örlagaþræðirnir liggja og fléttast saman. 

Aðalpersóna þessarar sögu er Jörundur Hundadagakonungur. Hann er lykillinn. Jörundur, þessi draumóramaður, hann er veiklunda en snjall. Honum er borið á brýn að vera lýðræðissinni og byltingarmaður en er sjálfur fangi eigin lasta, spilafíknar og áfengissýki. Í lífinu er hann oft með góð spil á hendi en hann spilar illa úr þeim. Aðrar persónur sem Einar leiðir fram, eru Jón Steingrímsson eldklerkur og Finnur Magnússon leyndarráð með meiru. Og svo auðvitað stúlkurnar Guðrún Einarsdóttir Johnsen og Nora Corbett, konan sem hann giftist í útlegðinni.

Kannski er hægt að flokka bókina sem sögulega skáldsögu. Og ef maður les hana sem slíka, minnir tónninn í henni á Svartfugl Gunnar Gunnarssonar. Ef maður les hana sem glæpasögu, þeir eru margir glæpirnir í þessari bók, fer maður að velta fyrir sér hverjir séu mestir glæpamenn, hinir dæmdu eða stjórnvöldin sem setja lögin og framfylgja þeim. Reyndar þjónar engum tilgangi að flokka bækur, en hugurinn er alltaf að flokka.

Bækur eru til að njóta þeirra og til að spegla sig og samtíð sína í þeim.

 


Ég kveð Ruth með söknuð í hjarta: Takk frú Gaskell

image

Ég hef nú lokið við sögu Elisabeth Cleghorn Gaskell, un ungu stúlkuna Ruth Hilton. Seinn Ruth Dennigh. Þetta er ein af stóru bókunum í lífi mínu. Og auðvitað er hún frá 19. öldinni en ég dvel þar meira og meira. 

Sagan segir frá saumalærlingnum, eða réttara sagt saumaþrælum Ruth. Hún er 16 ára þegar sagan hefst, munaðarlaus sakleysingi. Með sakleysingi á ég við að hún er vel meinandi og á sér einskis ills von. Hún er trúuð, samviskusöm og afakr falleg. Aðbúnaður kvennanna á saumastofunni þar sem hún vinnur og býr, minnir á lýsingar sem við fáum nú um slíkan atvinnurekstur í Asíu. Hún kynnist af tilviljun ungum manni af hærri stigum, hann táldregur hana og svíkur síðan. En Ruth er heppinn, henni er bjargað af góðu fólki. Hjá þeim elur hún son, en af slíkar barneignir brjóta í bága við hræsnisfulla guðhræðslu Victoríutímans. Benson, sem er að vissu leyti fatlaður vegna slyss sem hann varð fyrir sem barn, tekur Ruth að sér með aðstoð systur sinnar. Benson er prestur en systir hans annast heimili þeirra. 

Velgerðarenn hennar láta hana skipta um nafn og kynna hana sem fjarskylda frænku sem hefur misst mann sinn. Þau eru bæði mjög trúuð en en andstætt tíðarandanum telja þau að fyrirgefning og hjálp séu meira í anda Krists en fordæming og útskúfun. Þetta gengur allt vel í fyrstu Ruth sem er ekki bara falleg, heldur líka vel gefin, menntast með hjálp vina sinna og fær síðan vinnu sem heimiliskennari á góðu og vel stæðu heimili. En "syndir" fortíðarinnar elta hana uppi, með hjálp slúðurbera. Fína fólkið getur ekki látið fallna konu kenna börnum sínum og Ruth missir vinnuna. 

Ég ætla ekki að rekja sögunna lengra. Hún er spennandi og falleg. Mér finnst merkilegt að lesa um fólk þessa tíma, sem hafði unun af blómum, náttúru og gönguferðum. Fólki sem talaði um rétta og ranga breytni. Fólki með tilfinningar. 

Mér verður hugsað til okkar 19. aldar höfunda Jóns Thotoddsen (f. 1818) og Torfhildar Hólm (f. 1845). Ég las mér Jón Thoroddssen til ánægju sem barn og reyndi að lesa Torfjildi en náði ekki sambandi. Kannski ætti ég að gera aðra tilraun. Hún var prestsfóttir og gift presti eins of frú Gaskel.

Það skýtur kannski skökku við að ég trúleysinginn skuli hafa gaman að lesa slíkar trúarbókmenntir. Enð trúarbrögð voru hluti af pólitík og heimspeki þess tíma og það er æfingavert. Hvað trúarbrögð standa fyrir í hinum kristna heimi veit ég ekki. Það er önnur saga.

Einar Már Jónsson sagnfræðingur sækir efni til Gaskell í bók sinni Örlagabotgin, því hún þykir áreiðanleg þegar kemur að því að lýsa samtíma sínum. 

Ég sakna Ruthar en ég hef þegar byrjað á annarri bók eftir þennan góða höfund.

Myndin er frá saumastofum þessa tíma, sótt á netið. 


Skarphéðinn í brennunni: Uppgjör hjá tannlækni

 image

Í dag þegar ég var sest í stólinn hjá tannlækninum hugsaði ég um Skarphéðin Njáls- og Bergþóruson. Það hafði ekki bara farið fylling, heldur króna og krónur tannlækna eru dýrar krónur og eiga ekkert sameiginlegt með íslensku krónunni nema nafnið. Hvað skyldi Skarphéðni hafa gengið til þegar hann hirti jaxlinn úr Þráni Sigfússyni eftir að hann klauf á honum húskúpuna niður svo sá í jaxlana, hugsaði ég. Þetta gerði hann eftir stökkið fræga, langstökk á ís, heimsmet sem enn stendur. 

Ég er nefnilega nýbúin að sjá Njálu í Borgarleikhúsinu og ég hef ekki gert upp við mig, hvað mér finnst um verkið. Ég ákvað að hugsa um Njálu og gera upp hug minn. Því hvar er betra að gera upp hug sinn, en gapandi í undur þægilegum stól á bjartri tannlæknastofu? Slakaðu alveg á sagði tannlæknirinn og brosti til mín á bak við grímuna.

Ég var ekki búin að gera upp hug minn gagnvart sýningunni og mér fannst það heigulsháttur og síst við hæfi. Njála hefur löngum verið í uppáhaldi hjá mér, og pabbi minn hafði einnig á henni mikið dálæti. Sýningin hafði fengið mikið lof en ég óttaðist að mér yrði seint gert til hæfis og var fyrirfram ákveðin að vera opin, umburðarlynd og láta mér ekki leiðast. Ég læt mér aldrei leiðast í leikhúsi. 

Á leiðinni í leikhúsi ræddum við, ég og maðurinn minn, hvaða atriði yrðu plokkuð út og notuð. Það verða ásta og kynlífsmál Unnar og Hrúts sagði ég. Og svo vona ég að það verði sagt frá gerningaþoku Svans á Svanshóli. Galdramenn eru í tísku. Lengra komumst við ekki, allt í einu erum við komin í leikhúsið og hlýðum á fyrirlestur Guðna Kolbeinssonar, þar sem hann segir okkur allt sem við vitum fyrir um Njálu. Mig langaði til að túlkun á hinu magnaða kvæði Darraðar um stríð, það myndi sóma sér vel sem ballet. Og svo myndi Gunnar í haugnum gera sig vel í leikverki. 

Og svo hófst leikritið og við vorum ekki svikin um kynlífsvandræðin. Þegar ég var spurð í hléi gat ég það eitt sagt að leikararnir eru svo sannarlega að vinna vinnuna sína. Að sýningu lokinni var ég enn óviss hvað mér fannst. Leikararnir fóru á kostum þegar þeir fengu að segja fram texta Njálu. Þá var mér skemmt. Mér var minna skemmt þegar kom að táknrænum tilburðum við að túlka söguna og spegla hana í okkar tíma. Ég er nefnilega orðin hundleið á bjórdósum og  snjallsímum í leikhúsuuppfærslum. Plastgínurnar og plastvopnin virkuðu ekki heldur fyrir mig. Ég saknaði þess að kórinn skyldi ekki syngja kvæði Hannesar Hafstein (lag Helgi Helgason), Skarphéðinn í brennunni og í staðinn syngja Brennið þið vitar eftir Davíð Stefánsson (lag Páll Ísólfson). En ég sá að aðrir skemmtu sér. 

Ég er illa skóluð í að horfa á ballet enda var ég lengi að átta mig á löngu, fyrir mig,langdregnu atriði, þar sem fólk veltist og barðist um, í að mér fannst eins og skrokkar í kjötpokum. Ég hef nefnilega unnið í sláturhúsi. Þegar ég áttaði mig á því að þarna var verið að túlka kristnitökuna skammaðust ég mín fyrir sveitamennsku mína. 

Þetta var ég allt að hugsa hjá tannlækninum og ég skildi líka dálæti Skarphéðins á jöxlunum. Hann hefur séð fyrir dýrleika þeirra þótt þeir nýttust honum aldrei á þann veg. En hann nýtti þá þó á sína vísu, þegar hann þurfti að hefna fyrir brigslyrði Gunnars Lambasonar, þegar hann spurði hann þar sem hann stóð tepptur við gaflað, hvort hann gréti. Græt ég ei sagði Skarphéðinn, en súrnar í augum og dró jaxlinn upp út pússi sínu og kastaði að Gunnari Lambasyni svo augað lá úti á kinn. 

Þegar ég var búin í stólnum, hafði ég gert upp hug minn um leikhúsverkið. Mér leiddist ekki, fannst bara of mikil læti og viðurkenndi fyrir sjálfri mér, að mér verður seint gert til hæfis þegar kemur að Njálu. Njála er ekki hástemmd bók. Menn segja hug sinn í knöppum setningum og oftar en ekki má greina það sem á útlensku kallast understatement. Fyndnin felst í því ósagða.

Þegar kom að því að borga reikninginn hjá tannlækninum, voru viðbrögð bankans við plastkortinu mínu ansi neikvæð. Það mál verður leyst og ég er ánægð með þessa dvöl mína í stólnum, því mér tókst að gera upp hug minn um Njálu. 

Bókin er betri en leikhúsverkið. Njála stendur alltaf fyrir sínu. Það mætti gera mörg leikrit eftir þeirri bók. Vonandi er þetta bara byrjunin.

 


Samhliða lestur: Einar Már Guðmundsson og Elizabeth Cleghorn Gaskell

image 

Ég lifi tvöföldu lífi. Þegar ég er úti við, hlusta ég á útlendar bækur í símanum mínum, inni hlusta ég á íslenskar bækur í Ipad. Nú vill svo til að báðar bækurnar sem ég er að hlusta á, gerast á 19. öld, önnur teygir sig þó inn í þá 18. Útlenda bókin er eftir frú Elizabeth Cleghorn Gaskell (f. 1810- d. 1865). Hún heitir Ruth (kom út 1853), íslenska bókin er eftir Einar Má Guðmundsson(1955) hún er um Jörgen Jörgenson. Hann kallar hana Hundadaga. Reyndar fjallar bókin ekki bara um líf þessa sérkennilega manns, hann speglar líf hans í lífi Jóns Steingrímssonar eldklerks. Um leið speglar hann átakasögu Jörundar í náttúruhamfarasögu Jóns. Þessir tveir menn mætast ekki í tíma og rúmi, Jón deyr 1791 en Jörundur fæddist 1780 og lést 1841. Ártöl eru mikilvæg. 

Þar sem ég er að lesa þessar tvær bækur samhliða, fer ekki hjá því að ég beri þær saman. Þær segja jú báðar frá lífi fólks á 19. öld. En heimur þessa fólk snertist ekki nema ef vera skyldi í kristilegum vangaveltum. Jón Steingrímssonar og hefur sinn starfa að þjóna Guði. Ruth hefur verið táldregin og svikin og á fárra kosta völ.  Hún er barnung og á engan að.  En hún er lánsöm. HGott fólk kemur henni til bjargar. Það er mikil trúarhlýja í þessari bók. Ég vil ekki segja trúarhiti, því öll framsetningin er hlý og yfirveguð. Guð er góður, ekki refsandi. Trúin er hjálpartæki fólksins um hvernig best sé að haga lífi sínu. "Hvað myndi frelsarinn vilja að þú gerðir" segir frú Benson þegar hún leiðbeini Ruth. Jón Steingrímsson talaði oftar en ekki við Guð í sínum vandræðum og margir trúðu því reyndar síðar að hann hafi beinlínis unnið kraftaverk og stoppað hraunstraum.   

Reyndar stóð alls ekki til að fara út í allan þennan samanburð. Það sem ég ætlaði að skrifa um, er það sem Einar Már segir. Það eru til tvenns konar bækur, segir hann. Þær sem gerast innanhúss og hinar sem gerast utanhúss. Þetta passar mér vel, mig hefur vantað þessa skilgreiningu. Bók Einars Más, Hundadagar utanhúss, saga frú Gaskell er innanhúss. Einar fer með sitt fólk á milli heimsálfa, Gaskell lætur sér nægja að ferðast með sitt fólk innan Bretlands. Það sem aðskilur þessar sögur þó meira en nokkuð annað, er að önnur gerist í kvennaheimi en hin í heimi karla. 

Mér finnst gaman að hlusta á Einar Má, en hann les bókina sjálfur, og það er eins og hann sé að tala við mann. Og ég verð að játa, að mér fannst þetta aldrei vera saga, mér fannst bara að Einar sé að spjalla um þetta fólk og þennan tíma. Ruth er aftur á móti saga, þar sem lesandinn er fluttur til í tíma og rúmi og fær nú óvænt að upplifa hvernig það er að vera barnung, fátæk,  einstæð móðir í Bretlandi á 19. öld. En Ruth er heppin, hún kynnist góðu fólki og hún er skynsöm og guð er miskunnsamur. 

Þessar hugleiðingar eru reyndar varla tímabærar, ég hef enn hvorugi bókinni lokið. En skyndilega kom sú hugsun til mín, að það er betra að skrifa um bækur meðan maður er að lesa þær, heldur en á eftir. Á meðan maður er að lesa er hugurinn á fullu, þegar lestri er lokið er málið afgreitt og hugurinn hægir á sér. 

Stundum þarf maður ekki að lesa lengi til  vita að bók sé góð. Nú er ég komin það langt í lestri beggja þessara bóka, að ég get mælt með þeim. Þær eru göðar, skemmtilegar og fróðlegar.

 

Myndin er af frú Gaskell 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 190383

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband