Hvernig líður ömmu þinni?

IMG_3201

Hvernig líður ömmu þinni?Í gamla daga þegar ég fór á bæi og hitti fólk, var ég oft spurð þessarar spurningar. Amma bjó heima hjá okkur og tekin að reskjast. Þó yngri en ég er núna. Ég var alltaf í vandræðum með að svara þessu. Amma talaði ekki mikið um líðan sína en ég vissi að hún var með líkþorn á tveimur tám og blóðþrýstingurinn var of hár. Læknirinn hafði ráðlegt henni að passa mataræðið. Vildi fólk fá að vita um þetta? Hún er hress, sagði ég. Heim komin sagði ég ömmu að þessi eða hinn hefði spurt um líðan hennar. Ég held að henni hafi þótt vænt um að fólk hugsaði til hennar.

Nú er öldin önnur. Leiðari Fréttablaðsins í dag ber yfirskriftina: Lyfjuð þjóð. Leiðarinn fjallar um óhóflega lyfjanotkun Íslendinga. Við skerum okkur úr. Það koma alltaf til svona rokur. Fjölmiðlar hneykslast.

Ég virði fyrir mér meðalaskjóðuna mína. Síðast þegar ég fór til læknis og bar mig upp við hann, talaði hann um að það þyrfti að verkjastilla mig. Ég hafði ekki heyrt þetta orðalag áður. Og nú tek ég þrjár tegundir af verkjalyfjum og ég er ekki einu sinni komin inn á biðlistann sem líklega bíður mín.

Eftir að hafa lesið Fréttablaðið tók ég mér góða stund með að athuga tölfræði Landlæknisembættisins um biðlista. Þeir eru margir, næstum eins margir og sjúkdómarnir sem  ég kann nafn á. Biðlistinn sem ég fer væntanlega á segir mér að miðjugildið fyrir bið þar sé 37 vikur. Er þetta gott, vont eða ásættanlegt. Ég veit það ekki. Ég veit að margir eru mikið meira veikir en ég. Það bætir ekki líðan mína neitt, gerir mig bara hrygga.

Og ég velti fyrir mér hvort lyfjanotkunin í landinu tengist ekki á einhvern hátt bið fólks á biðlistum. Er ekki líklegt að fólk verði kvíðið, þunglynt og að það sofi illa? Í leiðaranum, Lyfjuð þjóð talar leiðarahöfundur um að oft geti sálfræðiviðtöl eða  meðferð komið að gagni. Hann nefnir sem dæmi atferlismeðferð. Ég veit að það er rétt en hér er vinna sálfræðinga ekki styrkt af sjúkrakerfinu. Hún er því of dýr fyrir marga sjúklinga. Pillur eru ódýrari.

Ekki veit ég hvort ömmu börnin mín eru nokkurn tíma spurð, Hvernig líður ömmu þinni eða hverju þau myndu svara. Kannski myndu þau segja hún er hress ef hún er með hækjurnar. Það sem fólk spyr um núna er: Fer ekki að koma að ömmu þinni á biðlistanum? Að minnsta kosti er ég oft spurð og það er eins og það sé mér að kenna að ég hef bara ekki hugmynd um það.

Myndin er af kaffikvörn ömmu minnar og staukur undan kaffibæti


Ekki tímabært að ausa fé í gæluverkefni

IMG_0040

Ekki tímabært að ausa fé í gæluverkefni

Þannig hljóðar fyrirsögn Fréttablaðsins, sem samin er af tilefni af því, að lagt hefur verið fram fjárlagafrumvarp ársins  2017. Greininni fylgir graf, sem fangaði hug minn. Ég er mikill grafaðdáandi því ein mynd birtir oft meiri fróðleik en mörg orð. En ég hrífst líka stundum af myndrænu hliðinni og virði þau fyrir mér  sem listaverk. Þetta graf er listrænt. Þarna er sýnd tölfræðileg arfleifð bankahrunsins (grafið spannar árin 2004 til 2016). Fyrst fannst mér myndin vera af heysátu og svo fór ég að hugsa um bagga, skuldabagga.

Ég sagði að gröf vektu hjá mér listrænar kenndir og áður en ég vissi af var ég farin að rifja upp kvæði Jónasar, Alþingi hið nýja.

,,Bera bý

bagga skoplítinn

hvert að húsi heim“

Þetta er alveg lygilega gott ljóð og á reyndar enn vel við. En aftur að greininni. Efnislega virðist hún vera samantekt á einhverju sem fjármálaráðherra hefur sagt eða gæti hafa sagt -Við  þurfum að spara – og -Við þurfum að halda vel utan um fjármál ríkisins.

En það sem vekur furðu mína er fyrirsögnin. Hvað er átt við með gæluverkefni? Biðlistakonan, ég, fór strax að velta fyrir mér hvort þarna væri mögulega átt við, að bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins. Vonandi ekki. Er kannski átt við bruðlið við að skapa öryrkjum mannsæmandi kjör?

Ég kann ekki að ráða í fyrirsögnina. Við lifum á spennandi tímum en þeir eru ekki jafngóðir fyrir alla svo mér datt ekkert betra í hug en að hafa þetta blogg í lengra lagi og birta ljóð Jónasar um Alþingi hið nýja í heild sinni. Sá sem les það til enda fær skerpta sýn á hvað Alþingi er.

Myndin er ljósmynd af Fréttablaðsgrafinu.

Ljóðið er sótt á netið

Alþingi hið nýja

(1840)

Hörðum höndum
vinnur hölda kind
ár og eindaga;
siglir særokinn,
sólbitinn slær,
stjörnuskininn stritar.

Traustir skulu hornsteinar
hárra sala;
í kili skal kjörviður;
bóndi er bústólpi,
bú er landstólpi,
því skal hann virður vel.

 Fríður foringi

stýri fræknu liði,

þá fylgir sverði sigur; 

illu heilli
fer að orustu
sá er ræður heimskum her.

Sterkur fór um veg,
þá var steini þungum
lokuð leið fyrir;
ráð at hann kunni,
þó ríkur sé,
og hefðu þrír um þokað.

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim;
en þaðan koma ljós
hin logaskæru
á altari hins göfga guðs.

Vissi það að fullu
vísir hinn stórráði.
Stóð hann upp af stóli,
studdist við gullsprota:
„Frelsi vil eg sæma
framgjarnan lýð,
ættstóran kynstaf
Ísafoldar.

Ríða skulu rekkar,
ráðum land byggja,
fólkdjarfir firðar
til fundar sækja,
snarorðir snillingar
að stefnu sitja;
þjóðkjörin prúðmenni
þingsteinum á.

Svo skal hinu unga
alþingi skipað
sem að sjálfir þeir
sér munu kjósa.
Gjöf hefi eg gefið,
gagni sú lengi
foldu og firðum
sem eg fremst þeim ann.“

Þögn varð á ráðstefnu,
þótti ríkur mæla,
fagureygur konungur
við fólkstjórum horfði;
stóð hann fyrir stóli,
studdist við gullsprota,
hvergi getur tignarmann
tígulegri.

Sól skín á tinda.
Sofið hafa lengi
dróttir og dvalið
draumþingum á.
Vaki vaskir menn,
til vinnu kveður
giftusamur konungur
góða þegna

 

Jónas Hallgrímsson

 

 


Listamenn og bið-listamenn

IMG_3162

Guðbergur Bergsson  segir  frá því í, Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar, hvernig hann og bróðir hans gerðust listamenn. Þetta er dásamleg frásögn. Faðir hans var að byggja hús og það urðu listar afgangs sem hann afhendir þeim bræðrum með orðunum takið við töfrasprotunum. Síðar segir hann við þá að þeir séu orðnir listamenn.

Það líður að jólum og ég fylgist með því, full áhuga, hvernig rithöfundar kynna bækur sínar. Ég sem ann, sit heima og ófær um að njóta vegna stoðkerfisvandamáls. Ég er bið-listakona. Það var út af því, sem þessi frásaga rifjaðist upp fyrir mér. Reyndar er þetta ekki alls kostar rétt að ég kalli mig bið- listakonu því ég er bara á biðlista eftir því að komast á biðlista.

Það var sagt frá því fréttum í gær að jólaverslunin verði  öflug í ár, fólk virðist hafa óvenju mikið milli handanna. Það er góðæri og máltækið,,Það þarf sterk bein til að þola góða daga“ hefur öðlast nýja merkingu.

Er ekki ráð að hækka skattana hugsa ég bið-listakonan. Bara ögn. Bara til þess að fólk þurfi ekki í örvæntingu að ganga milli verslana til að eyða. 

Hvernig er eiginlega með þessa biðlista. Þeir skipta máli en við sem þeir eru gerðir fyrir, vitum svo lítið. Væri það ekki   réttindamál, að hafa þá opna svo maður geti fylgst með þeim, hvort það sé haft rétt við. Það gæti meira að segja verið spennandi. Það mætti búa til frétt: Í dag fóru Herborg Jónasdóttir og Björgólfur Sigurðsson í liðskiptaaðgerð. Næst er....

Nei, ég veit að þetta er ekki hægt. Guðbergur og bróðir hans léku sér með listana sína , meðan þeir entust. Það er ekki hægt að leika sér með biðlista.  Það er ekki einu sinni hægt að gera grín að þeim. En hvað geta stjórnvöld gert. Það er ekki einu sinni hægt að líta eftir hænum.  Hver fylgist með því að rétt sé farið með biðlistana?

Nei, við þurfum ekki eftirlit með biðlistum.

Við þurfum þá ekki.

Þeir eru óþarfir.

Við þurfum meira fé í heilbrigðiskerfið.

Það ætti að vera jólagjöfin í ár.

Myndin er af hvalbeinum fyrir utan sjóminjasafnið á Hellissandi og tengist ekki efninu. 

 

 

 


Óskráðar minningar mínar: Katia Mann

IMG_3494 

Blómaskeið evrópskrar menningar.

Ég er klaufi að leita í leitarkerfi Hljóðbókasafns Íslands . Stundum hafa villur mínar í vafri um þetta rafræna bókasafn verið happadrjúgar. Ég finn það sem ég er ekki að leita að. Nú síðast var það lítil bók, eftir Katia Mann, konu Tómasar Mann (1875 1958). Þessi bók hafði alveg farið fram hjá mér. Kannski hefur hún aldrei verið gefin út á prenti. Hún kom út í Þýskalandi 1974 . Hér var hún lesin í Ríkisútvarpið 1988, hún var þýdd og lesin af Hirti Pálssyni. Ekkert slor.

Bókin heitir því sérkennilaga nafni, Óskráðar minningar mínar. Í inngangi er sagt frá tilurð bókarinnar. Eftir lát manns hennar lét þýska sjónvarpið gera viðtalsþætti með henni. Það eru þessir þættir sem eru í raun kveikjan að bókinni. Börn hennar hvöttu hana til að vinna með þá áfram til að hægt væri að gefa minningarnar út.

Það var hún síðan með þeirra  hjálp og Elisabeth Plessen en hún réði sjálf titlinum, þar  gerir hún á  vissan hátt grín að þessu fyrirtæki.

 Bókin er í frásagnarformi. Næstum spjall. Katia rekur ævi sína frá því að hún var lítil stúlka í föðurhúsum en dvelur mislengi við fólk og atburði. Mest þótti mér koma til frásögu hennar  um bernskuheimilið í Munchen. Umfjöllun hennar um bækur og ritstörf bónda síns er fróðleg en það kallar á talsverða þekkingu á verkum hans. Í frásögninni kemur  fjöldi frægs fólk við sögu og stundum saknaði ég þess að vita ekki meira um viðkomandi til að skilja efnið enn betur.

Katia  fæðist 1883 inn í vel stæða yfirstéttarfjölskyldu. Faðir hennar var prófessor í stærðfræði en móðir hennar var leikkona áður en hún giftist. Þau búa ríkmannlega. Ég las mér til í Wikipedíu. Þar var sagt að húsið þeirra hefði verið 1500 fermetrar, jafnframt er sýnd mynd af tónlistarsal hússins. Í mínum augum líkist það meir höll en húsi. En Katia gerir sér ekki tíðrætt um stéttarstöðu sína, hefur sjálfsagt litið á það sem eðlilegt og sjálfsagt. En það er bjart yfir þessum bernskuminningum. Bræður hennar verða allir menntamenn en það tíðkaðist ekki þá að dætur gengu menntaveginn. Það var fyrir tilstillan móðurömmu hennar, Hedwig Bohm að Katia menntast. Hún fór þó ekki í menntaskóla eins og bræður hennar, hún fékk kennara heim og tók stúdentspróf, fyrst kvenna í Munchen og hóf því næst nám við háskóla í stærðfræði og eðlisfræði. Var  meira að segja nemandi hjá sjáfum Röntgen. En þá kom Tómas Mann og ruglaði líf hennar. Það litla sem hún sagði um ömmu sína, kveikti forvitni mína og ég fletti Hedwig Dohm upp í Wikepedíu. Þá sá ég að þessi kona er rithöfundur, kvenréttindafrömuður og friðarsinni. Stórmerkileg kona. Ég vildi óska að hún hefði talað meira um hana.

Tómas var líka kominn af ríku fólki í Lübeck en tilheyrði frekar borgarastétt en hástétt. Hann var eldri og þá þegar þekktur fyrir ritstörf. Eftir nokkuð hik, tók hún bónorði hans. Henni fannst lífið gott eins og það var og langaði ekki að giftast og yfirgefa fjölskyldu sína þar sem hún naut alls þess besta sem í boði var, samkvæmis- og listalíf í hópi bræðra og vina, sem voru rjómi af yfirstétt Munchenborgar. Katia víkur aldrei beint að hjónabandi sínu en talar því meira um verk mannsins sín, ritstörf og fyrirlestra. Hún talar ekki heldur beint um eigin skoðanir né upplifun sína af uppgangi nasismans. Það er merkilegt að hugsa til þess hvernig rótgróin menning kollvarpast. Hún segir í stuttu máli frá því hvers vegna þau hjón verða að yfirgefa Þýskaland, en Tómas gagnrýndi nasismann og það leiðst ekki. En það sem hún segir nægir til að vekja forvitni og langa til vita meira. En Katia var orðin gömul kona, hún dó 1980.

Og nú fær ekkert stoppað mig. Ég er dottin í Tómas Mann.

Myndin er af Katia ungri. Hana tók ég traustataki af netinu. 


13 dagar: Árni Þórarinsson

IMG_2584

Eftir að hafa glímt við Ó- sögur um djöfulskap, langaði mig til að lesa eitthvað létt. Bók Árna Þórarinssonar, Þrettán dagar, varð fyrir valinu. Ég reyni að fylgjast með íslenskum glæpasögum sem út koma en verð oftar og oftar fyrir vonbrigðum. Veit þó ekki hvort það er sögunum að kenna eða hvort ég hef breyst.

Einu sinni tók ég kúrs (við Uppsalaháskóla) í því sem hét þá á sænsku, triviallitteratur (afþreyingarbókmenntir). Við vorum látin lesa glás af slíkum bókum, sem fengust oftast við kassann í matvörubúðum. Mér fannst allt í lagi að kaupa Dashiell Hammet og Raymond Chandler. En það kom hik á mig þegar röðin kom að því að kaupa rauðar og bleikar ástasögur. Hvað ætli kassa- daman haldi um mig? Á ég að segja að ég sé að kaupa þetta fyrir einhvern annan? Svo skammaðist ég mín. Og skammaðist mín enn meira fyrir að skammast mín. En nóg um það.  Kúrsinn gekk vel og eina menntunin sem ég hef í bókmenntafræði fjallaði um slíkar bækur.Líklega var erfiðast við þennan ágæta kúrs vandinn við að skilgreina, hvaða bækur féllu undir hugtakið triviallitteratur sem kúrsinn gerði út á.

Eins og oft gerist í námi, lærði ég mest um sjálfa mig. Nú vissi ég að ég var hégómleg. Auk þess komst ég að því að ég hafði meira gaman af siðfáguðum ráðgátubókum í anda Agötu en hörðum krimmum, með sóðalegum morðum þar sem söguhetjan áttu  oftast byssu en beittu þó hnúum og hnefum, þegar kom til kastanna. Ég vissi líka að ég tók, Maigret Simenons og Beck, með sitt rólega fas, fram yfir James Bond.  

Nám mitt í ástarsögufræðum skilaði mér ekki eins miklu. Þó lærði ég formúluna og að ungar stúlkur verða oft ástfangnar af röngum manni, sjá ekki góða strákinn. Þetta vissi ég reyndar áður. En það var gott að fá það staðfest.

Ég hef ekki hugsað um þetta lengi en það kom til mín þegar ég var að lesa bók Árna um blaðamanninn Einar, sem ævinlega flækist inn í mál, sem hann er að skrifa um. (Einar virðist líka verða ástfanginn af óheppilegum konum). Hann er nú hreint engin hetja en glæpirnir eru sóðalegir. 

Sögurnar um Einar blaðamann eru raðglæpasögur (er að reyna að forðast að nota séríuglæpasögur), maður þarf og lesa hverja og eina og helst í réttri röð. 

Nú vinnur Einar á blaði sem minnir um margt á Dagblaðið. Hann er í sambandi við alveg venjulega konu og er ábyrgur faðir. Ef það er ábyrgt að taka 16æ ára barn með sér við að fletta ofan af hættulegum glæpamönnum en hann hefur fengið Gunnsu dóttur sína til liðs við sig.

Sagan fjallar um íslenskan glæpaheim, sem er alltaf erfiðari viðfangs en sá útlendi. Í útlöndum getur allt gerst. En það er erfitt að sannfæra ísenskan lesanda um íslenska glæpi. Hér  fréttist allt, líkfundur í Elliðaárdalnum myndi ekki hafa farið fram hjá neinum. Líklega er það að einhverju leyti þess vegna sem mér féll ekki nógu vel við þessa bók. Ekki hjálpar það hvað ég er illa að mér um engilsaxneska popptónlist. En Árni notar hana mikið til að skapa andrúmsloft og er áreiðanlega vel að sér. Og svo hafði ég ekki lesið bókina á undan. 

Ég er sem sagt búin með þessa bók og ætla við tækifæri að lesa bókina sem mig vantar inn í, Morgunengil.

Myndin er tekin á góðum degi í Elliðaárdalnum.


Ó- sögur um djöfulskap Carl Jóhan Jensen

image 

Ég hef nú lokið við bók Carl Jóhan Jensen Ó- sögur um djöfulskap. Ég hlustaði á hana sem hljóðbók og hún tók u.b. 40 tíma í afspilun. Ég var spennt fyrir þessari bók, hún kom út á íslensku 2013 (Færeyjum 2005) en hljóðbókin kom ekki fyrr en í  apríl 2016. Það er þýðandinn Ingunn Ásdísardóttir sem les og það gerir hún frábærlega vel.

Þetta er mikil saga, ég hef ekki ráðist í stærra verkefni síðan ég las Biblíuna. Það er reyndar ekki svo fjarri lagi að hugsa til þeirrar bókar, bæði er hún lík henni um margt  og svo er ósjaldan vitnað til ritningarinnar í Ó- sögum um djöfulskap. Það er erfitt að lýsa þessari bók. Í reynd er hér á ferðinni margar mislangar sögur, sem margar eru þannig gerðar að þær gætu staðið einar sem smásögur. Í sögunum er sagt frá færeysku fólki en frásagan er ekki í tímaröð svo lesandinn er allan tímann að púsla, til að fá heillega mynd. Til að rugla lesandann enn frekar er oft skotið inn löngum neðanmálsgreinum til að rengja frásögn sögumannsins. Auk þess gerir kennslukonan fröken Flor af og til athugasemdir inni í frásögninni. Þetta verður þó hvort tveggja til að gera söguna enn trúverðugri.

Það er frásagnarmátinn, stíll og innihald sem hrífur mann mest. Allar lýsingar eru ofurnákvæmar. Stundum er eins og maður sé að horfa á mynd. Mynd með lykt, bragði og snertingu.  En tungumálið getur gert það sem pensill og myndavél geta ekki. Með orðum er hægt að lýsa innri veruleika, litrófi tilfinninganna.  

Í raun er ekki hægt að lýsa þessari bók en ég reyni af því ég er sjálf að reyna að átta  mig á henni og hvað mér finnst um hana. Það eina sem ég veit, er að mér finnst hún góð. Engu lík. Það væri þó synd að segja að það sé bjart yfir lífi fólksins sem kemur við sögu. Hér er ekki verið að lýsa gleði og þaðan af síður rómantík. Fólkið virðist vera á valdi tilfinninga sem það ræður ekki við og losta. En stundum minnti frásögnin mig á sögu góðs sögumanns sem vill fræða þann sem er nýfluttur í sveitina um sögulegan fröðleik bygðarlagsins. Þessi saga speglar svo margt. 

En þetta gerir höfundur öðru vísi en nokkur annar sem ég hef lesið, frásagan er afar holdleg, tilfinningar fólks eru í líkamlegar og andlegar í senn.  

Mér gekk illa að ná utan um söguþráðinn og hef á tilfinningunni að best væri að lesa þessa bók undir leiðsögn. Ef það væri boðið upp á námskeið í Ó- sögum um djöfulskap, væri ég fyrsta manneskja til að skrá mig. 

Þegar ég lít yfir það sem ég hef sagt um þessa bók, er er það kannski ekki hvatning fyrir aðra til að lesa hana. Ég geri mikið úr erfiðleikunum. En í hreinskilni sagt er bókin erfiðisins virði og ég veit að ég mun lesa hana aftur Æog kannski enn aftur. Hún er heillandi, hún virkjar öll skilningarvitin.

Það er ekki hægt að skilja við þessa bók án þess að minnast á þýðandann. Bókin er á lifandi, litríkri og leiftrandi íslensku. Hún hlýtur að vera vel þýdd.


Smjörklípuvélin

imageÍ gamla daga,þegar ég var ung, framleiddum við stundum smjör á mínu heimili. Við áttum smjörmót og eigið framleiðslunúmer, til að neytendur gætu rakið hvaðan smjörið var. Það er langt síðan. 

Löngu seinna lærði ég orðið smjörklípa. Það hefur með pólitík að gera og maður þarf hvorki mót eða númer til að útdeila slíku smjöri, enda ókeypis vara. Ég fór að hugsa um þetta þegar ég lenti í vandræðum með að finna smjörið á morgunverðarborðinu á hótelinu þar sem ég bý. Var þá bent á undarlegt tæki sem mótar litlar sætar smjörklípur, þegar ýtt er á takka. Hugsaði strax heim, svona tæki gæti nýst sumum í pólotíkinni. 

Mér fannst svo mikið til tækisins koma að ég tók mynd af því. 

En auðvitað er þetta vegna þess að hugurinn er á einhverju pólitísku svamli. 


Á hækjum um Berlín

image

Er búin að kjósa en hugsa heim. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn pólitísk, því nú finn ég æ á eigin skinni hversu miklu máli skiptir að við fáum starfhæfa stjórn sem vill takast á við að endurreisa velferðarkerfi á Íslandi. Ég segi, á eigin skinni því nú þarf ég á hjálp að halda og ég hélt að ég væri búin að vinna mér hana inn, ég hef verið ein af þessum með breiðu bökin, sem borga skatt án efirsjár og trúað því að ég fenginþetta allt launað, ef og þegar ég þyrfti á því að halda. Þannig er því eflaust varið með marga. Ég þekki engan sem ekki vill gott heilbrigðiskerfi.t 

En tíminn hér í Berlín er búinn að vera góður. Ég er búinað vera slæm í baki og mjöðm frá því í apríl og gengið við hækju. Allt í einu datt mér í hug að það væri svo sem ekkert verra að vera á hækjum erlendis. Mér fannst ég þurfa að styrkja mig til að detta ekki niður í þunglyndi. 

Og tíminn í Berlín er búinn að vera dásamlegur. Tónleikar og leikhús svo ég tali nú ekki um bjór og góðan mat. Nú líður að lokum dvalarinnar og ég bíð spennt eftir úrslitum kosninganna. Ekk þægilega spennt eins og á kappleik eða spurningakeppni. Nú snýst þetta um mitt eigið líf. Hvað verður tíminn á biðlista löng? Fæ ég áfram lyfin sem forða mér frá því að forða mér í lengstu lög frá því að verða alveg blind?

Ég kaus Samfylkinguna áður en ég fór í ferðalagið, því henni treysti ég best þótt það sé á brattann að sækja. 

Kosningar eru ekki spaug. Þær eru dýrt spaug.


Fyrir hvað er verið að refsa Samfylkingunni?

 image

Stundum finnst mér gott að flækja ekki hlutina, hugsa einfaldar hugsanir, kannski að því er virðist barnalegar. Pólitík þarf ekki að vera flókin. Það eina sem maður þarf að vita er hvernig þjóðfélag við viljum hafa og hverjum þú treystir best til að vinna aað því að koma því á.

Þegar maður les niðurstöður skoðanakannana blasir að það við að Samfylkingunni skal refsað. En fyrir hvað? Af því pólitík skiptir máli hef ég reynt að finna svar eða svör við þessari spurningu.  Og af því að mér finnst eðlilegast að vera opin og ræða af hreinskilni um það sem skiptir mig máli, ef ég á annað borð ræði það, þá get ég sagt það strax að þessar vangaveltur mínar eru ekki síst sprottnar af því að ég hef kosið Samfylkinguna og ég ætla að kjósa hana í komandi kosningum.

Aftur að spurningunni. Mér finnst ekki ólíklegt að sumir óánægðir með hvernig hún stóð að málum þegar Hrunið varð, hún var jú annar ríkisstjórnarflokkurinn. Hrunið kom illa við marga, sumir töpuðu fé og eignum og enn aðrir misstu þá öryggistilfinningu sem þeir höfðu haft og þó sér í lagi traust sitt á stjórnmálamönnum. Enn ef þetta er svarið, hvers vegna eru menn þá ekki að hegna Sjálfstæðisflokknum? Aðkoma hans að fjármálum  og sér í lagi að Hrunmálunum var þó mun meiri en Samfylkingarinnar.

Liggur þá skýringin í því hvernig Samfylkingin stóð að því að rétta við fjármál þjóðarinnar að Hruni loknu? Þá voru margar erfiðar ákvarðanir teknar og það er sjálfsagt ýmislegt út á þær að setja, þetta voru erfiðir tímar og það þurfti að vinna hratt. En ef skýringin liggur þarna, af hverju er ekki Vinstri Grænum refsað líka?

Þriðji möguleikinn er að fólki lítist einfaldlega ekki á núverandi stefnu Samfylkingarinnar og treysti ekki fólkinu sem er í framboði? Það er erfitt að finna svar við þessu, en ég hef skoðað þessa stefnu og borið hana við það sem aðrir flokkar bjóða og mín niðurstaða er að ég ætla að kjósa þennan flokk. Og fólkið? Marga þekki ég  og treysti og aðra hef ég reynt að fræðast um og mér líst vel á. Auðvitað er margt gott fólk í framboði hjá öðrum flokkum, svo þegar til kastanna kemur ræðst niðurstaða mín af stefnunni.

Núverandi stjórnarflokkar bera mikla ábyrgð. Ég sé þá fyrir mér sem flokkana sem gátu ekki látið borgara landsins njóta góðs af einhverju mesta góðæri sem þjóðin hefur lifað. Þeir eru flokkarnir sem hafa lagt sig fram um að rústa velferðarkerfinu og foringjar í forystusveit þeirra hafa orðið vísir af ósannindum og undanbrögðum með eigin peninga. Við getum ekki treyst fólki sem vill að það gildi önnur lög fyrir þá en fólkið í landinu,

Ég get sem sagt ekki svarað spurningunni, fyrir hvað kjósendur ætla að refsa Samfylkingunni og langar að biðja aðra svara þeirri spurningu hver fyrir sig. Það er óþarfi að segja mér svarið, það er einfaldlega of seint. Ég vil kjósa flokk sem stendur fyrir jafnaðarstefnu og gengst við henni.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna, hún er glæsilegur flokkur.

Mín lokaorð eru fengin að láni (að breyttu breytanda) frá einum okkar virtasta stjórnmálamanni. Tími Samfylkingarinnar mun koma.


Den sanna historien om Pinocchios näsa: Hin sanna saga um nefið á Gosa

imageDen sanna historien om Pinocchio näsa:Leif G.W, Persson

Var að ljúka við að hlusta á geisladisk með bók Leif G. W. Persson sem á íslensku myndi heita, Hin sanna saga um nefið á Gosa. Ég hef miklar mætur á Person hann skrifar svo kjarnyrta og fallega sænsku að það er unun að lesa. Auk þess kann hann að búa til sögu sem rígheldur manni við efnið og sjónarhorn hans á sænska glæpaheiminn og þó einkum og sér í lagi er sýn hans á starf lögreglunnar er dæmalaust. En í þeim heimi stendur hann föstum fótum, hefur starfað sem lögreglumaður í áratugi og seinna doktor í lögreglufræðum við rannsóknardeild lögreglunar. Hann er ekki síður þekktur í fjölmiðlum, bæði sem sá sem leitað er til sem sérfræðings og einnig fyrir sérstaka þætti.

En nú vissi ég ekki hvað ég var að fara út í. Hingað til hef ég lesið bækurnar en nú hlustaði ég og hafði ekki hugmynd um hvað sagan var löng. Ég settist því í besta stól heimilisins eftir að hafa gengið frá eftir morgunmatinn, sem hjá mér er um hádegisbil og hlustaði og vann að handavinnu.

Og sagan var löng. Eftir að hafa setið við í a.m.k. fimm daga, var sagan búin. Og hvílík saga.

Reyndar vissi ég fyrirfram að bókin fjallaði um lögreglumanninn Evert Bäckström en hann þekki ég frá fyrri bókum. Bäckström er afar ógeðfelld persóna, lítill feitur kall, sem hefur fyrst og fremst áhuga á að maka krókinn og vera eins lítið í vinnunni og hann kemst upp með. Hans aðaláhugamál eru peningar, vodka og kvenfólk. Hann er fullur af mannfyrirlitninguí og þó sérstaklega kvenfyrirlitningu. Satt að segja minnir hann á mann sem nú er í framboði til forseta í Bandaríkjanna.

En þrátt fyrir þetta allt saman, stýrir hann lítilli deild innan lögreglunnar í miðbæ Stokkhólms, einmitt þar sem kóngurinn og margt vel stætt fólk býr. Málið sem hann fær nú fær til rannsóknar virðist í fyrstu ekki stórt í sniðum. Það hefst sem klögumál út af illri meðferð á dýrum en fljótlega bætist við morð á lögfræðingi sem sérhæfði sig í að verja glæpamenn, síðan berst leikurinn inn í fína kredsa  í átt að konungsbústaðnum, loks lýkur því sem  ... ? En frá því ætla ég ekki að segja hér vegna þeirra sem ef til vill taka sig til að lesa þessa sérstöku bók.

Það var satt að segja talsvert strembið að halda þræði. Einkum og sér í lagi vegna þess að Person hefur yndi af útúrdúrum og oft löngum, sem reyndar eru mun skemmtilegri en sjálf glæpasagan. Í þetta skipti var m.a. fjallað um samskipti Bäckströms við páfagauk, lögmál listaverkamarkaðar, rússneskan aðal og keisarafjölskylduna sem kommúnistar drápu og loks um hálfruglaða (að því er virðist) sænska konu af aðalsættum. Þetta var allt greinargott og áhugavert en á meðan týndist þráður glæpsins.

Þessi ógeðfelldi lögreglumaður lifir satt best að segja mjög reglusömu lífi. Dagurinn byrjar með morgunbaði, á eftir klæðir hann sig í silkislopp og blandar sér fyrsta drykkinn. Ef hann á annað borð mætir í vinnuna, sýnir hann yfirlæti en í huganum er hann að skipuleggja hvaða hóru hann ætlar að fá heim til sín að vinnu lokinni.

Í þetta skipti fór þessi tilbúni lögreglumaður í taugarnar á mér. Það er öðru vísi að hlusta en lesa, það er eins og maður sé óvarinn. Núna varð ég miður mín þegar vesalings kallinn fór að tala um besta vin sinn, sinn eigin lim, sem hann kallar gælunafninu Súpersalamin og hugrenningar hans um nuddkonuna sem hann fór alltaf til á föstudögum til að fá sérmeðferð, fóru líka í taugarnar á mér. Svo ég tali nú ekki um fantasíur hans um finnsku heimilishjálpina sem hann borgaði fyrir hjálpa sem var fyrir utan stafsrammann.

Undir lok bókarinnar var ógeðið komið upp í háls en ég er staðföst kona þegar kemur að bóklestri og lauk sögunni.

Lestur bókarinnar var frábær (Peder Falk) en ég mun í framhaldinu hugsa mig um tvisvar áður en ég hlusta á fleiri sögur með þessum hræðilega lögreglumanni. Og ég mun heldur ekki borða salamí í bráð!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband