Færsluflokkur: Bloggar

Bjargræði: Hermann Stefánsson

IMG_0232Bjargræði

Bók Hermanns Stefánssonar, Bjargræði, er óvenjuleg bók. Ég hef að minnsta kosti aldrei lesið bók sem líkist henni. Ekki svo ég minnist. Bókin er eitt langt samtal Bjargar Einarsdóttur (Látra Bjargar) við smiðinn Tómas. Hann leggur reyndar ekkert til þessa samtals, svo eiginlega er þetta eintal. Hún spyr spurninga og svarar þeim sjálf og slær ýmsu fram en Tómas þessi gerir engar athugasemdir. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hver tengsl þeirra eru, en Tómas hefur mælt sér mót við hana á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur.

Auðvitað veit ég að þetta er hugarburður, Tómas og Björg Einarsdóttir geta ekki hafa hist öðru vísi. Látra- Björg er fædd 1716 og deyr 1784, en sagan gerist núna.

Allt sem lesandinn veit um Tómas þennan er úr þessari bók en Látra – Björgu kannast lesendur við, mismikið þó. Samt veltir lesandinn fyrir sér að ráða í það hvert raunverulegt samband þeirra sé og hvað verði úr því. Það er galdur þessarar bókar.

Björg fræðir okkur jafnframt um hver hún raunverulega var og vill leiðrétta sögusagnir um sig. Sögusagnir sem m.a. Gísli Konráðsson hefur komið af stað. Um leið og hún ræðir um sig og samtíð sína, ber hún hana saman við okkar tíma. Sá samanburður er ekki alltaf nútímanum í hag.   Þessi samanburður er kjarni bókarinnar. Finnst mér.

Líklega hefur þú lesandi minn skynjað, að mér finnst þetta stórgóð bók en það er samt vissara að taka það fram.

Það sem mér finnst best við hana er að Björg miðlar okkur af viðhorfi sínu til lífsins, hvað er einhvers virði og hvað er fánýti. Hún er stóryrt og hún er ekkert að skafa utan af hlutunum. Gildismat hennar er manneskjulegt og hlýtt.

Þessi bók kallar fram notalegheit, yljar manni um hjartaræturnar. Ef hún væri kvikmynd myndi hún flokkast sem feel good mynd.

Ef ég hef skilið bókina rétt, hefur Tómas boðað Björgu til sín á kaffihúsið af því hann á í vanda og hún er kraftaskáld. Hún á að leysa vanda hans með göldrum. En Björg er klók. Hún hefur ekki til einskis upplifað móðuharðindi. Hún vill fá eitthvað fyrir sinn snúð. Björg á líka erfitt, hún á sér leyndarmál sem þjakar hana. Það er ekki

á hennar færi að leysa það en það getur Tómas gert. Það er best að kjafta ekki frá öllu erf einhver á eftir að lesa bókina.

Meðan ég var að lesa, hugsaði ég um að bókin væri svo góð að Hermann yrði örugglega frægur í útlöndum. Um leið hafði ég áhyggjur af því að bókin væri vandþýdd, veruleiki hennar er svo gegníslenskur. Það mætti kannski útskýra í formála eða neðanmáls hvernig ákvæðaskáld unnu, en hvernig á að þýða kveðskap Bjargar á önnur tungumál? Þetta gæti enginn þýtt nema Edduþýðandinn Lars Lönnroth!

Svona lagað lét ég trufla mig. En svo sá ég að vandamálið var hvorki mitt eða á mínu færi að leysa það, svo ég hélt áfram að láta mér líða vel.

Það er mikill munur á Bjargræði og bók Steinars Braga sem ég las næst á undan þessari bók, hún gæti flokkast sem feel bad bók. Þó ég beri sögurnar saman í huga mér er ég ekki að segja að önnur sé betri en hin. Samanburður nýtist mér til að bera saman og greina eiginleika en ekki til að raða í virðingarstiga.

Auk alls þessa er bókin alveg einstaklega falleg. Eitthvað fyrir mig með allan minn bókbandsáhuga. Þótt ég yrði að sætta mig við að hlusta á bókina vegna sjónskerðingar minnar, hafði ég hana hjá mér og handlék hana. Hún er lítil um sig og, mjúk og þægileg að hafa í hendi. En það er bót í máli að bókin er afar vel lesin. Lesari er Ásdís Thoroddsen.

 


Eins og í draumum mínium: Um smásögur Steinars Braga

img_2309.jpg

Eins og draumur

Ég er ósátt við sjálfa mig. Ég stend ekki við mitt eigið loforð, að skrifa um hverja einustu bók sem ég les til að finna út hvað mér finnst og rökstyðja fyrir sjálfri mér. Ég er búin að lesa 3 bækur og fæ mig ekki til að skrifa.

Allt er þetta Steinari Braga að kenna, ég veit ekki hvað mér finnst og kann ekki að færa rök fyrir því. Ég hef sem sagt lokið við smásaganasafnið, ALLT FER, 19 mislangar sögur sem ómögulegt er að finna nokkurn samnefnara fyrir. Eða mér tókst það alla vega ekki. Ég veit heldur ekki hvort mér líka þær, margar eru fráhrindandi, ýmist út frá efni sögunnar eða vegna þess hvernig hún er sögð.

En..., nær allar sögurnar koma við mann og kalla fram viðbrögð og maður trúir þeim. Maður trúir þeim jafnvel svo vel að maður heldur að höfundurinn byggi á eigin reynslu, sé gerandi eða þolandi þess sem gerist. En auðvitað veit ég betur, sumar sögurnar minna á 1001 nótt og eftir lestur einnar sögunnar, Úrræði ríkisstjórnarinnar á fasteignamarkaði, varð mér óglatt. Langaði að æla. Ein sagan, Kólrfur minnti, mig á rússneska þjóðsögu. Hún er afar óhugnanleg.

Margar sögurnar eru eins og draumur, þ.e. fylgja lögmálum draums. Draumar eru oft fullir af ósamræmanlegum hlutum sem virðast eðlilegir í draumnum en ganga ekki upp í heimi vakandi manns. Flestir draumar eru líka óþægilegir, vandræðalegir og jafn vel ógnandi (alla vega mínir draumar). Fáir draumar eru ljúfir. Hugmyndin um ljúfa drauma eru trúlega komin frá dagdraumum. Um allt þetta hugsaði ég meðan ég var að lesa bók Steinars Braga.

Í mörgum sögum er fjallað um náin samskipti karls og konu, hvernig þau tala saman og hugsa. Steinari Braga lætur afar vel að lýsa þessu og enn hugsa ég að hann sé að segja sanna sögu. Og nú spyr ég sjálfa mig: Er það ekki til marks um að sagan sé góð, þegar maður trúir henni, finnst hún vera sönn?

Lokaorð

Ég veit ekki almennilega hvað mér finnst um þessar sögur, en það tók á mig að lesa þær en þær sitja í mér. Ég mun lesa þær aftur. Ef ég tæki sjálfa mig fullkomlega alvarlega, myndi ég skrifa um hverja einustu sögu. Einungis þannig er hægt að skrifa um smásögur.

 

 


Ólafur Hildisson: Ekki með silfurskeið í munni

IMG_0173

Ekki með silfurskeið í munni

Eins og oft áður ætla ég að skrifa um lestur. Minn lestur. Ég hef verið með fjórar bækur í takinu og engin þeirra er beinlínis til að auka mér lífsgleði. Samt les ég.

Bækurnar eru:

Hershöfðingi dauða hersins eftir Ismail Kadare.  Hana hef ég lokið við. Stórgóð bók.

Sturlunga saga (útgáfa Guðna Jónssonar).

Allt fer, smásögur eftir Steinar Braga.

Auðnaróðal eftir Sverri Jakobsson (í annað sinn).

Í þessum pistli ætla ég að skoða ævi Ólafs Hildissonar, en hann kemur við sögu í Sturlungu. Sturlunga er nefnilega ekki bara ein stór saga, heldur margar smærri sögur, sem tengjast. Í bókmenntaumræðu nútímans myndi hún trúlega vera kölluð sagnasveigur. Ólafur kemur við sögu vegna tengsla sinna við ógæfumanninn Má Bergþórsson. Sveinninn Ólafur Hildisson var ekki fæddur með silfurskeið í munni. Faðir hans hafði verið dæmdur sekur skógarmaður og drengurinn þá færður til féránsdóms og dæmdur, barnið, fjórðungsómagi við Breiðafjörð til 12 ára aldurs. Eftir það var hann sjálfs sín, en einkum er sagt af dvöl hans hjá Þorgilsi Oddasyni.

Unglingurinn Ólafur Hildisson virðist hafa verið ólánlegur  unglingur og óöruggur um ráð sitt. Að ráði Þorgils fer hann norður á strandir til að leita sér vinnu. Ólánið eltir hann. Hann ræður sig á skip hjá Má Bergþórssyni. Að róðrum loknum neitar Már ekki bara að borga honum hlut sinn, hann leggur líka hald á fátæklegar eigur hans. Ólafur fer til Þorgils og ber sig upp við hann. Þorgils ræður honum að fara norður  á Strandir og ganga eftir hlut sínum og lánar honum öxi. Þar veitti hann Má áverka en ekki fékk hann hlut sinn.

Ein af litlu sögunum í Sturlungu er um fólkið í Ávík á Ströndum. Þetta er alþýðufólk  sem Már níðist á. Málin, sem af því spunnust, voru talin upphaf málaferla þeirra Þorgils og Hafliða. En ég ætla ekki að rekja þá sögu hér, heldur segja frá unga manninum Ólafi Hildissyni.

Ólafur þarf að gjalda fyrir áverkann sem hann veitti Má, þegar hann var að leita réttar síns vegna ógoldinna launa og upptöku eigna. Sátt (ef sátt skyldi kallast) næst um málin, en þar var  Ólafi gert að fara af landi burt.  Ekki verður af því , óvinir hindra för hans. Þegar hann hyggst  sigla er hann gerður afturreka. Og enn leitar hann til Þorgils því í sáttinni, sem náðst hafði,  voru ákvæði um að Ólafur væri frjáls þegar hann væri með Þorgils og  í landareign hans. 

Hinn ólánlegi Ólafur virðist nú hafa mannast nokkuð, því nú er sagt frá afrekum hans  í „ leikjum“ . Þar stendur hann sig  vel, jafnvel svo vel að undan er kvartað. Sá sem ekki þoldi að tapa fyrir Ólafi hét Grímur Snorrason. Sá tók þetta svo nærri sér að hann leitaði ráða hjá Hafliða Mássyni (föðurbróður Más óvildarmanns Ólafs ) og enn var fjandinn laus. Það stefnir í ógæfu. Grímur sem var nágranni Staðarhólsmanna kvartar undan ágangi hesta þeirra á sitt land. Ólafur sem átti að gæta hesta Þorgils fer áleiðis með honum til að ná í hestana. Í þeirri ferð ginnir hann Ólaf út úr landareign Þorgils (þar sem Ólafur naut friðhelgi), svíkst síðan að honum og vegur hann.

Þetta er litla sagan um Ólaf Hildisson, sem var fjórðungsómagi eftir að faðir hans hafði verið dæmdur sekur skógarmaður. Ekki kann ég að skýra það frekar en liggur í orðinu og hef ekki hugmynd um framkvæmdina á svo víðfeðmum aðgerðum fyrir einn niðursetning. En það sem sló mig, þegar ég hafði tekið saman þessa stuttu frásögn, er að þarna eigast við  þrír ungir menn sem allir hafa misst föður sinn. Ólafur missti sinn við dóminn, Má hafði verið komið í fóstur hjá Þórði Rúfeyjaskáldi, sem hann launaði uppeldið með því að drepa. Hjá mér vaknar spurningin: Hvað hafði Þórður áður gert barninu? Grímur Snorrason hafði misst föður sinn í hörmulegu slysi. Hann verður síðar fyrir því að tapa fyrir Ólafi og félögum og er hafður að háði og spotti.

Það hefur aldrei verið auðvelt að vera ungur, þótt menn tali gjarnan um gleði æskuáranna. Mér sýnist að allir ungu mennirnir í þessari frásögn hafi átt erfiða ævi. En það er líklega aukaatriði í þessari bók því Sturlunga er saga um höfðingja fyrir höfðingja.

Þetta er ekki fyrsta tilraun mín til að tileinka mér efni Sturlungu og áfram skal haldið. Skref fyrir skref. Jafnframt les ég aðrar bækur sem eru ekki eins flóknar.

Eins og oft áður ætla ég að skrifa um lestur. Minn lestur. Ég hef verið með fjórar bækur í takinu og engin þeirra er beinlínis til að auka mér lífsgleði. Samt les ég. 

Bækurnar eru:
Hershöfðingi dauða hersins eftir Ismail Kadare.  Hana hef ég lokið við. Stórgóð bók.
Sturlunga saga (útgáfa Guðna Jónssonar),
Allt fer, smásögur eftir Steinar Braga
Auðnaróðal eftir Sverri Jakobsson (í annað sinn).
Í þessum pistli ætla ég að skoða ævi Ólafs Hildissonar, en hann kemur við sögu í Sturlungu. Sturlunga er nefnilega ekki bara ein stór saga, heldur margar smærri sögur, sem tengjast. Í bókmenntaumræðu nútímans myndi hún trúlega vera kölluð sagnasveigur. Ólafur kemur við sögu vegna tengsla sinna við ógæfumanninn Má Bergþórsson. Sveinninn Ólafur Hildisson var ekki fæddur með silfurskeið í munni. Faðir hans hafði verið dæmdur sekur skógarmaður og drengurinn þá færður til féránsdóms og dæmdur, barnið, fjórðungsómagi við Breiðafjörð til 12 ára aldurs. Eftir það var hann sjálfs sín, en einkum er sagt af dvöl hans hjá Þorgilsi Oddasyni.
Unglingurinn Ólafur Hildisson virðist hafa verið ólánlegur  unglingur og óöruggur um ráð sitt. Að ráði Þorgils fer hann norður á strandir til að leita sér vinnu. Ólánið eltir hann. Hann ræður sig á skip hjá Má Bergþórssyni. Að róðrum loknum neitar Már ekki bara að borga honum hlut sinn, hann leggur líka hald á fátæklegar eigur hans. Ólafur fer til Þorgils og ber sig upp við hann. Þorgils ræður honum að fara norður  á Strandir og ganga eftir hlut sínum og lánar honum öxi. Þar veitti hann Má áverka en ekki fékk hann hlut sinn.
Ein af litlu sögunum í Sturlungu er um fólkið í Ávík á Ströndum. Þetta er alþýðufólk  sem Már níðist á. Málin, sem af því spunnust, voru talin upphaf málaferla þeirra Þorgils og Hafliða. En ég ætla ekki að rekja þá sögu hér, heldur segja frá unga manninum Ólafi Hildissyni.
Ólafur þarf að gjalda fyrir áverkann sem hann veitti Má, þegar hann var að leita réttar síns vegna ógoldinna launa og upptöku eigna. Sátt (ef sátt skyldi kallast) næst um málin, en þar var  Ólafi gert að fara af landi burt.  Ekki verður af því , óvinir hindra för hans. Þegar hann hyggst  sigla er hann gerður afturreka. Og enn leitar hann til Þorgils því í sáttinni, sem náðst hafði,  voru ákvæði um að Ólafur væri frjáls þegar hann væri með Þorgils og  í landareign hans.  
Hinn ólánlegi Ólafur virðist nú hafa mannast nokkuð, því nú er sagt frá afrekum hans  í „ leikjum“ . Þar stendur hann sig  vel, jafnvel svo vel að undan er kvartað. Sá sem ekki þoldi að tapa fyrir Ólafi hét Grímur Snorrason. Sá tók þetta svo nærri sér að hann leitaði ráða hjá Hafliða Mássyni (föðurbróður Más óvildarmanns Ólafs ) og enn var fjandinn laus. Það stefnir í ógæfu. Grímur sem var nágranni Staðarhólsmanna kvartar undan ágangi hesta þeirra á sitt land. Ólafur sem átti að gæta hesta Þorgils fer áleiðis með honum til að ná í hestana. Í þeirri ferð ginnir hann Ólaf út úr landareign Þorgils (þar sem Ólafur naut friðhelgi), svíkst síðan að honum og vegur hann.
Þetta er litla sagan um Ólaf Hildisson, sem var fjórðungsómagi eftir að faðir hans hafði verið dæmdur sekur skógarmaður. Ekki kann ég að skýra það frekar en liggur í orðinu og hef ekki hugmynd um framkvæmdina á svo víðfeðmum aðgerðum fyrir einn niðursetning. En það sem sló mig, þegar ég hafði tekið saman þessa stuttu frásögn, er að þarna eigast við  þrír ungir menn sem allir hafa misst föður sinn. Ólafur missti sinn við dóminn, Má hafði verið komið í fóstur hjá Þórði Rúfeyjaskáldi, sem hann launaði uppeldið með því að drepa. Hjá mér vaknar spurningin: Hvað hafði Þórður áður gert barninu? Grímur Snorrason hafði misst föður sinn í hörmulegu slysi. Hann verður síðar fyrir því að tapa fyrir Ólafi og félögum og er hafður að háði og spotti.
Það hefur aldrei verið auðvelt að vera ungur, þótt menn tali gjarnan um gleði æskuáranna. Mér sýnist að allir ungu mennirnir í þessari frásögn hafi átt erfiða ævi. En það er líklega aukaatriði í þessari bók því Sturlunga er saga um höfðingja fyrir höfðingja.
Þetta er ekki fyrsta tilraun mín til að tileinka mér efni Sturlungu og áfram skal haldið. Skref fyrir skref. Jafnframt les ég aðrar bækur sem eru ekki eins flóknar.

Myndin er af Sturlungu í útgáfu Svaert á hvítu. Alveg bráðnauðsynleg bók fyrir þá sem vilja rýna inn í heima Sturlunga. 


Heilbrigðisráðherrar OECD ræða sóun

 image

Fólk er í eðli sínu gott og langar lifa samkvæmt eðli sínu, hugsaði ég meðan strætisvagnabílstjórinn beið þolinmóður á svip, meðan ég staulaðist á hækkunum upp í strætó. Hann tók heldur ekki af stað, fyrr en ég var tryggilega sest. Þetta gladdi mig, mér þótti vænt um strætisvagnabílstjórann.

Ég hef þurft að nota hækjur síðan í apríl og stundum hugsa ég að ég hefði þurft að upplifa þetta fyrr , það er svo notalegt hvað allir eru boðnir og búnir til að vera hjálpsamir. Ég er ógöngufær vegna veikinda í mjöðm eða baki (nema hvorutveggja sé) og bíð eftir viðtali við lækni 17. mars. Þá fæ ég væntanlega að vita hvort vandinn sé skurðtækur. Ég er búin að bíða eftir þessu viðtali síðan í október. Þá var búið að mynda. 

Ég hef beðið þolinmóð, annað er ekki í boði. Ég hef lagt mig fram um að láta biðina ekki skemma út frá sér. Ég er góð á hækjunum og er komin með kraftalegar axlir eins og sundkappi. Ég er búin að koma mér upp nýju lífi, dagurinn hefst á því að taka verkjatöflur. Þannig lýkur honum líka. En það er margt sem er erfitt að gera ef maður gengur við hækjur. Þetta er svolítið eins og að vera handalaus, alltaf nema þegar maður situr eða liggur.

"Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra tekur þátt í fundi heilbrigðisráðherra OECD-ríkja sem stendur yfir í París. Á fundinum er fjallað um hvernig bæta megi nýtingu fjár til heilbrigðismála og sporna við sóun. Gerði Óttarr það að umtalsefni í innleggi sínu á fund- inum í gær." Þessa klausu las ég í Fréttablaðinu 18. janúar. Margt er öðru vísi en maður býst við. Ekki hafði mig órað fyrir að það yrði fyrsta verk heilbrigðisráðherra að ræða sóun. 

Út frá hvaða sjónarhorni skyldu þeir ræða þetta ráðherrarnir? Við sem erum sjúklingar og bíðum vitum hvað sóun er. Það er sóun á lífi og hamingju fólks að bregðast ekki við veikindum með öllum tiltækum ráðum læknavísindanna, finnst okkur. 

Ég kíkti af forvitni á hvað margir sjúklingar bíða þess að fá liðskipta aðgerð á mjöðm (það er aðgerðin sem ég hef að ég ætti að komast í). Þeir voru 493. Tíminn líður. Klukkan tifar. Líkamar okkar grotna af hreyfingarleysi meðan við bíðum. Það er sóun. 

Mér er sagt þjóðin vilji styrkja heilbrigðiskerfið. En það voru ekki nógu margir sem kusu fólk sem er treystandi í því máli. Ég er hrædd um það. 

Ég bíð spennt. Og ég veit að fólk vill vera gott. Hvaða hindranir sem eru í veginum. 

Myndin er hluti af teppi sem ég heklaði mér til ánægju

 


Auðnaróðal: Sverrir Jakobsson

 IMG_0865

Í bókinni Auðnaróðal skoðar Sverrir Jakobsson íslenskt samfélag Sturlungaaldar út frá samtímaheimildum og leitast við að ráða í pólitískar sviptingar þessa tíma. Bókin skiptist í 4 kafla og sýna kaflaheitin að nokkru leyti þá þróun sem er í gangi. 

1. Klerkar breyta samfélagi

2. Samruninn

3. Höfðingjastéttin eyðir sjálfri sér

4. Kóngsins menn

Bókin hefst á því að segja frá pólitískum sviptingum sem verða eftir að kristni hefur verið lögleidd á Íslandi. Þar er ekki verið að tala um uppljómun andans eða auðmjúkt hugarfar. Heldur um nýja valdastétt, tilflutning valds. Kirkjunni var að hluta til stýrt erlendis frá og hafði þörf fyrir eina yfirstjórn. Valdið sem fyrir var í landinu var dreift á goðorðsmenn og var bundið við persónur og var ekki svæðisbundið. Í fyrstu féll vald höfðingja og klerka að miklu leyti saman en síðar var gerð krafa um aðskilnað kirkju og veraldslegs valds. 

Svæðisbundið vald á Íslandi varð fyrst til þegar með sóknum kirkjunnar. Kirkjan átti einnig frumkvæði að því að koma á skattheimtu (tíund). Allar breytingar þessa tíma urðu til við víxlverkan þessara tveggja afla, veraldlegra höfðingja og kirkju. Að lokum fór það þó svo að höfðingjar völdu þann kost að styrkja vald sitt með því að fela Noregskonungi að horfa til með sér. Svæðisbundið ríkisvald varð til og nú fylgdi því framkvæmdavald og dómsvald . Enn var þó togast á um hvar löggjafarvaldið skyldi liggja.

Það er vonlaust verk að ætla að rekja þetta í stuttu máli. Þess vegna bókin. Og maður þarf ekki bara að lesa þessa bók, sem er mikil nafnasúpa og ættarflækjur, maður þarf að hafa talsverða forkunnáttu til að geta meðtekið boðskapinn. Ég var svo heppin að ég hafði lesið Sturlungu en það nýttist þó ekki sem skyldi, því ég hafði ekki lesið hana með réttu hugarfari. Ég las hana sem spennubók, hryllingssögu eða reifara og skautaði yfir ættartengsl og flækjur eins mikið og samhengið leyfði. Það mætti gera margar hryllingsmyndir út frá efni þessarar bókar og heitar ástarsögur. En Sverrir heldur sig við að greina, skilja, draga ályktanir og útskýra. Hann gjörþekkir efnið og virðist ekki eiga í neinum vandræðum við að halda utan um ættir og tengsl ætta. 

Eitt af mörgu sem þessi bók dregur fram, er að á Íslandi ríkja ættir, hér var ættarsamfélag og ríkum ættum fylgja völd. Ósjálfrátt hugsa ég að lítið hafi breyst. Nema mannvígin, þökk sé erlendu valdi, Noregskonungi. Liggur í þessu ábending um að skoða betur hvort vert væri að kanna frekar inngöngu Íslands í Evrópusambandið :)?

Þetta er skemmtileg bók en mér fannst, eins og fyrr sagði, erfitt að henda reiður á persónum og tengslum þeirra. Það er nefnilega mikil hreyfing í þessari bók. Höfðingjar tengjast,  deila, berjast, sættast og gera aftur bandalög sín á milli. Endalaust.

Næst þegar ég les Auðnaróðal, ætla ég að vera búin að prjóna eða hekla dúkkur, í anda helstu persóna sem við sögu koma og stilla þeim upp eins og tindátum til að átta mig betur á framgangi mála. Ég er þegar farin að hlakka til og hef ákveðið að hafa Sighvat í blárri kápu.

Myndin er tekin í göngunum, undir gamla Reykholtsbænum sem liggja að Snorralaug. Þarna er sagt að Snorri hafi verið drepinn.

 


Arnaldur Indriðason: Petsamó

IMG_0112

 

Nú hef ég lokið við að lesa Petsamó eftir Arnald Indriðason og velti fyrir mér, hvað það sé við Arnald sem lætur hann bera af öðrum glæpasögurithöfundum. Það er sjálfsagt ekkert eitt heldur margt og mig langar til að setja á blað, hvað mér finnst einkenna þennan höfund.

Í fyrsta lagi skrifar hann góðan texta, svo góðan að maður tekur ekki eftir því. Samtölin eru eðlileg og hann skapar persónur, sem eru svo lifandi að manni finnst að maður myndi þekkja þær ef maður myndi rekast á þær af tilviljun. Jafnvel aukapersónur eru svo vel dregnar að stundum minnir handbragð Arnaldar á teiknara sem rissar upp myndir af fólki með fáum dráttum. Þetta gerir Arnaldur án þess að það hvarfli að manni að nota orð eins og klisjukennt.Aðalpersónurnar byggir hann upp og lætur þær þróast bók eftir bók.

Arnaldur er meistari í því að ná tíðaranda liðins tíma. Sögur hans færa mann inn í liðinn tíma, hann er nokkurs konar laumusagnfræðingur. Í Petsamó dregur hann upp mynd af styrjajdaráunum seinni. Stríðið kom öðru vísi við okkur Íslendinga en stríðandi þjóðir. Hér olli það umróti á lífsháttum fólks sem má líkja við byltingu. Arnaldur nær vel blæ þessara ára og lýsingar hans eru ekki svarthvítar, hann notar alltaf allan litaskalann.

Það sem mér finnst enn eitt einkenni Arnaldar er hversu framgangur sögunnar er hægur og oft lágvær. Það er enginn asi á karakterum Arnaldar og ég kann því vel. Þeir sem hafa tekið að sér að ráða gátuna, ná fyrst og fremst árangri með samtali. Þeir skapa nánd og stundum trúnað og að lokum geta þeir raðað saman heillegri mynd. Þess vegna var ekki laust við að ég fylltist efasemdum þegar, sagan í Petsamó þróaðist yfir í að verða hasar. Ég kunni ekki almennilega við það. En Thorson er engin hetja frekar en Erlendur og hann vinnur enga sigra í þeim átökum. Hasar kemur vel út í spennumyndum en ég veit enn ekki hvort ég kann við slíkt í bók eftir Arnald Indriðason.

Að loknum lestri á Petsamó get ég einbeitt mér að lestri Auðnaróðals eftir Sverri Jakobsson en ég hef verið að lesa þessar tvær bækur samhliða. Ég er nú þar stödd þar sem verið er að fjalla um átökin í kring um Hólastað og Guðmund góða. Sverrir á það sameiginlegt með Arnaldi að hann kryddar ekki frásögn sína með hasar og æsilegum lýsingumm á átökum. Þó væri næg tilefnin. Í staðinn einbeitir hann sér í að kortleggja tengsl höfðingja og ekki síst hvernig þeir styrkja þessi tengsl í gegnum giftingar og með samböndum við ástkonur, frillur. Auðnaróðal fjallar um tíma mikilla sviptinga og ég vænti þess að við bókarlok viti ég meira um hvað Sverrir telur að hafi verið hreyfiafl sviptinga þessara tíma.

Já, það er nóg til af spennandi lestrarefni og sumt má eða þarf maður að lesa oft. Það er ekki verra.


Bókabiðlisti: Með margar bækur í takinu

image

Þegar ég hafði lokið við að lesa um leiðindagaurinn Felix Krull ákvað ég að bæta mér það upp meað því að lesa skemmtilegri bækur. Nú er ég með þrjár bækur í takinu. Ég les Arnald Indriðason, Petsamo, til að fá spennu í lífið, Sverri Jakobsson, Auðnaróðal til að verða fróðari og Gyrði Elíasson, Langbylgja, til að næra andlegheitin. Þetta er góð blanda. 

Arnaldur er sjálfum sér líkur. Nú eru það félagarnir Flóvent og Thorson sem glíma við að leysa glæpagáturnar. Ég kann vel við þá, þeir eru ekki alveg eins hæggengir og inn í sig og Erlendur. Ég sakna Sigurðar Óla ekki neitt, reyndar virtist hann örlítið vera farinn að mannast í seinni bókunum. Samvinnan við Erlend gerir honum gott. Svo nú hef ég áhyggjur af honum þegar þeir Arnaldur og Erlendur sleppa af honum hendinni. 

Auðnaróðal, Sverris er strembnari bók en ég átti von á. Hún er engin léttlestrarútgáfa af Sturlungu, þótt hún sé næstum um sama fólkið og sama tíma. Ég þarf sjálfsagt að lesa hana nokkrum sinnum til að ná efninu þokkalega. 

Langbylgja Gyrðis er safn örsagna sem hver um sig er eins og ljóðræn smásaga, sem stundum er brandari. Það er svo gaman að sjá hvernig Gyrðir leikur sér með orð og hugmyndir. Og það er merkilegt hvernig honum tekst að láta textann vera fyndinn og sorglegan í senn. 

Þessar þrjár bækur eru þægileg blanda og áreiðanlega holl. Ekki veitir mér af því ég er slíkur ræfill, með tvær hækjur. En ég ætlaði ekki að skrifa um það hér, heldur um hversu bækur eru fólki mikilvægar og hollar. Og ég þarf engu að kvíða. Þegar ég hef lokið við þessar þrjár bækur, bíða aðrar. Ég er búin að gera mér lista yfir bækur sem bíða lestrar, bókabiðlista. Það er ánægjulegra við hann að eiga en biðlista sjúkrahúsanna. 

 

Myndin er af blómateppi sem ég var að hekla, en hekl og prjón er líka heilsulind 


Ódámurinn Felix Krull

IMG_0389

Ódámurinn Felix Krull

Í bókinni Felix Krull segir Tomas Mann frá samnefndri persónu. Hann er látinn segja sjálfur frá. Fyrst greinir hann frá því að hann sitji í fangelsi og síðar segir hann frá barnæsku sinni og uppvexti. Faðir hans er  vínframleiðandi en fer á hausinn og styttir sér síðan aldur. Fjölskyldan hafði lifað við góð efni en nú breytist hagur hennar. Móðir Krull fer að vinna en hann sjálfur ætti með réttu að ganga í herinn en kemur sér undan því með því að leika fávita. Velgerðarmaður hans leggur á ráðin við hann og leggur til að hann finni sér starfa á hóteli. Það gengur eftir.  Krull fær vinnu á lægsta þrepi en vinnur sig upp. Hann lætur sér það ekki nægja, heldur bætir kjör sín sjálfur með prettum.

En hugur hans stefnir enn hærra. Hann dreymir um að tilheyra efnaðri yfirstétt og lifa í vellystingum. Og það merkilega gerist, hann fær ósk sína uppfyllta. Fyrrverandi viðskiptavinur af hótelinu kemur til hans og biður hann um að skipta við sig á hlutskipti, hann taki við þjónsstarfinu og Krull verði tímabundið aðalsmaður.

Krull á að taka að sér að fara í heimsreisu og skrifa foreldrum herramannsins og rekja ferðasöguna. Allt gengur að óskum framan af og svo endar sagan. Lesandinn fær aldrei að vita framhaldið og hvers vegna Krull situr inni.  Mann náði ekki að ljúka verkinu, bókin kom út 1954 (Það sem hann var búinn með) en hann lést 1955.

Ég syrgi það ekki þótt Mann lyki aldrei bókinni um Felix Krull. Ég hef sjaldan eða aldrei kynnst eins leiðinlegri persónu. Hann er sjálfumglaður montrass, óheiðarlegur og sjálfselskur í þokkabót.

En hvers vegna skrifaði Mann þessa bók. Ég á erfitt með að ímynda mér það. Sagt er að Mann hafi fylgt þekkti bókmenntahefð, að skrifa skúrkabók. Einnig er sagt að hann hefi jafnvel verið að skopast að þekktum persónum. Það er sjálfsagt rétt, en ég trúi því ekki að maður eins og hann hafi skrifað bók nema honum lægi eitthvað á hjarta.

Og af hverju var hún valin til þýðingar á íslensku af einum okkar besta þýðanda, Kristjáni Árnasyni. Bókin kom út hér 1982. Hefði ekki verið nær að þýða Töfrafjallið?

Ég kann ekki svör við þessu en hef lesið mér til um að Tómas Mann hafi byrjað á þessari bók þegar 1910,  þótt hann lyki henni ekki fyrr enn 1954.

Mér detta einungis í hug tvær skýringar. Sú fyrri er, að ég skilji einfaldlega ekki bókina. Síðari skýringin er sú, bókin sé að einhverju leiti úrelt. Að Tómas Mann hafði ætlað með bókinni að fjalla um mikilvæga hluti, sem tengdust stéttaskiptingu en hafa á okkar tíma tekið á sig aðra mynd, því stéttaskipting er vissulega ekki úr sögunni. Þessu tengist ef til vill að bókin fjallar að hluta til um nautnalíf, ekki síst forboðið nautnalíf. Að vissu leyti fjallar bókin einnig um að njóta lista og fagurra hluta. Heldra fólk átti vissulega meiri möguleika til að hafa aðgang að öllu því sem hugurinn girntist, ekkert hindraði það í að njóta nema e.t.v. ríkjandi siðferðiskröfur og einstök tabú. Svo er vissulega enn,  en öll umgjörð um þennan veruleika er breytt, þess vegna er bókin úrelt.

Allt sem ég hef skrifað um lestur minn á Felis Krull hér, ber þess merki að mér leiddist bókin og skildi hana ekki. Við það verður að una, ég myndi ekki lesa hana aftur nema fyrir háa borgun.

Myndin sem fylgir er af mosavegg í þyskri bókabúð


Feitasti maður Íslands

IMG_3261

Breyttir tímar, saga í Langbylgju Gyrðis.


Það er langt síðan ég hef skrifað um bækur. Það er ekki vegna þess að ég sé hætt að lesa, það er vegna þess að bókin sem ég ætlaði að skrifa um þvældist svo fyrir mér. Ég vissi ekki hvað hvað ég gat sagt um Felix Krull eftir Tomas Mann. Mér líkaði hún ekki og fannst að ég  þyrfti að rökstyðja það vel því  þarna var  á ferðinni, bók eftir frægan rithöfund og Nóbelsverðlaunahafa.
Til að ná úr mér ónotunum eftir Felix Krull,  dembdi ég mér í að lesa þær bækur sem ég átti ólesnar eftir Arnald Indriðason, Skuggasund, Röddina, Svörtuloft og Vetrarborgina. Ég tel þær upp í þeirri röð sem ég las þær. Nýjustu bókina las ég ekki því ég ætla að geyma mér hana til jólanna. Ég kann ekki að skýra vanrækslu mína á að lesa Arnald,  trúlega hef ég fengið þá meinloku í höfuðið að halda mig frá glæpasögum. Sú hugmynd kemur reglulega upp hjá mér.
Að Arnaldi loknum, hóf ég lestur á bók Gyrðis Elíassonar, Langbylgju og það var hún sem fékk mig til að setjast við tölvuna og halda áfram þar sem frá var horfið að skrifa um bækur.
Ég nota bækur eins og pillur til að láta mér líða vel. Stundum knúin áfram að fróðleiksþörf, stundum þarf ég bækur um tilvistarvanda mannsins, stundum þarf ég spennandi bækur sem fá mig til að gleyma áhyggjum. Bækur lækna svo margt. Bækur Gyrðis nota ég sem smyrsl fyrir sálina. Allt þetta var óþarfur útúrdúr.
Í Langbylgju fjallar ein sagan um erfiðleika drengs. Hann segir frá því, þegar pabbi hans var tilnefndur sem feitasti maður Íslands og rauk beint af stað með að undirbúa sig undir keppnina feitasti maður Evrópu. Innkaupapokarnir þyngdust og heimilisfaðirinn át og át. Drengurinn missti lystina og móðir hans líka. Hann var næstum orðinn að engu. Það er svartur húmor sem einkennir þessa sögu en ég hef samúð með drengnum og móður hans.
Allt í einu sló það mig að þessi feitasti maður Íslands minnti mig á eitthvað nýlegt dæmi. Var ekki fjármálaráðherrann okkar, sem er svo huggulegur og vel til fara,  að segja að við hefðum aldrei haft það betra? Og kom ekki í ljós að það höfðu það ekki allir jafn gott og hann? Mikið rétt en Gyrðir er örugglega ekkert að hugsa um hann.
En svona eru bækur. Þegar þú lest verður til nýr skilningur, skýringar sem þú þarft hér og nú.
Kannski vinnur feitasti maður Evrópu keppnina í Póllandi og kannski mun fjármálaráðherranum líða enn betur.

Myndin er af bláklulku, ekkert blóm lætur eins lítið yfir sér og bláklukkan. Hún sem er svo fallegt. 

 


Lifandi dýr eru ekki matvæli

IMG_0052

Lifandi dýr eru ekki matvæli

Eftir að hafa horft á Kastljósþátt sjónvarpsins um þrautpíndu hænurnar sem ég hef verið að borða eggin úr, átti ég einhvern veginn von á að fá frekari fréttir af því hvernig þeim liði. Er ekki örugglega búið að  koma þeim til hjálpar? Og hvað á að gera við dýraníðingana? Fá þeir ekki makleg málagjöld, eins og sagt var í ævintýrunum.

Um þetta hef ég  ekkert heyrt enn  en ég hef heyrt, því meir hefur verið fjallað um svik við neytendur. Ótal hugmyndir hafa verið reifaðar um hver beri eiginlega ábyrgðina. Það er eins og að neytendur séu aðalþolendurnir og hænurnar hafi gleymst.

Þessi viðsnúningur kemur illa við mig. Ég er fædd og uppalin í sveit og þá var okkur uppá lagt að bera umhyggju fyrir líðan dýra og það var ljótt og skammarlegt að vera vondur við dýr.

Reyndar er ég nú þeirrar skoðunar að manninum sé eiginlegt að hafa samúð með dýrum. Hann er þannig skapaður að hann er fær um að setja sig í annarra spor og breyta rétt. Svona er manneskjusýn mín jákvæð. Ég man enn hvað mér fannst kvæðið um Gimbil sorglegt.

 

Gimbillinn mælti

og grét við stekkinn:

“Nú er hún móðir mín
mjólkuð heima,
því ber ég svangan
um sumardag langan
munn minn og maga
að mosaþúfu.”

Gimbill eftir götu rann,
hvergi sína mömmu fann,
þá jarmaði hann;
hann jarmaði svo sáran,
gullbúinn gimbill,
í grænkunni lá hann.

 

Og Heiðlóukvæði Jónasar.

Snemma lóan litla í

lofti bláu,,dirrindí”

undir sólu syngur:

,,Lofið gæsku gjafarans,

grænar eru sveitir lands,

fagur himinhringur.

Eg á bú í berjamó.

Börnin smá í kyrrð og ró

heima í hreiðri bíða.

Mata ég þau af móðurtryggð,

maðkinn tíni þrátt um byggð

eða flugu fríða.”

 

Lóan heim úr lofti flaug

( ljómaði sól um himinbaug,

blómi grær á grundu)

til að annast unga smá.

Alla étið hafði þá

hrafn fyrir hálfri stundu.

 

Öll börn ættu að alast upp við dýr og ljóð. Þá fengjum við ekki fullorðið fólk sem umgengst dýr eins og dauða hluti.

Að Kastljósi loknu las ég mér til um dýravernd (lög um velferð dýra). Ekki vantar góðan ásetning. Er ég ein um það að finnast það ankannalegt að eftirlitsskylda með velferð dýra skuli vera hjá Matvælastofnun. Er þetta ekki svolítið eins og fela mannætum eftirlit með mannréttindum? Nei nú geng ég of langt.

Nei, það er víða pottur brotinn varðandi meðferð dýra og allt of lítið eftir af persónulegu sambandi manns og dýrs sem ég ólst upp við, þar sem flest  dýr áttu sér nafn. Það sem hefur breyst er umgjörðin um dýrahaldið, dýrin eru hlutgerð. Þau eru matvæli. Væri ekki ráð að virkja, það sem ég held að sé meðfædd meðlíðan með dýrum og hætta að hlusta á að dýrahaldarar hafi ekki efni á úrbótum, ekki strax. Mig minnir að svínabóndi hafi fengið sex ára frest til að laga stíur fyrir gylturnar sem voru með svöðusár vegna þess að rimlarnir skárust inn í holdið.

Og svo þarf að hafa í huga hvað vammir þessara manna skemma fyrir bændastéttinni í heild. En flestir bændur láta sér annt um líðan dýranna sinna.

Myndin sem fylgir er af hænum Arnórs Krisjánssonar frænda míns. Ég hnuplaði þessari mynd af feaisbók og vona að hann fari ekki í mál við mig. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 190363

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband