Undarlegir tímar: Guð,kjöt og ráðherra

Líklega hefur heimurinn riðlast þegar flokksblöðin voru aflögð eða því sem næst. Nú er einungis eftir eitt pólitískt málgagn (Morgunblaðið) og blöð sem lifa á auglýsingatekjum, eða því sem næst. Netmiðlarnir blómstra, umræðan er svo fjölbreytt að það er stundum erfitt átta sig á henni. 

Í morgun hef ég lesið um þrjú málefni og reynt að átta mig um hvaðan vindurinn blæs. Þau eru:Sala á kindakjöti, sjúkdómar vegna neyslu erlendra kjötafurða og niðurskurður Rúv á guðsorði. 

Í net umræðunni blandaðist þetta allt saman og inn í þetta blandaðist möguleg hætta sem getur stafað af köttum, væntanlega íslenskum. Það er skemmtilegt að fá umræðuna svona til sín úr öllum áttum. 

Nú vill svo til að mér finnst á vissan hátt að  guðsorði sé haldið að okkur og kindakjöti frá okkur. Ég vil skýra þetta nánar. 

Varðandi guðsorðið:Ég hef ekki þekkt neinn síðan amma mín dó, sem hefur haft reglu á því að hlusta á guðsorð í útvarpi. Hún var fædd 1884. Það var bara eitt útvarp á heimilinu og þegar kom að sunnudagsmessunni, settist hún við það og vildi hafa næði í kringum sig. Þetta er notalegt í minningunni. Hún var líka með það á hreinu að það bæri að halda hvíldardaginn heilagan. Það mátti ekki fella dýr og ekki vinna að heyskap nema til að bjarga heyi. Það gekk alveg fram af henni þegar barnakennari sveitarinnar gekk til rjúpna á sunnudegi. Var slíkum manni treystandi fyrir börnum?  Það eru breyttir tímar og sjálf er ég gengin af trúnni, ef hún var þá einhver. Mér finnst gott að losna við bænahald úr útvarpinu en finnst miður ef fólk tekur það nærri sér. 

Kindakjötsmálið er flóknara. Ég held að fólk kunni ekki almennilega á að matreiða þessa afurð og alls ekki að markaðssetja hana. Í búðunum sem ég kaupi mína vöru í hefur verið erfitt að finna lambakjöt annars staðar en í frysti, poka með súpukjöti, heil læri og heila hryggi. Ekki beinlínis fyrir tveggja manna fjölskyldu. Það er brýnt að laga þetta og svo þarf að gera rispu (ég er að sneiða hjá orðinu herferð) í að kenna fólki að matreiða kindakjöt. Ég nota viljandi orðið kindakjöt ekki lambakjöt sem er bara ein tegund af kindakjöti sem er svo fjölbreytt. Lambakjöt er alls ekki best. Kjöt af fullorðnu er bragðmest og best fyrir þá sem unna kindakjöti og sauðakjöt er eðalvara. Ég sakna þess að fá ekki almennilegt ærhakk, sem fékkst einu sinni, því langbestu kjötbollurnar eru úr blöndu af nauta- og kindahakki. 

Þriðja málið sem ég hef verið að lesa um í morgun, sem margir tjá sig um eru ummæli forsætisráðherra afgreiði ég sem bull. En ég veit ekki hvernig á að afgreiða bull sem kemur frá svo háttsettum manni. Á ég að vorkenna honum eins og hverjum öðrum heimskingja eða á ég að reiðast. Ef satt skal segja verð ég hrædd. Mér finnst voðinn vís að sitja uppi með þennan mann og kumpána hans.

 


Harpan færist nær

 Harpan færist nær, ekki á fleygiferð, en samt. Það er hún sem er þung en ekki ég, hugsa ég. Ég er að skokka eina af uppáhalds leiðunum mínum. Álfheimar - Langholtsvegur - Sæbraut að Hörpu og heim. Ég hef lært að hugsa jákvætt þegar ég skokka, þannig verður allt léttara.

í dag var næst síðasta skipulagða æfingin mín fyrir hálfmaraþonið samkvæmt hlaupahandbókinni minni eftir Gunnar Pál Jóakimsson. Veðrið var ákjósanlegt. Mikið væri nú gaman að fá svona veður 23. ágúst. 

Ég skrifa þetta blogg fyrst og fremst til að minna á að ég ætla að hlaupa til styrktar hjálparstarfs Palestínu. Mig langar að biðja sem flesta að ,,veðja" á mig.

Hlaupið er líka áskorun fyrir mig. Ég er orðin sjötíu og tveggja (72) ára gömul en ég veit að ég mun klára þetta.

http://www.hlaupastyrkur.is/ 


Skömmin bítur fórnarlambið, ekki hinn seka

Ég veit ekki hvort hún vinkona mín gerði sér grein fyrir hvað hún var að leggja á mig, þegar hún rétti mér bókina: Hägring 38 eftir Kjéll Westö. Þessa bók verður þú að lesa, þú verður enga stund.

Ég var ekki fljót að lesa þessa bók, hún er kannski á léttu máli en efni hennar er engin léttavara. Hún gerist í Helsingfors 1938 og segir frá lífinu nokkurra menntaðra sænsktalandi Finna, sem hafa haldið saman síðan á námsárunum. Aðalpersónur bókarinnar eru lögfræðingurinn Clace Thune og nýráðinn ritari han, frú Wiik. Clace er frjálslyndur og vel meinandi. Í upphafi vitum við lítið um frú Wiik en það slær mann hvað stéttamunurinn er afgerandi og útilokar eðlileg samskipti. Wiik á sér fortíð sem hún segir ekki frá þegar hún er ráðin og lesandinn fær vitneskju um smátt og smátt. Það er eitt af því sem gerir þessa sögu spennandi. Hitt sem viðheldur spennunni er þrúgandi ástand heimsmálanna, sem ,,vinirnir" hafa skiptar skoðanir á. Það er sem þrengt sé að úr mörgum áttum. Annars vegar er óuppgerð fortíð borgarastyrjaldarinnar hins vegar framtíð stríðs. Það er þegar búið að finna fórnarlömb og réttlætingu. 

Meðan ég las fylgdist ég með fréttum af stríðsátökum stríðanna ,,okkar" og velti fyrir mér hvort það væru einhverjar hliðstæður að finna. Mér fannst svo vera.

Við erum alltaf að sjá þess dæmi, hvernig skömmin bítur fórnarlamb sitt en ekki þann seka. Þetta er undarleg mótsögn. 

Þetta var sem sagt ekki beinlínis létt sumarlesning eins og það er orðað. Það sem mér fannst bókin segja skírast var þetta. Það er stöðug viðleitni hins seka, gerandans, að reyna að koma sökinni yfir á fórnarlamb sitt. Umhverfi sem umber ofbeldi er samsekt.  Ég þekkti ekki höfund þessarar bókar en hef nú lesið mér til. 

Ég mæli með þessari bók.

 

 

 

 

 


Síðbúin morgunhugleiðing

Þetta átti að vera morgunhugleiðing en það er kominn miður dagur.

Ég veit ekki hversu oft ég hef lesið um skattalækkanir og niðurskurð á þjónustu í sama blaði. Skattalækkanir eru ævinlega eru settar fram með jákvæðum formerkjum. Hins vegar er rætt um niðurskurð og skort á þjónustu sem eitthvað neikvætt. Eðlilega. Það er ævinlega eins og það séu engin tengsl þar á milli. Trúir fólk þessu, hugsa ég. Sér fólk ekki samhengið?

Í mínum huga eru tengslin svo augljós að mér finnst næstum barnalegt að tala um það. 

Í mínum huga er þetta einfaldlega gamla góða jafnan:

Skattarnir lækka og biðlistarnir lengjast 

eða

Skattarnir hækka og biðlistarnir styttast og þjónustan batnar

Hvað vill fólk? 

Ég er sjálf ekki í neinum vafa. 


Brunnar

Þar sem ég ólst upp á Austurlandi var vatnið yfirleitt sótt í bæjarlækinn, þar af nafnið. Mér fundust brunnar vera fjarlægt og framandi fyrirbæri, sem ætti fyrst og fremst heima í bókmenntum. Á Kleifarstekk þar sem við dvöldum, nokkur sumur, við heyskap, var þó hlaðinn brunnur. Vatnið úr honum var svalt og gott. Það var silungur í vatninu til að hreinsa vatnið. Var sagt.

Á skokkleiðinni minni vestur Sæbraut er myndarlegur brunnur. Hann er á óskastað fyrir mig, niður við Snorrabrautar en þá er ég nokkurn veginn búin að hlaupa 5 km. Í fyrra drakk ég alltaf af þessum brunni. Í sumar hefur þessi brunnur verið þurr, það hafa verið mér vonbrigði en líklega stafar það af því það var verið að vinna í gangstígum. Því er fyrir nokkru lokið og enn er ekki dropi af vatni.

Í dag, þegar ég hljóp þessa leið hugsaði ég um brunna og hvernig þeim er líst í Biblíunni en þeir koma þar oft við sögu. Konur hittust við brunninn. Ég hugsaði um ástandið í Palestínu og hvernig það er búið að taka vatnið frá fólkinu. Fyrst smátt og smátt og nú er búið að eyðileggja nær alla þjónustu, líka aðgang að vatni. Mér finnst ég vera ófær um að skilja hvernig því líður. Syrgjandi, hrædd, örvæntingarfull og þyrst. Nei, það getur engið skilið hvernig þeim líður, kannski sem betur fer. 

Einn þurr brunnur við Sæbraut veður eitthvað svo lítilfjörlegur.

 


Með gullband um sig miðja: One size

Margir að velta því fyrir sér, hvað taki við þegar þeir hætta að vinna. Það gerði ég a.m.k. en ekki óraði mig fyrir því að skipulagning á tíma minum myndi snúast um íþróttir. En þannig hefur það verið síðan ég fór að hlaupa reglulega upp úr sjötugu. 

Nú er hálfmaraþomið framundan, þetta er erfiðasta vika undirbúningsins og erfiðasti dagur vikunnar er í dag,  15 -21 km. 

Ég ligg enn upp í sófa og ,,nýt þess" að kvíða fyrir. Ég hef passlegan húmor fyrir sjálfri mér, sé alveg hvað þetta er vitlaust og veit vel að ég þarf ekki að gera þetta. Um leið veit ég að mér finnst það skemmtilegt um leið og ég er búin að hafa mig af stað.

 Í gær keypti ég mér gjörð með litlum flöskum fyrir vatn. Ég hef ekki reynt það áður og veit ekki hvort mér fellur það. Ég fékk útbúnaðinn á útsölu en fannst beltið eða gjörðin fulllosaraleg og hafði orð á því. Þetta er ,,one size" sagði stúlkan. Án gæsalappa. Ég velti því fyrir mér hvort hún væri í vandræðum með að finna íslensku orðin fyrir þetta eða hvort hún héldi að ég skildi þetta betur þannig. Það var einungis svartar gjarðir í boði, ég hefði alveg getað hugsað mér gilta. 

Þessi pistill er bara skrifaður til að draga á langinn að standa upp úr sófanum. En mikið er nú gott að hafa dottið í hug að fara skokka aftur

 

 


Rætur lyginnar

Kannski vantar eitthvað upp á að Guð almáttugur hafi mótað boðorðið um lygi nægilega vel áður en hann lét Móses um að meitla það í steininn. Mér finnst of afmarkað hjá honum að segja að maður eigi ekki að bera ljúgvitni gegn náunga sínum. Og hver er náungi minn, ef út í það er farið. Má ég kannski segja ósatt um allt mögulegt annað en þarna er til tekið? Nei, svona hugsar fólk ekki.

Reynsla mín er reyndar sú að börn læra snemma að þau eigi að segja satt og þau skilja vel að það er í flestum tilvikum farsælla til lengdar. Oft hafa þau líka prófað sig áfram og sannreynt þetta. Flest full orðið fólk er sammála um að hreinskilni og sannleikur er undirstaða heilbrigðra samskipta. Og hjá flestum er þessi trú eða skoðun svo inngreipt í vitundundina að fólki líður beinlínis illa ef það stendur sjálft sig að því að segja ósatt. 

Á þessu eru þó undantekningar. Ég hef tekið eftir því að það eru til að minnsta kosti tvær tegundir lygara.

1. Þeir sem ljúga blákalt, horfast einarðir í augu við viðmælanda sinn (og í myndavélina ef svo ber undir). Þetta fólk er oftast vel undir búið  og fær jafnvel annað fólk í lið mér sér. Því finnst jafnvel að það sé að verja góðan málstað.

2. Þeir sem vita ekki að þeir eru að ljúga, fullyrða út í loftið og blanda saman sönnum og ósönnum fullyrðingum. Ég hef mikið velt þessari tegund ósannindamanna fyrir mér og hallast að því að þessi árátta geti skýrst af tvennu: óskýrri hugsun og/eða óskhyggju.

Ég veit vil helst ekki tala um af hverju ég er að segja þetta núna, kannski vita lesendur mínir það. En mér finnst ég alltaf sjá hvenær einhver segir ósatt eða hagræðir sannlekanum. Og ég býst við að svo sé um fleiri. 

Rætur lyginnar geta sem sagt verið ólíkar en það erum við sem borgararnir sem erum jarðvegurinn. Við leyfum lyginni að slá rótum 

 

 

 


Hvað er verið að gera við kjötið og mjólkina?

Uppalin í sveit, í gamla daga, hugsa ég stundum þegar ég borða landbúnaðarafurð, hvað er eiginlega búið að gera við kjötið eða mjólkina. Ég þekki þá tíð, þegar allar þessar vörur voru unnar frá grunni á heimilunum og það var allt annað bragð. Það er oft talað illa um gamlar matarhefðir, stundum af vanþekkingu og stundum með réttu. Það hafa orðið miklar tæknilegar framfarir sem auðvelda geymslu á mat svo matargerð ætti að hafa fleygt fram. En oftast skilar það sér ekki í betra bragði. Ég veit ekki hversu oft og mikið ég hef hlustað á umræður um að ,,unnar matvörur" séu ekki hollar. Mér finnst þetta vera tugga, spurningin er hverju er blandað saman við.

Ég held að þarna hljóti að vera við milliliðina, afurðastöðvarnar eða hvað það nú heitir, að sakast. Það er ekki verið að meðhöndla vöruna rétt. Um daginn frétti ég af því að það væri hægt að kaupa óhrært skyr beint frá býli fyrir austan fjall og þvílíkur munur. Ég er löngu hætt að kaupa ,,unnar kjötvöru" reyndar unnar fiskvörur líka. Ef mig vantar álegg á brauð fer ég í pólsku búðina á Laugateig. 

 En þetta vandamál snýst ekki um mig og minn smekk eða matvendni. Það snýst um íslenskan landbúnað. Og eins og ég sagði í upphafi, er ég bóndadóttir og ég veit að ef eitthvað er þá á íslensk landbúnarvara að vera að minnsta kosti að  jafn góð og fyrrum. Og nú þegar um er rætt að breyta tollaumhverfi sem snúa að landbúnaði, ætti fyrsta krafan frá þeim sem vilja íslenskum landbúnaði vel að krefjast þess að ,,milliliðirnir" skili betri vöru.

Ég held að það þurfi einfaldlega að vanda sig. 

 

 


Núvitund

Ég skokka.  Í gær sannfærðist ég loksins um að fólk, sem hefur stöðugt verið að tala um slæmt veður, hefur trúað Því sjálft. Ég hélt nefnilega að þetta væru bara látalæti í fólki. En allt í einu voru allir stígar og allar götur fullar af fólki. Það var ekki þverfótað fyrir fólki og ég þekkti marga og sumir vildu að sjálfsögðu taka mig tali og spjalla. Ég hef séð í amerískum bíómyndum, að alvöruskokkarar, sem eru teknir tali, skokka á staðnum á meðan þeir spjalla, ég er ekki búin að ná valdi á þeirri list. Kann ekki við það. 

 Hugsaði um núvitund og hvort það væri ekki bara nýtt orð yfir að vera með sjálfum sér. Mætti manni sem var að ganga og tala í síma. Hugsaði um að líklega væri hann ekki með sjálfum sér heldur með öðrum. Var hann þá ekki í núvitund? Hugsaði um sjálfa mig og hvernig hugsun mín er út um allt þótt ég sé ein með sjálfri mér. Hugsunin stýrist af minningu um staði. Á ákveðnum stað hugsa ég um manninn sem var að laga drenið við húsið sitt í fyrra. Dag eftir dag hljóp ég fram hjá honum og hugsaði: Mikið er hann nú duglegur, líklega komin á eftirlaun eins og ég. Ég hljóp út á götu til að vaða ekki í mold og möl sem búið var að róta út á gangstéttina. Ég hugsaði:Mikið verður þetta nú fínt þegar það er búið. Núna hugsa ég ekki lengur hlýjar hugsanir meðan ég skokka fram hjá þessu húsi. Ég hugsa: Bölvaður kallinn. Hann er búinn að þekja garðinn sinn með  steinsteypu, ekki ein einasta planta. Ekki eitt blóm.  Svona fólk ætti ekki að fá að eiga garð.

Ég veit að ég á ekki að hugsa svona, líklega ætti ég breyta um leið.  Ég hætti að skokka annars ágæta og hæfilega langa skokkleið, þegar ég stóð mig að því, að á tilteknum stað, að hugsa síendurtekið um hundaskít. Þetta var, ekki í vetur heldur hinn, einhver hundaeigandi hafði pakkað skítnum inn og skilið hann eftir. Lengi, lengi. Og svo þegar búið var að fjarlægja pokann hugsaði ég enn, þarna var hann. Nú fer ég aðra leið. 

Í gær skein sólin og það var sterk angan af blómunum, rósum og ég mætti vinum. Í upphafi hélt ég að ég hefði skilið hvað væri átt við með orðinu núvitund, nú veit ég að ég hef ekki hugmynd um það. Hugsanir koma óumbeðnar, ég reyni ekki að stöðva þær en ég hef lært að láta ljótar hugsanir ekki dvelja lengi hjá mér. Þær eru íþyngjandi. 

 


Hrossakjöt í matinn

Við, ég og maðurinn minn, höfum nú verið gift í 37 ár. Mér fannst ástæða til að halda upp á þetta, svona af því að ég mundi eftir því. Hvernig á fólk sem hefur verið gift i 37 ár að gera sér dagamun? Málið hafnaði á mínu borði. Eftir að hafa velt fyrir mér ýmsum möguleikum, ákvað ég að matreiða hrossakjöt. Ég trúi því nefnilega sjálf að þannig hafi ég unnið hug hans a sínum tíma. Pönnusteikt hrossakjöt með sveppum og rjómasósu, það gerði lukku. Þetta passaði mínum efnahag.

i dag keypti ég að vísu folaldakjöt og matreiddi það sem róstbíf, framúrskarandi. Meðlætið var það sem á sænsku gengur undir nafninu slottspotatis. 

Drengurinn sem afgreiddi mig í Nóatúni í dag hélt reyndar að trippakjöt væri af eldri dýrum en hrossakjöt og þakkaði mér fyrir fræðsluna um, folald, trippi, hross. Ég held að hann hafi meinað það í alvöru. 

Þetta var sem sagt fullkomin máltíð, en er ástæða til að halda upp á afmæli sem enda á 7 ?

Það var Hjördís Hákonardóttir sem gaf okkur saman (ég spurði hvort ekki væri hægt að fá konu). Það gekk vel og á eftir fórum við í bíó, Pasólíni. Við vorum hvort sem er búin að fá barnapössun. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband