27.5.2020 | 16:09
Útlagamorðin: Ármann Jakobsson
Mig langar til að segja frá síðustu bók Ármanns Jakobssonar;Útlagamorðin. Þetta er sakamálasaga, sem gerist á Reykjum,friðsömum stað á Suðurlandi. Reykir eru tilbúinn staður, einhvers konar sambland af Selfossi, Flúðum og Hveragerði.
Fullorðin kona, sem er úti að viðra hundinn sinn, kemur auga á lík í garði nágranna síns. Nýstofnað lögregluteymi frá Reykjavík er kallað til og morðrannsókn hafin. Í heimi glæpasagna liggja alltaf allir undir og þannig er er andrúmsloftið á Reykjum. Ekki bætir úr skák að þar er líka til staðar löng saga óupplýstra kattamorða og sumir spyrja gæti þetta verið sami maðurinn. Lögregluteymi Ármanns er afar trúverðugt. Í því eru tveir karlar og tvær konur, ólíkir karakterar. Ég hef mikla trú á þessu lögregluteymi og finnst líklegt að Ármann eigi eftir að nota það í fleiri bækur. Ég held sem sagt að þessi bók sé fyrsta bók af röð bóka.
En þetta tiltekna mál er snúið og leysist ekki fyrr en rétt í lokin. Mér líst einnig þannig á Reyki að þar gætu dúkkað upp fleiri morð og hlakka til næstu glæpasögu frá Ármanni.
Styrkleiki þessarar bókar eru vel gerðar og áhugaverðar persónur. Bæjarlífið á Reykjum er ekki síður lifandi og trúverðugt. Og svo eru kattamorðin að sjálfssögðu enn óleyst, þótt það sé ekki verkefni fyrir morðteymi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2020 | 20:26
Marsfjólurnar: Philip Kerr
Það er nokkuð um liðið síðan ég las bókina Marsfjólur eftir Philip Kerr og átti erfitt með að rifja upp efni hennar, þegar til átti að taka, þ.e.s.þegar ég ætlaði að taka mig til við að hugsa í gegnum hana. Gera mér grein fyrir hvað þessi bók gaf mér.
Hún gerist í Berlín á millistríðsárunum, í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar. Philip Kerr er Skoti og þekktur fyrir sögulegar skáldsögur sínar. Bókin minnti mig um margt á bók eftir þýskan höfund, Volker Kutcher, nema mér fannst meira til um bækur hans Kutschers.
Þessi bók heillaði mig ekki, ég átti í erfiðleikum með láta persónur lifna við og sullaðist því gegnum hana án samúðar eða andúðar á söguhetjunum.Þegar ég var komin áleiðis í lestrinum, minnti frásögnin mig meira á harðjaxlinn Dashiell Hammett.
Niðurstaða.
Ástæðan fyrir því að ég valdi bókina var nafn þýðandans, Helga Ingólfssonar, ég var sannfærð un að hann hefði valið góða bók til að þýða.
Líklega er þetta ágætis bók, ég er bara ekki rétti lesandinn.
Myndin er af einu duglegasta Vorblómi okkar, túnfífli!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2020 | 13:52
Himinninn yfir Novgorod
Himinninn yfir Novgorod;Deforges, Régine
Það voru mistök þegar ég valdi að lesa þessa bók. Mér fannst titillinn benda til að þarna væri rússnesk bók á ferðinni og það ýtti við forvitni minni. Ég hef góða reynslu af rússneskum bókum.
Þetta leiðréttist þó fljótlega þegar ég las mér til. Bókin er frönsk og gerist að mestu leyti í Frakklandi. En hún hefst og henni lýkur á rússneskri grund. Það sem réði úrslitum um að ég kaus engu síður að lesa hana, þrátt fyrir misskilninginn, var að hún gerist á miðöldum. Nánar til tekið á dögum Henriks fyrsta Frakklandskonungs(fæddur 1003-dó 1060). Bókin fjallar um þriðju konu hans,Önnu frá Novgorod (Novgorod kallast í norrænum heimildum Hólmgarður). Anna varð drottning í Frakklandi 1051. Bókin fjallar fyrst og fremst um lífið við hirðina og ástalíf konungs-hjónanna. Það var að því leyti sérstakt að að Henrik var samkynhneigður en þurfti stöðu sinnar vegna að skaffa ríkinu erfingja.
Það var skrýtið að lesa þessa bók sem fjallar um drauma ungrar konu,ýtarlegar lýsingar á kynlífi í bland við stjórnmál þessa tíma. Satt að segja leiddist mér bókin framan af.Ég var spenntust fyrir aldarfarslýsingum hennar en svolítið hikandi því ég vissi ekki hversu mikið mark er á þeim takandi. Mér fannst líka gaman þegar þýðandinn, Þuríður Baxter, af og til bregður sér í gerfi sögumanns og fræðir lesendur um tengingu sögunnar við norræna sögu.
Bókin kom út á Íslandi 1989 og fór sú útgáfa alveg fram hjá mér. Aftur á móti rámar mig í umsagnir um aðra bók eftir sama höfund,Stúlkan á bláa Reiðhjólinu. Hún þótti djörf.
Lokaorð
Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að það hafi verið mistök að lesa þessa bók.
Myndin af Önnu er tekin traustataki af Wikipediu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2020 | 19:27
Jakobína: Saga skálds og konu
Þegar ég hef lokið við bók Sigríðar Kristínar um móður sína Jakobínu Sigurðardóttur rithöfund, er mér þakklæti efst í huga. Mig langar til að þakka fyrir mig. Ég er búin að dvelja með Jakobínu og fólkinu hennar, á Hornströndum, í Reykjavík og Garði, í ríflega 16 klukkustundir í blíðu og stríðu. Nú langar mig til að þakka fyrir trúnaðinn sem mér er sýndur að fá að gleðjast, hryggjast og vona með skáldinu og baráttukonunni í Garði.
Mér finnst vænst um að fá að deila með henni erfiðleikunum. Það er sjaldgæft að fá fylgjast með fólki á erfiðum stundum. Hitta fólk,sem kemur til dyranna eins og það er klætt. Kærar þakkir Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir.Bókin um Jakobínu er skrifuð sem sagnfræði. Höfundur leitar víða fanga en Jakobína hafði fargað bréfum sem hún hafði í sínum forum. Engu að síður hafði höfundur úr miklu efni að moða, því samtímafólk Jakobínu var iðið við að skrifast á. Auk þess að vitna úr heimildum hefur Sigríður Kristín þann hátt á, að hún skáldar samtöl við móður sína. Þar spjallar hún við hana um það sem hún hefur uppgötvað við rannsóknir sínar á heimildum. Þessar samræður þeirra mæðgna færa lesandann enn nær manneskjunni og skáldinu Jakobínu.Bókin er ekki bara um skáldkonuna Jakobínu, hún er saga um samtíð hennar, saga alþýðukonu sem langar til að menntast og verða skáld.
En ég las ekki bara bókina um Bínu.Ég komst nefnilega að því að ein bók hennar hafði gjörsamlega farið fram hjá mér, hún heitir Sagan um Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði Kotungsdóttur, sem kom út 1959. Þar leikur Jakobína sér að því að setja þann hluta af sjálfsstæðisbaráttu Íslendinga sem sumir kalla hernámsmálið og andstöðuna gegn NATO upp í ævintýri líkingu við ævintýri sem hefjast á Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu og kóngur og drottning í ríki sínu. Þetta er pólitískt ævintýri fyrir fullorðna á undurfögru máli. Þannig að sá sem les eða hlustar eins og ég geri, finnst eins og hann sé að lesa ljóð. Þessi frásögn minnti mig á texta frá Gerði Kristnýju þegar henni tekst sem best upp.
Eftir að hafa notið þessarar frábæru bókar, rifjaðist upp fyrir mér að ég á sjálf, (jólagjöf frá syni mínum) uppi í hillu litla bók og hljómdisk sem ber nafnið Vorljóð á ýli með lögum eftir Ingibjörgu Azimu við ljóð Jakobínu. Dvöl minni með skáldkonunni með ættir af Hornströndum, lauk með þessum frábæra diski. Hann kom til mín í jólaösinni 2014 og ég hafði aldrei hlustað almennilega á hann fyrr en nú.
Myndin er af litlu ljóðakveri sem er um leið albúm fyrir hljómdisk með mokkrum ljóðum Jakobínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2020 | 15:32
Jan Guillou; Bóklestur á tímum kóvít
Ég hef verið dugleg við að lesa en löt við að skrifa. Ég sakna þess því það er orðið hluti af lestrarferlinu að skrifa um bókina. Með því að orða hugsanir mínar, fæ ég meira út úr hverri bók.
Fyrst ætla ég að tala um nýju ástina í lífi mínu, Jan Guillou (fæddur 1944).
Ég les/hlusta talsvert á sænskar bækur, reyndi meira að segja á tímabili að fylgjast með í sænskum bókmenntaheimi. Þar kynntist ég Guillou sem er sænskur maður þrátt fyrir nafnið.Hann var áberandi og er enn sem fjölmiðlamaður og rithöfundur. Ég las eina eða tvær bækur með hetjunni Hamilton í aðalhlutverki. Hamilton er mikill harðjaxl og mér líkaði ekki við hann. Það sem verra var, ég ákvað að að Guillou væri eins og Hamilton og afskrifaði hann líka.Síðan liðu mörg ár.
Að kyngja fordómum auðgar lífið
Það er gott fyrir alla að þurfa að kyngja eigin hleypidómum.
Það þurfti ég að gera nýverið.
Birgðasöfnun
Þegar þjóðin hafði verið frædd um væntanlega innrás kóvít og margir byrgðu sig upp með klósettpappír (að sögn) sá ég nauðsyn þess að verða mér úti um nægt lestrarefni, sem í mínu tilviki þarf að vera hlustunarefni.
Ég vissi að í Norræna húsinu er talsvert úrval af diskum (Þar fékk ég Min kamp eftir Karl Ove Knausgård á sínum tíma). Ég valdi Vägen till Jerusalem, kassa með 13 diskum (bókin kom út 1998). Bókin er miðaldasaga, sem gerist á 12. öld, á tímum sem mér fannst ég kannast við úr Heimskringlu. Reyndar segir Vägen till Jerusalem allt sem Heimskringla segir ekki. Hér er lýst daglegu lífi fólks,tilfinningum, trúarlífi, ást og menntun. Aðalpersóna sögunnar Arn Magnusson er af Folkungaætt. Þegar Arn verður fyrir slysi 5 ára gamall, heitir móðir hans því, að ef hann lifi, skuli hann ganga á Guðs vegum, þ.e. verða munkur. Hann elst því upp í klaustri. Þessi bók á hug mann allan meðan á lestrinum stendur. Þegar henni lauk, var Arn rétt um tvítugt og var ekki einu sinni lagður af stað til Jerúsalem. Þá voru eftir a.m.k. 2 bækur og það var búið að loka Norræna húsinu. Safnið mitt, Sólheimasafnið, var enn opið og þar tókst mér að kría út tvær bækur eftir Guillou,Fienden innom oss og Men inte om det gäller din dotter. Þetta eru frábærar bækur og ég hef fyrir löngu tekið bæði Guillou og Hamilton í sátt. Og svo skall á lokun á bókasöfnum, sem mér finnst verra en að vanta klósettpappír.
Ég hef reyndar aðgang að Hljóðbókasafni Íslands svo ég stend ekki uppi bókalaus. En það er fátt verra en að neyðast til að hætta í miðri bók.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2020 | 15:15
Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú?
Af hverju sagði mér enginn frá þessu?hugsaði ég, þegar ég var langt komin í fyrsta kaflanum í bókinni Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? Hvernig gat útkoma þessarar bókar farið fram hjá mér? Ég sem reyni að fylgjast svo vel með. Þetta voru mín fyrstu viðbrögð en ánægja mín með bókina hélt áfram að aukast eftir því sem lengra dró.
Bókin; Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? er sagnfræðileg bók eftir Hildi Hákonardóttur. Hún er að rannsaka sögu biskupsfrúnna í Skálholti. Rannsóknin nær að sjálfsögðu einungis til tímans eftir siðaskiptin, því fyrir þann tíma voru biskupar ekki giftir, þeir áttu fylgikonur.
Í þessari bók er fjallað um 9 konur og er bókin hugsuð sem fyrri bók af tveimur. Það kemur víst fáum á óvart að það hefur lítið varðveist af heimildum um þessar konur. Þess vegna beitir Hildur þeirri aðferð að grafa upp heimildir um þær með því að skoða heimildir um fólk sem tengist þeim og er þeim nákomið. Karla að sjálfsögðu. Þegar hún hefur fundið grunnheimildir, svo sem fæðingardag, foreldra, systkin, börn og fæðingardag þeirra, reynir hún að nálgast þær sem manneskjur, eiga við þær samtal. Þá er eins og þær stígi fram úr myrkri fortíðarinnar til að fræða okkur um sig og í sumum tilfellum leiðrétta fleipur og fordóma, sem þær hafa liðið fyrir.
Þetta er dásamleg bók. Hún fræðir mann ekki bara um konurnar heldur einnig um samtíma þeirra. Mér fannst sérstaklega fróðlegt að lesa um það sem sem snýr að trú og hvernig þeim hugnast hinn nýi siður. Og svo fannst mér margt sem sneri að klæðnaði og hýbýlum fólks bæta við mikilli þekkingu um fortíð okkar.
Lokaorð
Ef þið sem lesið þetta, hafið ekki þegar lesið þessa bók, þá bendi ég ykkur hér með á hana.Hún lyftir andanum.
Bókin er lesin af Ingunni Ásdísardóttur. Hún er ein af mínum uppáhaldslesurum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.9.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 190987
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar