Eins og málverk

F509E0D6-84FD-4DDC-81DD-C917F12D032DEins og málverk

Bókin Ína eftir  Skúla Thoroddsen er eins og málverk.

Sagan er vísun í leiðangur  sem Walther von Knebel , Max Rudoff  og Hans Reck fóru í til Öskju árið 1907. Tveir þeirra, Walther von Knebel og Max Rudoff hurfu sporlaust,  félagi þeirra, Hans Reck, var einn til frásagnar. Hann gat lítið um málið sagt því hann var annars staðar við rannsóknir daginn sem þeir hurfu. Ári síðar fer hann í leiðangur til að rannsaka betur aðstæður til að finna skýringar á því hvað hefði gerst og með von um að finna líkamsleirfar mannanna tveggja. Með í för var Ína von Brumbkow unnusta Walther von Knebel.

Saga Skúla er spunnin í kringum þessa síðari ferð og allt það sem gerðist, út frá sjónarhorni Ínu. Þetta er þó engin vvwnjuleg sagnfræðileg frásaga. Höfundur nýtir sér þessar dramatísku og rómantísku  aðstæður til að mála myndir með orðum. Í fyrsta kafla bókarinnar er Ína er kynnt til sögunnar sem gömul kona, sem situr ein í húsi sínu í Berlín 1942 og hugsar til baka um lífshlaup sitt.

ÞegarÍna kom til Íslands var hún ung listakona, sem teiknaði og málaði myndir.  Frásagnarmáti Skúla á því vel við.

Ína og Hans fara í fótspor Walthers og Max og Ína hugsar til hans í sorg sinni og reynir þannig að nálgast hann. Ína er í frásögn Skúla áhugasöm um Ísland og vel að sér. Það spretta fram vísanir í skáldskap sem þá var á allra vörum. Á Akureyri hittir hún Matthías Jochumsson og á tal við hann á Sjónarhæðum. Sá Matthías sem hún hittir er í senn prestur og  reyndur sálusorgari. Hann skynjar sorg hennar og hjálpar henni til að   vinna úr áfallinu sem hefur heltekið hana. Eftir þetta  verða þáttaskil í lífi hennar. En þetta er ekki bara saga Ínu og þýsku leiðangranna tveggja, 1907 og 1908. Það er brugðið upp mynd af  eldgosum frá sjónarhorni íslenskrar alþýðu og frá sjónarhorni fræðimanna í útlöndum. Þetta er einstæð lýsing á hugarheimi fólks í lok 19.  aldar og við upphaf þeirrar 20. Og þessi hugarheimur er ekki bara neyð og myrkur, vegna óblíðrar náttúru og fátæktar. Þessi hugarheimur er fullur af von og þrá, gleði og fegurð.

Mér fannst merkilegt að lesa þessa bók, því ég vissi ekki á hverju ég átti von, hélt að þarna væri á ferðinni söguleg skáldsaga. Kannski má líta svo á. En mér fannst bókin vera eins og langur ljóðabálkur, textinn er svo fallegur.Ekki spillir að það er Hanna María Karlsdóttir sem les og hún er frábær lesari.

Ég sagði í upphafi að mér fannst bókin vera eins og nálverk, málað með orðum en ég vissi ekki hvort verkið minnti meira á Eggert Pétursson eða á Kjarval. Nú hallast ég að því að hún minni á þá báða tvo.


Maður er manns gaman

011FD7F6-F3AF-4E6F-AE1F-91D0E0B379AFMaður er manns gaman

Eða það hélt ég. En reynsla mín undanfarna

mánuði fær mig til að efast um sannleiksgildi þessa  spakmælis.

Búferlaflutningar

Ég, við hjónin, höfum verið að leita okkur að þægilegra húsnæði með það fyrir augum að kaupa íbúð í lyftublokk. Við skoðuðum margar. Alls staðar, í hverri einustu íbúð, var okkur sagt af eigendum eða sölumönnum að næðið í íbúðinni væri  slíkt, að þetta væri eins og að búa í einbýlishúsi. Og ég kinkaði kolli,  eins og  ég væri sammála. Innra með mér hugsaði ég, þarf þetta að vera svona? Væri ekki meira gaman að  búa í blokk þar sem væri sagt við mann,“Það er svo gaman á húsfundunum,“eða allir ganga svo vel um sameignina? “

Ég er sjálf alin upp í sveit, þar sem gestakomur þóttu viðburður. Það þótti við hæfi að leggja frá sér orfið eða hrífuna og drepa á dráttarvélinni eftir að hún kom til sögunnar. Svo var hellt upp á kaffi og talað. Talað mikið.

Manneskjan er oftast ein.

(En nú með síma)

Við lifum á tímum tækni, hún léttir okkur lífið. Óneitanlega.   En það er lítið  talað um hvað það er sem tapast í leiðinni. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um samveru við menn. Skiptast áaugnatillitum. Brosa og segja nokkur orð.  Það þóttu tíðindi, þegar sjálfsafgreiðsla hófst í búðum. Ég held að það hafi verið árið sem ég fermdist sem Kaupfélag Stöðfirðinga á Breiðdalsvík tók upp þessa nýjung. Nú  getur maður

keypt nær allar vörur  án þess að yrða á fólk. Já, nema í fiskbúðum. Þar fær maður fiskinn afgreiddan yfir borðið og því fylgir spjall við fisksalann. Mér leiðist aldrei að fara í fiskbúð.

Það er búið að gera dýr að lúxusvöru

Umgengni við dýr er líka gefandi. En dýrahald er  skuldbindandi og krefjandi.

 Eftir að hafa horft á sjónvarpsþátt frá Japan þar sem  vélhundar heimsóttu gamalt fólk á elliheimili til að  gleðja það, fór ég alvarlega að velta því fyrir mér, hvort maðurinn væri í þann veginn að hagræða sjálfan sig í burtu.

Á Íslandi eigum við heimsmet í að amast við dýrum. Í blokkinni sem ég er að flytja í er dýrahald að sjálfsögðu bannað. Kannski get ég keypt mér róbótkött?

 Og vinnan. Það  er eins og það hafi gleymst að mörgum finnst líkamleg vinna skemmtileg. Í hófi. Nú koma  heilsuræktarsalir að einhverju leyti í staðinn.

Eftirmáli

Fyrri hlutinn af þessum pistli var skrifaður í Álfheimunum þar sem ég hafði búið í 20 ár, þetta í eftirmálanum er skrifað í nýju heimkynnunum í Þverholti. Búferlaflutningar eru  líkamlega og andlega erfiðir.

Ég ákvað að því nota þá sem tækifærið til að kynnast sjálfri mér. Hvernig kona er það sem á allt þetta dót? Auk þess eru flutningar líkamlega erfiðir. Minna mig helst á smalamennsku. Mér fannst ég skynja með áþreifanlegum hætti, hversu mikilvæg tengslin við vini og vandamenn eru.

Sem sjá má, er þessi pistill ekki um bækur. Það er þó langt í frá að ég sé hætt að lesa. Flutningarnir hafa síður en svo truflað lesturinn, það tók bara tíma að ganga frá tölvuskjánum. Næst ætla ég að skrifa um bókina Ínu eftir  Skúla Thoroddsen. Hún kom mér á óvart. Efni hennar tengist Öskju og ég hafði ekki fyrr lokið lestrinum, þegar Askja minnti á sig.  


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Sept. 2021
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband