Heimur guðanna

 94B188DA-BE4F-4264-82D1-A91D1919474D

Af hverju les maður rusl eða léttmeti, þegar góðar bókmenntir eru í boði? Þetta hugsaði ég þegar ég sá, mér til mikillar ánægju, að það var búið að lesa inn Ummyndanir Ovidusar.Bókin kom út 2009 og er þýðing Kristjáns Árnasonar á verki Ovids. Kristján var fæddur 1934 og dó 2018. Hann var þýðandi og skáld. Ovid   var fæddur 43 f. Kr. og dó 18 e.Kr.  Ég hef saknað þess að eiga ekki aðgang að þessu merkilega verki, en ég verð að reiða mig alfarið á hljóðbækur.   Það er Þorleifur Hauksson sem les. Þvílík veisla.

Er nema von að stundum hafi veriðg sagt við mig, að ég sé alger forréttindamanneskja að eiga  rétt á að hlusta á bækur. 

Það sem heillar

Ég dembdi mér beint í lesturinn. Bókin er með greinargóðum formála sem undirbýr lesandann fyrir það sem koma skal. Ekki veitir af, því að í bókinni  opnast lesanda nýr og  áður  ókunnur heimur.

Ég vildi hafa vakað lengur

Um leið og ég segi áður ókunnur, finn ég fyrir smá sektarkennd. Ég lærði nú latínu á sínum tíma,að  vísu bara í einn vetur.   Og vissulega fékk ég forsmekk af heimi latínunnar og af leikarskap guðanna.   Ósjálfrátt kemur gömul laglína upp í hugann: Ef við hefðum vakað lengur og ... Maður getu víst engu breytt um fortíðina en mikið hefði nú  verið gaman núna í þessu samhengi að rifja upp latínuna.

Líf guðanna

Sögurnar eru úr lífi guðanna sem gera sér það að leik að því að grípa inn í líf manna.Í fyrstu fannst mér að ég þyrfti að vita allt um eðli þeirra og ættir en eftir að ég gaf það frá mér, sem óvinnandi veg, fór ég að njóta sagnanna. Ég held að ef það væri á annað borð hægt að draga upp mynd af ættartré Jupíters væri það undarlegt í laginu. Og skógur slíkra trjáa væri myrkviður. Það er því ráðlegging mín, til þeirra sem vilja takast á við að lesa Ummyndanir Ovids að lesa hverja sögu og njóta töfranna, ekkki spilla ánægjunnni með ættfræðilegum pælingum.   Auk þess er það gleðileg upplifun að eftir því sem á líður lesturinn skýrist margt, þekking byggist upp. Heimur guða verður til.

En hvað er það sem er svo merkilegt við Ummyndanir Óvíds.

Þetta eru í fyrsta lagi ævintýri þar sem það ómögulega getur gerst. Oft fjalla sögurnar um einhver dýpri sannindi, ég tek dæmi af Öfundinni. Í öðru lagi eru þær afar myndrænar, það er eins og maður sé komin á listsýningu. Þetta fullvissasðist ég um þegar ég fór á sýningu Ólafar Nordal nú um helgina. Hennar myndverk eru að hluta til ummyndanir. Í þriðja lagi eru þær svo glettnar. Þær kalla fram þetta ljúfa innra bros sem er svo notalegt fyrir sálina. Ég ætla að  stoppa hér enda engin spekingur í þessum vísindum.

Ég iðrast

Ég ætla að ljúka þessum pistli með því að biðjast afsökunar á því sem ég sagði í byrjun hans, vona bara að einhver hafi enst til að lesa alla leið hingað. Ég

biðst afsökunar á því að tala um, rusl sem gefið er út. Ég ávíta sjálfa mig fyrir að hafa nokkurn tíma hugsað svona. Rithöfundarnir sem hafa lagt sig fram við skrif sín og opnað hug sinn fyrir mér og öðrum lesendum sínum, eiga ekki skilið að nokkur hugsi svona.

Það ber að þakka þeim.

Myndin er af styttu af styttunni var sótt á netið

 


Tara Westover: Ótrúleg frásögn ungrar konu

08A53376-4C04-4C24-901D-A0B3B0EAD1F7

Ótrúleg frásögn ungrar konu

Ég hef ekki bara verið að lesa  Sturlungu. Inn á milli hef ég fundið mér  nútímalegra lesefni,þar á meðal las ég bók   Tara Westover (fædd 1986 - ), Educated. Ég las hana á sænsku, þar sem hún heitir, Allt jag fått lära mig. Á íslensku gæti hún e.t.v.heitið Allt sem ég fékk að læra eða Menntuð.

Þetta er ótrúleg frásögn ungrar konu um líf sitt.Tara er fædd 1986 í Idaho í Bandaríkjunum. Hún elst upp hjá fjölskyldu sinni yngst sex systkina. Þau eru mormónatrúar, faðirinn er predikari og móðirin er hómópati. Faðirinn er sjálfstæður atvinnurekandi, rífur niður ónýta bíla og vinnuvélar og kemur í verð. Þetta er erfið vinna og börnin hjálpa til. Móðirin safnar jurtum, býr til lyf og selur. Auk þess er hún ljósmóðir við heimafæðingar.  

Meðan Tara er lítið barn heldur hún að líf þeirra sé ósköp venjulegt.Bróðir hennar sem hefur skapað sér líf utan fjölskyldunnar,  opnar glufu  inn í heim sem hún hefur adrei heyrt talað um.

Fjölskylda hennar lifir nefnilega í lokuðum heimi þar sem orð heimilisföðurins eru lög, ekki bara heima hjá þeim, heldur að einhverju leyti líka hjá nágrönnum þeirra sem líka eru í söfnuðinum. Þau trúa því að þau þurfi að verja sig fyrir „kerfinu“, það er sett þeim til höfuðs, svo þau þiggja enga þjónusu. Börnin eru ekki skráð við fæðingu, þegar veikindi og slys steðja að, má ekki leita læknis og börnin fá ekki að sækja skóla. Þeim er kennt heima og innihald námsefnisins er sniðið að þeim sannleik,sem predikaranum, föður Töru, er þóknanlegur. Heimsendir er á næsta leiti. Þegar unglingsárin  nálgast hjá Töru, er það einkum tvennt sem ræður því að hún vill komast í burtu. Henni fellur ekki að vinna við ruslaniðurrif fyrirtækisins. Vinnan er þrældómur, sóðaleg og auk þess hættuleg. Við þetta bætist að eldri bróðir hennar   ógnar henni og misþyrmir.

En það er enginn hægðarleikur að komast burt, hvað þá komast  inn í heiminn fyrir utan, sem hún vissi svo lítið um.  Fyrst af öllu þurfti hún að láta skrá sig, eignast skilríki. Hana langaði að menntast og þá varð hún að gangast undir próf sem sýndi hvar hún stóð námslega.

Allt þettta þurfti Tara að gera ein, án stuðnings fjölskyldunnar og í óþökk hennar.

Síðari hluti bókarinnar fjallar um skólagönguna og mér finnst undravert hversu vel „kerfið“ brást við þörfum hennar eftir að hún ákvað að treysta því. En Tara þurfti ekki bara að   vinna upp það sem hún hafði misst af í skólakerfinu, hún þurfti líka að læra að        að umgangast jafnaldra, hún varð að læra  allt mögulegt sem hvergi stendur skrifað en er nauðsynlegt til að skilja aðra og vita til hvers er ætlast af manni.

Jafnframt þessu reyndi hún að ná sáttum við fjölskyldu sína, sem hafði afneitað hennni.

Þetta er grípandi ævisaga ungrar konu sem er enn svo ung, að innst inni  finnst manni að hún sé rétt að byrja lífið. Líf hennar er ævintýri líkast eða martröð og hún er spennandi. Mestu skiptir þó að bókin er vel skrifuð.

Fleiri ævisögur

Meðan ég var að lesa baráttusögu Töru, varð mér oft hugsað til annarra kvenna sem einnig hafa sagt frá glímu sinni við að brjótast út úr erfiðum aðstæðum.Jeannett Walls (fædd 1960- )hefur skrifað bók  sem heitir  The Glass Castle. Í henni segir hún frá     baráttu fjölskyldu sinnar við kerfið og hvernig sú barátta bitnaði á henni, ekki síst hvað varðaði menntun   og vinatengsl.   The Glass Castle hefur verið kvikmynduð. Í báðum þessum tilvikum er aðdáunarvert hversu vel „kerfið“ tekur á málum þessara ungu stúlkna.

Enn ein saga um lífsreynslu ungrar konu

Meðan ég las, varð mér líka hugsað til enn einnar ungrar konu sem hefur skrifað um baráttu sína fyrir frelsi og tilverurétti. Það er Yan-mi Park (fædd 1993- ) og  bókin heitir  Með lífið að veði. Þar lýsir hún flótta sínum frá Norður Kóreu.

Öfgar og harðstjórn fara illa með fólk hvort sem þær koma frá ríkisvaldinu eða öðrum sem eru í aðstöðu til að kúga umhverfi sitt.

Lokaorð

Allar þessar frásagnir hafa hrifið mig og ég verð að játa, þótt því sé ekki saman að jafna, að mér varð líka stundum   hugsað til eigin bernsku. Mér varð hugsað til ungu stúlkunnar sem  fór „út í heim“ með eina heimasmíðaða ferðatösku og sængina og koddann í hvítum hveitipoka. Ferðinni var heitið að Eiðum en ég hafði ekki áður verið í eiginlegum skóla. Nei,  þessu er ekki  saman að jafna, en ýmislegt úr minni reynslu eykur samkennd mína með þessum ungu stúlkum sem þurftu fyrst og fremst að stóla á sjálfa sig. Góðar bækur opna gjarnan á tilfinningar sem  liggja kannski ekki  alveg á yfirborðinu.

Myndin af höfundi er sótt á netið.


Suðurganga með Sturlungu í farteskinu

54AAC001-FD54-4321-822C-6B9CB5B4867C

Ferðalag með Sturlungu í farteskinu

Það er orðið langt síðan ég hef skrifað hér á síðuna mína um bækur en það þýðir ekki að ég hafi ekki lesið, ástæðan var allt önnur. Allt í einu missti ég löngunuina  til að skrifa og nú líður mér eins og ég eigi eftir að gera upp fjölda útistandandi reikninga. En eins og lesendur mínir vita er ég fyrst og fremst að gera þetta fyririr sjálfa mig  og það er höfuðsynd að svíkja sjálfan sig.

Ég ætla að byrja á því að tala um Sturlungu. Frómt frá sagt hefur engin bók kallað mig oftar til sín nema ef vera skyldi Biblían.

Báðar þessar bækur einkennast af mörgum matarholum.

Suðurganga

Þegar kom að löngu tímabærri Suðurgöngu, en svo kölluðust ferðalög forfeðra okkar og örfárra formæðra til Róm á kaþólskum tíma, fannst mér upplagt að taka Sturlungu með, ekki síst til að dreifa huganum í flughöfnum sem í mínum huga líkjast mest lýsingum á hreinsunareldinum.

Í Keflavík var þar komið sögu, að Þórður kakali var nýlentur á Gásum og á leið til systur sinnar á Keldum og Hálfdánar mágs síns.

Þórður kakali Ásgeirs Jakobssonar

En það  hafði heldur betur hlaupið á snærið hjá mér, þegar ég var að leggja í hann, sé ég að það er búið að lesa bók um Þórð kakala inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Þar með var Sturlungulesturinn orðinn tvöfaldur. Meira um þá bók síðar.

Ferðalagið gekk vel og sama gildir um lesturinn. Ég skoðaði fleiri kirkjur en ég hef tölu á og þar með talin er Péturskirkjan, sem að var ekki til á tímum þeirra Sturlunga. En það er allvíða sagt frá Suðurgöngu þeirra sem þar koma við sögu , sem við þá er kennd. Reyndar er óljóst hvað þeir voru nákvæmlega að biðja Guð að fyrirgefa, en ekki held ég að þeir hafi verið að biðja hann um að fyrirgefa sér manndráp eða limlestingar á fólki, eða að fara eins og logi yfir akur rænandi og eyðileggjandi nema í þeim tilvikum þegar það sneri að kirkjunni. Um þetta var ég að hugsa þegar ég sat í svölum kirkjunum að flýja hitann og til að láta líða úr mér eftir langar göngur.

Við lestur Sturlungu hef ég hvað eftir annað staðið mig að því að vera að leita að hetju sem ég gæti haldið með. Leita að einhverjum sem væri betri en aðrir. Nú hef ég gefið það endanlega frá mér enda er ég í þessari lesskorpu búin að fara í aSauðsfellsför, drápin á Þorvaldssonum, Flóabardaga og Haugsnesorrustu og fleira og fleira. Andstyggilegastar að mínu mati eru þó limlestingar á  saklausu fólki.

Etir að ég loks sætti mig við að það er engin hetja í Sturlungu, nema ef vera skyldi kona sem  sem fóstraði litlu dóttur Sturlu og Sólveigar og skýldi með líkama sínum þegar óvinir réðust að heimilisfólkinu á Sauðafelli:“ Kona sú hafði gengið til kamars er Arngerður hét Torfadóttir. Hún fóstraði Guðnýju Sturludóttur. Og er hún varð vör við ófriðinn slökkti hún ljós í skálanum og hljóp til hvílunnar þar er mærin lá. Hún tók dýnuna og breiddi á sig en meyna lagði hún við stokkinn hjá sér og undir sig og gerði yfir krossmark og bað guð gæta“.

Hetjur og skúrkar

Eftir árangurslausa leit að hetjum í Sturlungu, rann það upp fyrir mér að svona er þetta í öllum stríðum. Það er hernaðurinn sjálfur sem er sökudólgurinn. Strax og menn hafa fallist á að það eigi og þurfi að leysa mál með hernaði, gufa hetjurnar upp og eftir verða skúrkar. Hvað er ekki að gerast akkúrat núna í Sýrlandi?

En örlítiðmeira um bók Ásgeirs Jakobssonar um Þórð kakala. Bókin kom út 1988, en þá hafði áhugi minn á Sturlungu ekki enn kviknað. Nú þegar hún kemur út sem hljóðbók var hún mér kærkominn happafengur.  Hún er lesin af Hirti Pálssyni, réttur maður á réttum stað. Þegar ég skoða bókina í bókasafni, sé ég að hún er myndskreytt af Gísla Sigurðssyni ritstjóra og myndlistarmanni. Myndirnar eru prentaðar í lit og afar tjáningarríkar.

Nú meðan þetta er skrifað fer fram fótboltaleikur milli Frakka og Íslendinga. Enn er 0-0.

Er ekki hægt að breyta samskiptum þjóða og  há kappleiki í stað stríða?

Mymdin er úr bók Ásgeirs Jakobssonar. 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2019
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 82
  • Frá upphafi: 187260

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 79
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband