27.6.2013 | 11:23
Appelsínur frá Abkasíu: Vera Hertzsch, Laxness og hreinsanirnar miklu
Það eru meira en tvö ár síðan ég hlustaði á Jón Ólafsson halda fyrirlestur um Gúlakkið og konurnar uppi í Háskóla Íslands. Hann sagði frá bók sem hann var með í smíðum og sýndi nokkur yfirlitskort til skýringar efninu og myndir. Kortin sýndu dreifingu fangabúða í Sovétríkjunum, vinnubúðir sem nú ganga undir samheitinu Gúlag og myndirnar voru sömuleiðis frá þessum stofnunum. Dreifingin, kannski væri réttara að tala um þéttleika, kom mér á óvart og ekki síður hversu margar þessara búða voru í Evrópuhluta Ráðstjórnarríkjanna. Ég hafði áður ímyndað mér að þær væru flestar í austurhluta í Síberíu. Allt í einu skildi ég að þannig var þetta auðvitað, því nálægt þéttbýlustu svæðunum var hagkvæmast að reka þær, þær þjónuðu veigamiklu hlutverki í framleiðslukerfinu og uppbyggingu þessa víðfeðma ríkis. Ég ákvað strax meðan ég hlustaði á fyrirlesturinn að þessa bók ætlaði ég að lesa.
Og loksins kom ég því í verk, ég tók hana með mér austur í Breiðdal, ásamt bókinni um Stalín sem ég hef lengi glímt við. Það er mikill munur á þessum tveimur bókum þótt að hluta til fjalli þær um sama efni og stangist alls ekki á. Önnur, bókin um Stalín, fjallar fyrst og fremst um persónur og ég saknaði oft að fá ekki tækifæri til að skoða sögur þeirra í víðara samhengi. Jón lætur reyndar líka ákveðnar persónur í aðalhlutverk, því eins og nafn bókarinnar gefur til kynna eru það Vera Hertzsch og Halldór Laxness sem fara með þessi lykilhlutverk. En í raun er það sagan sem er í aðalhlutverkið, saga fólksins sem sem trúði því í einfeldni sinni að það væri hægt að skapa betri og réttlátari heim, þetta er sagan um manneskjur sem byltingin sveik og fólkið sem stóð álengdar tvístígandi og hafðist ekki að.
Eins og höfundur bókanna um Stalín, Montefiore, sviðsetur Jón sögu sína. Hann segir frá fundi Halldórs og Veru sem tengdist okkur Íslendingum vegna þess að hún hafði eignast litla stúlku, Erlu Sólveigu, með íslenskum námsmanni í Moskvu, vini Halldórs. Fyrsta senan er frá heimili Veru, hún hefur boðið Halldóri í mat og hann færir henni appelsínur sem hann hefur fengið að gjöf og fulltrúar kerfisins koma til að handtaka Veru. Halldór forðar sér af vettvangi, gat sjálfsagt lítið gert enda liggur "glæpur" hans ekki í því heldur í því hvernig hann túlkar þennan atburð. Halldór fyllti flokk margra sem trúði því að það sem stjórnvöld gerðu í Ráðstjórnarríkjunum væri nauðsynlegt til að tryggja framgang einhvers sem væri miklu stærra en lí fog örlög nokkurs einstaklings. Hann fyllti flokk þeirra sem trúði því að tilgangurinn helgaði meðalið. Vera er örvingluð og ráðalaus, hún var sannfærður sósíalisti og hafði það eitt sér til saka unnið að vera eiginkona manns sem einnig hafði verið ákærður og tekinn af lífi fyrir upplognar sakir.
Vera og litla dóttir hennar fara í fangabúðir og hvorugri þeirra auðnast að komast þaðan út aftur. Þær eru í bókinni fulltrúar fórnarlambanna. Reyndar vitum við ekki mikið um þær mæðgur, um þær liggja engin gögn nema þær fátæklegu færslur sem finna má í gögnum fangelsiskerfisins. En margir fangar og þá sérstaklega konur skrifuðu minningar sínar frá fangabúðarvistinni og Jón notar þessar sögur og gögn til að geta sér til um líf Veru og dóttur hennar. Jafnframt rekur hann sögu þrælkunarbúðanna, Gúlagsins.
Þetta er frábærlega vel skrifuð bók. Hún er allt í senn, fræðandi, spennandi og sorgleg. Merkilegust finnst mér hún þó vera fyrir hugleiðingar Jóns um stöðu okkar, fólksins og ábyrgðina sem felst að því að vera manneskja. Og þá sérstaklega ábyrgðina sem fylgir því að vera frjáls og upplýst manneskja og nauðsyn þess aðn rísa upp gegn óréttlæti þegar þess gerist þörf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2013 | 14:33
Með Stalín á Austfjörðum
Þegar kemur að því að hafa stjórn á bókavali er stundum eins og mér sé ekki sjálfrátt. Hvað eftir annað "lendi ég í því" að hefja lestur á löngum bókum sem eru svo óhuggulegur lestur að þær lát mig ekki í friði. Þannig var með Biblíuna og þannig er með bækurnar um Stalín sem ég hef nú lokið. Fyrst las ég Stalín unga og svo lauk ég við að lesa ævisögu Stalíns í sveitasælunni fyrir austan.
Þessar bækur eru eftir sagnfræðinginn Simon Sebag Montefiore og ég hef áður vikið að þeim í pistlum. Bókin sem ég var að ljúka við og ég las á sænsku heitir á því máli STALIN den röde tsaren och hans hov (STALÍN, rauði keisarinn og hirð hans). Hún fjallar um tímann frá 1927 þegar Stalín var orðinn valdamesti maður Sovétríkjanna fram til dauða hans. En hún fjallar ekki bara um Stalín heldur einnig um fólkið í kring um hann, um fjölskyldu hans, vini og samstarfsmenn. Höfundur segir sjálfur að hann ætli sér að komast á bak við það sem hann kallar mystikina um Stalín og það gerir hann með því að fara ofan í saumana á ýmsum sögnum um persónulegt líf þessa manns og fólksins í kring um hann.
Bókin hefst á frásögunni af Nödju, síðari konu Stalíns og veislunni sem "hirðin" sat sem lauk með því að Nadja svipti sig lífi. Höfundurinn sviðsetur þennan atburð og notar um leið tækifærið til að rekja aðdraganda hans og kynna til sögunnar veislugesti sem allir eiga síðar eftir að koma við sögu. Það er trúlega þessi leikni höfundar til að sviðsetja sem gera bókina svo læsilega, spennandi. Hann tínir líka til fjölmargt sem ég held að hljóti að flokkast undir slúður og oft á tíðum fór það í taugarnar á mér, sérstaklega af því það virðist sem höfundur sé furðuógagnrýninn hvað það snertir. Reyndar geri ég mér fyllilega grein fyrir að það hefur verið slúðrað þar og þá rétt eins og núna en en er gamalt slúður eitthvað merkilegra en nýtt? Sérstaklega þótti mér miður hvað höfundur var eins og aftan úr öldum þegar kom að því að segja frá hlut kvenna, þetta er nú sagnfræði fyrir nútímafólk!
Sagan um Stalín og hirð hans er mikil sorgarsaga. Eða hvaða orð hæfir betur sögu um þessa hræðilegu ógnartíma þegar það virðist sem nokkrir menn hafi getað í senn eyðilagt væntingarnar fyrir betra líf fjöldans og sitt eigið líf með stöðugri grimmd og ofsóknarbrjálæði. Enginn er öruggur um líf sitt, allir lifa og deyja í sífelldum ótta. Mér fannst erfitt að lesa þetta en samt var það merkilegt og gefandi. Átakanlegast er þó þegar Stalín snýst gegn vinum og eigin fjölskyldu. Þarna var Abraham Gamla Testamentisins ljóslifandi kominn, tilbúinn til að fórna syni sínum en það var bara aldrei neinn hrútur fastur á honunum í hrísrunna sjáanlegur. Þetta er ljót saga.
Ég er fegin að geta lagt Stalín frá mér en ég veit að ég á eftir að draga hann fram og glugga í hann, rétt eins og Biblíuna. Þessi bók lætur þó margt ósagt sem ekki er síður grimmilegt. Þar sem þetta er persónusaga Stalíns og hirðar hans en lítið fjallað um hörmungarnar sem þessi ógnarstjórn leiddi yfir milljónir óbreyttra borgara, um það fjalla aðrar bækur sem ekki er síður vert að lesa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2013 | 22:50
Ritsafn skáldkonu: Erla; Guðfinna Þorsteinsdóttir:
Í fyrradag kom í póstkassann minn lítið bréf fá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi. Þetta er kynning á ljóðasafni skáldkonunnar Erlu, Guðfinnu Þorsteinsdóttur en það á að koma út í sumar. Mér fannst gaman að lesa þessa kynningu og það rifjaði ýmislegt upp. Pabbi minn talaði oft um þessa konu og fannst hún merkileg, sjálfsagt hafa honum fundist ljóðin hennar góð en ég vissi að það var líka af því hún var Austfirðingur og alþýðukona.
Guðfinna Þorsteinsdóttir; Erla (1891--1972) var hagyrðingur og skáld og eftir hana liggur ótrúlega mikið miðað við aðstöðu hennar í lífinu til að vinna að list sinni. Hún var húsmóðir og bjó lengst af á Teigi í Vopnafirði. Hún eignaðist og ól upp níu börn. Þrátt fyrir annasamt líf sendi hún frá sér sex bækur (þar af þrjár ljóðabækur).
Í kynningarbæklingum eru birt nokkur ljóð og ég get ekki still mig um að lát tvö þeirra fylgja með:
Lán vort allt að láni er
líka getan veika.
Enginn tók hjá sjálfum sér
sína hæfileika.
Seinna ljóðið sem ég ætla að láta fylgja þessum pistli átti sérstakt erindi til mín í dag því að í dag bauðst mér tækifæri sem ég átti ekki vona á og auðvitað sagði ég já, ég veit ekki hvað ég hefði gert ef ég hefði ekki´verið nýbúin að lesa:
Tækifærið tefur ei,
taktu það í skyndi,
annars berst það frá sem fley
fyrir hvössum vindi
Það er gaman að eiga vin og skólabróður sem sendir manni slíkar gersemar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2013 | 18:05
Ég sit föst í ævisögu Stalíns
Stundum ramba ég inn á söguslóðir sem eru villugjarnar. Í fyrra var það Biblían og nú er það ævisaga Stalíns. Ég er búin með Stalín unga og er vel hálfnuð með "alvöru"-ævisöguna. Báðar þessar bækur eru eftir sagnfræðinginn Simon Sebag Montefiore. Það er satt best að segja erfitt að segja hræðileg lesning. Fyrst kemur frásagan um blóðsúthellingarnar í byltingunni, síðan kemur "sveltið mikla", loks (þar er ég stödd núna) hreinsanirnar. Það versta er að þetta er eiginlega óskiljanlegt. Hvað gekk honum/þeim til? Hvernig höfðu þeir efni á að missa allt þetta dýrmæta fólk? Erfiðast finnst mér þó að lesa um þegar morðin beinast að nánum vinum og fjölskyldu. Allt í einu fannst mér eins og ég kannast við þetta eins og ég hefði lesið þetta allt áður. Og viti menn? Ég rifjaði upp lesninguna frá því í fyrra 2. Mósesbók, 32.27:
Svo segir Drottinn Ísraels Guð:Hver einn festi sverð á hlið sér, fari síðan fram og aftur frá einu hliði herbúðanna til annars og drepi hver sinn bróður vin og frænda. ...og féllu af fólkinu á þeim degi þrjár þúsundir manna.
Þetta las ég sem sagt í fyrra án þess að það tæki nokkuð á mig en nú sé ég þessa frásögn í öðru ljósi. Stalín er nokkurs konar Móses að færa þjóð sína inn í fyrirheitna landið (útópíu kommúnismans eins og hann útfærir hann) og málstaðurinn er mikilvægari en líf.
Það er óhuggulegt að lesa þessar bækur en en óhuggulegra er að verða að viðurkenna að við erum kannski ekki komin svo mikið lengra. Þegar ég las kaflann um pyndingarnar í Stalín, sem er svo óhuggulegur að það er erfitt að lesa hann, varð mér hugsað til þess að enn í dag eru pyndingar réttlættar með því að þannig megi bjarga mannslífum og enn er viðhöfð sama tækni. (Í Biblíunni eru þetta kallaðar tyftanir, 3. Mósesbók 26.14.).
Ég hlakka til þegar ég er búin með Stalín, mér líður eins og þegar ég var að fylgja Móses í hans eyðimerkurgöngu. Það versta var að þá tók ekkert betra við en það gat ég ekki vitað meðan ég var að lesa bókina. Fyrirfram veit ég að eyðimerkurganga Stalíns tók líka sinn enda og landið sem hann reykaði um var land sjálfsblekkingar.
Þegar ég hef lokið þessari bók ætla ég að reyna gera betur grein fyrir henni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 3
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 69
- Frá upphafi: 190456
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar